Torfi H. Tulinius
Torfi H. Tulinius
TORFI H. Tulinius, dósent í frönsku við Háskóla Íslands, var leiðbeinandi Huldu Sifjar Birgisdóttur í gerð lokaverkefnis á BA-stigi.

TORFI H. Tulinius, dósent í frönsku við Háskóla Íslands, var leiðbeinandi Huldu Sifjar Birgisdóttur í gerð lokaverkefnis á BA-stigi. Hann segist hafa bent Huldu Sif á að nýta sér dvölina í Montpellier sem grunn að verkefni um máltöku frönsku sem erlends máls. "Þannig gat hún tvinnað saman fræðilega vinnu og eigin reynslu af því að ná betri tökum á frönsku máli. Eftir því sem á leið skýrðist það hvernig hún ætlaði að nálgast viðfangsefnið." Torfi telur, að hún hafi fundið sér ákaflega áhugaverða leið í lokaverkefninu sem auk þess sé líkleg til að skapa nýja þekkingu á því flókna og margþætta ferli sem það sé að ná tökum á nýju tungumáli.

"Grunnhugmynd hennar er að skoða einstaklingsbundna reynslu þess sem lærir erlent tungumál og áhrifin á margvíslega þætti í persónunni," og bætir við, að Hulda Sif líti svo á að mun fleiri þættir en málfræðiþekking og orðaforði komi inn í tungumálanámið, svo sem menningarlegir, félagslegir og ekki síst tilfinningalegir þættir. "Einvörðungu þegar tekið er tillit til allra þessara þátta öðlumst við skilning á máltöku erlends máls. Hulda Sif skoðar sérstaklega hvað gerist við aðstæður þar sem mjög margir læra erlent tungumál, þ.e. í landinu þar sem málið er talað af innfæddum. Það er sérstök tilvistarleg reynsla að vera í umhverfi þar sem allir hafa betra vald á tungumálinu en maður sjálfur."

Rannsókn Huldu Sifjar varpar, að mati Torfa, ljósi á þessar aðstæður, bæði með ítarlegri fræðilegri umræðu, "en líka með stuðningi af viðtölum sem hún tók við fólk sem var í þeirri stöðu að búa í landi þar sem talað var tungumál sem það hafði ekki fullkomið vald á," bætir Torfi við að lokum.