Mary Palmer
Mary Palmer
Mary Palmer er fædd í Alexandriu í Virginiu 1955. Hún er með gráðu í bráðalækningum og jafnframt menntuð í klínískri eiturefnafræði. Vann sem sérfræðingur á því sviði við NYC Poison Control Center. Maki er Edwin Brown yngri, starfsmaður við bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Þau eiga tvö börn, Christopher Palmer 7 ára og Matthew Emery 3 ára.
Mary Palmer er fædd í Alexandriu í Virginiu 1955. Hún er með gráðu í bráðalækningum og jafnframt menntuð í klínískri eiturefnafræði. Vann sem sérfræðingur á því sviði við NYC Poison Control Center. Maki er Edwin Brown yngri, starfsmaður við bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Þau eiga tvö börn, Christopher Palmer 7 ára og Matthew Emery 3 ára.

Í næstu viku er ráðstefna í bráðalækningum hér á landi. Mary Palmer, læknir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, er í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar og svaraði hún nokkrum spurningum Morgunblaðsins.

Hvert er inntak ráðstefnunnar?

"Umfjöllunarefnið er bráðalækningar, sem er fyrsta meðferð og sú þekking sem felst í því að leysa vandamál sem þola enga bið. Þær ná yfir ferli og innígrip sem bjarga lífi og limum. Þessi þriggja daga ráðstefna mun ekki aðeins hressa upp á þekkingu reyndra sérfræðinga í bráðalækningum sem hingað koma frá Ástralíu, Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum heldur einnig alla þá sem koma að fyrstu hjálp, allt frá læknanemunum sem takast á við sín fyrstu vandamál og til heimilislækna sem vilja auka við þekkingu sína. Á ráðstefnunni munum við einnig taka fyrir nýja tækni sem gæti hugsanlega átt vel við á Íslandi, svo sem fjarlækningar sem hafa náð fótfestu og skilað árangri á afskekktum svæðum í öðrum löndum. Einnig verður komið inn á forvarnarmál í tengslum við umferðaröryggi, nauðganir og heimilisofbeldi. Í stuttu máli fá þátttakendur á ráðstefnunni ótrúlega mikið fyrir eyrinn með setu á ráðstefnunni, enda spannar hún furðumörg svið."

Segðu okkur eitthvað frá fyrirlesurunum.

"Fyrirlesarahópurinn er í einu orði sagt stórkostlegur. Þetta eru bestu og hæfustu sérfræðingarnir á þessum sviðum. Ég fletti upp á höfundum allra helstu þekkingarrita sem ég hef á skrifstofu minni og það er einmitt fólkið sem er á leiðinni hingað eftir tæpa viku. Bandarískir kollegar mínir í bráðalækningum hafa spurt mig hvernig í veröldinni mér hafi tekist að setja saman þvílíkt einvalalið. Þetta er einstakt tækifæri til að hitta og hlýða á helstu sérfræðingana á þessu sviði."

Hvers vegna eru bráðalækningar ekki komnar lengra á veg á Íslandi en raun ber vitni?

"Reyndar var Ísland fyrst Norðurlandanna til að taka upp bráðalækningar sem sérgrein og við erum stolt af því. Hins vegar hefur þróunin verið hæg. Þetta eru orðin tíu ár og framgangur greinarinnar er á mjög viðkvæmu stigi. Greinin nær þó alls staðar fótfestu vegna þess að hún eykur ánægju fólks í heilbrigðisstéttum. Sjúklingar kunna að meta hæfni og þjónustu þá sem sérfræðingar í bráðalækningum hafa yfir að ráða. Stjórnvöld kunna að meta framlag greinarinnar vegna forvarnargildis hennar og samstarfsaðilar í heilbrigðisgeiranum kunna því vel að hafa reynda sérfræðinga til að sjá um afgreiðslu mála í bráðamóttökum, jafnvel að nóttu til, um helgar og á frídögum. Þegar fólk venst okkur, getur það ekki hugsað sér heildarþjónustuna án okkar. Eini vandinn er að það tekur vissan tíma að aðlagast breytingunni."

Mun þetta ganga upp á Íslandi?

"Í löndum þar sem ríkis- og háskólastofnanir standa að baki bráðalækningum eru vöxtur og þróun þeirra gríðarleg. Við sjáum það best í Póllandi þar sem bráðalækningar hófust um líkt leyti og á Íslandi. Þar eru bráðalækningar hins vegar undir menntastofnun og lúta heilbrigðisreglugerðum. Svíar, Eistar og Litháar eru á sömu leið með sínar bráðalækningar og Pólverjar.

Það er ekki nokkur vafi á því, að Ísland gæti orðið, og ætti að vera, leiðandi þjóð í bráðalækningum í Evrópu, án þess þó að glata séríslenskum einkennum sínum. Nú þegar er umönnun utan spítala vel þróuð og í landinu er lítill hópur einbeitts og vel þjálfaðs starfsfólks á bráðamóttökum. Þessu þarf að fylgja eftir með því að stækka þennan kjarna með þjálfun og ráðningum á fleira starfsfólki. Til að slíkt gerist þurfa stofnanir, ríki, háskólar og spítalar, að leggjast á eitt. Þetta þokast allt í áttina, endurskipulagning bráðamóttöku Landspítalans er til marks um það.

Því miður sér unga fólkið síður þessa þróun. Það sér öllu frekar að við erum upp við vegg og höfum ekki þann munað að geta gefið okkur tíma til að kenna lærlingunum samhliða því að sinna bráðalækningunum vegna hins mikla vaxandi fjölda þeirra sem sækja í bráðamóttökuna. Þess vegna eru þessir fáu krakkar, sem vinna með okkur þrátt fyrir erfiðleikana, gulls ígildi því þeir sjá hvert stefnir, hvað þarf að gera og eru þess vegna leiðtogar framtíðarinnar. En það þarf að hlúa að þeim."

Telurðu að ráðstefnan muni flýta fyrir gangi mála hér á landi?

"Það vona ég svo sannarlega. Hefurðu einhvern tímann lent í brjálaðri vinnu, fjarstæðukenndum hugmyndum og stöðugum fórnum fyrir lítinn eða engan ávinning og það eina sem rekur þig áfram er tilhugsunin að eitthvað merkilegt kunni að skila sér og sé bara rétt handan við hornið? Þannig er þetta mál. Þessi ráðstefna virtist hreinlega velja mig. Ég hef frá upphafi aldrei litið svo á að hér sé aðeins um þrjá daga í júní að ræða. Við erum að tala um stefnu sem fer nú um alla Evrópu og Ísland er með fyrstu löndunum til að tileinka sér hana."