Sjávarútvegurinn stendur í blóma á sjómannadeginum í ár. Kjör sjómanna eru góð og í sumum tilvikum frábær eins og vera ber. Þróunin í útgerðinni er að vísu umhugsunarefni, þar sem hún virðist vera að færast á hendur örfárra aðila.

Sjávarútvegurinn stendur í blóma á sjómannadeginum í ár. Kjör sjómanna eru góð og í sumum tilvikum frábær eins og vera ber. Þróunin í útgerðinni er að vísu umhugsunarefni, þar sem hún virðist vera að færast á hendur örfárra aðila. Kvótakerfið býður upp á það og forsvarsmenn sjómanna hafa ekki haft mikið við helztu þætti þess að athuga. Á þessum sjómannadegi hafa hins vegar orðið þau þáttaskil í umræðum um kvótakerfið að auðlindagjald er orðið að lögum.

Eftir að deilum um auðlindagjald er lokið að mestu, þótt þær muni áfram snúast að einhverju leyti um upphæðir, má búast við að athygli þjóðarinnar beinist í auknum mæli að málefnum smábátaútgerðar. Ýmislegt bendir til, að smábátaútgerð sé að verða hagkvæmari útgerð en útgerð stórra og dýrra fiskiskipa. Framfarir í smíði smábáta og tæknilegum búnaði þeirra hafa vakið upp áleitnar spurningar í þessu sambandi. Þessi þróun opnar alveg nýjar víddir fyrir sjómenn sjálfa. Þeir eiga auðveldara með að verða sínir eigin herrar.

En þrátt fyrir allar framfarir eru öryggismál sjómanna efst á blaði. Enn verða hörmuleg og átakanleg slys á hafi úti. Við Íslendingar megum ekkert til spara til að tryggja öryggi sjómanna okkar. Afkoma þjóðarinnar mun enn um langan aldur byggjast á störfum þeirra.

Morgunblaðið flytur íslenzkum sjómönnum árnaðaróskir á sjómannadaginn.

Utanríkisráðherra í Mið-Austurlöndum

Heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Mið-Austurlanda er mikilvæg. Ekki vegna þess, að við Íslendingar getum lagt eitthvað af mörkum, sem máli skiptir til þess að leysa deilur þjóðanna þar. Það er ekki á okkar valdi og heldur ekki miklu fjölmennari þjóða en við erum. Þeir einu, sem hafa hernaðarlegt og fjárhagslegt bolmagn til þess, eru Bandaríkjamenn.

Heimsókn utanríkisráðherra á þessar slóðir og samtöl hans við ráðamenn í Ísrael, Palestínu og víðar er þýðingarmikil vegna þess, að með henni getur Halldór Ásgrímsson miðlað meiri og nákvæmari upplýsingum til íslenzku þjóðarinnar um stöðu mála á þessu svæði en íslenzkir fjölmiðlar geta af sjálfsdáðum gert.

Utanríkisráðherra fær upplýsingar frá fyrstu hendi um sjónarmið deiluaðila og mismunandi viðhorf þeirra. Með því að miðla þeim upplýsingum til landsmanna stuðlar hann að því, að við skiljum betur hvað er að gerast í Mið-Austurlöndum.

Þetta á ekki bara við um þessa tilteknu heimsókn heldur er þetta kannski kjarni máls í sambandi við ferðir íslenzkra ráðamanna víða um heim. Þjóðin verður betur upplýst fyrir vikið og það skiptir máli.