ÁGÆTI verðandi bæjarstjóri, Árni Sigfússon.

ÁGÆTI verðandi bæjarstjóri, Árni Sigfússon. Um leið og við hjónin óskum þér til hamingju með kosningarnar vil ég minnast á málefni varðandi stjórnsýsluna í Reykjanesbæ sem ég tel betra að þér sé kunnugt um þegar þú tekur við yfirverkstjórn Reykjanesbæjar á núverandi kjörtímabili. Ekki það að við hjónin vantreystum þér til verksins. Heldur hitt, að bæjarstjóraembættið virðist snúið og í embættismannakerfi bæjarins eru misjafnir sauðir, sem og annars staðar. Þá vil ég reifa hugmynd þess efnis að þú komir upp tvöföldu eftirlitskerfi með stjórnsýslunni í Reykjanesbæ þannig að tryggt verði að þröngir einkahagsmunir embættis- eða bæjarráðsmanna blandist ekki málefnum stjórnsýsluákvarðana og geri umsýslu og lagasetningar tortryggilegar.

Sendi þér tvö dæmi sem betur mættu fara:

Að komast upp með að hirða lóðir af fólki, án bóta.

Fyrrverandi meirihluti og embættismannakerfi Keflavíkur notaði tækifærið þegar við keyptum húsið okkar fyrir 10 árum og hirti til sín, með einhliða þinglýstri yfirlýsingu, sneið af eignarlóð okkar við Hafnargötu 18 upp á 122 fm, - sagði það vegna skipulagsbreytinga á svæðinu. Þegar leitað var leiðréttinga eða bóta var svarið að "þetta hafi verið framkvæmt með löggjörningi, rétt áður en við eignuðumst hús og lóð og kæmi okkur því ekki við". Þó keyptum við eignina með þeim formerkjum "að henni fylgdi það sem fylgja bar", þar með taldir umræddir fermetrar. Við höfum ítrekað reynt að fá þessum gjörningi aflýst án árangurs. Þess skal getið að bærinn á ekkert afsal eða annan eignarnámsgjörning fyrir þessum fermetrum. Einungis áðurnefnda yfirlýsingu.

Þá vil ég greina þér frá samflokksmanni þínum. Köllum hann hr. Grandvar. Hr. Grandvar Guðjónsson, bæjarstjórnar- og bæjarráðsmaður, hyggst byggja sér hús við Hafnargötuna í Keflavík. "Deiliskipulag í almannaþágu."

Á útmánuðum síðasta árs fékk Grandvar þá hugmynd að fá úthlutað lóð sem er í eigu bæjarins. Lóðin er staðsett við hliðina á okkar lóð. Á lóð Grandvars skal rísa allt að þriggja hæða hús. Húsið passaði ekki inn í skipulagið vegna stærðar, útlits og krafna um næg bílastæði. Umsókn Grandvars var samt meðhöndluð hjá byggingaryfirvöldum með sérstakri vandvirkni og lét byggingarnefnd bóka eftir sér röksemdir þess efnis, að deiliskipuleggja þyrfti miðbæjarsvæðið til að fyrirbyggja andstöðu við áform Grandvars og hugsanlega lögsókn á hendur stjórnsýslunni. Deiliskipulagið var síðan samþykkt undir þeim formerkjum að um framtíðar deiliskipulag Hafnargötunnar væri að ræða. Og nú eru allir lóðarhafar í nágrenni við fyrirhugað hús Grandvars réttindalausir. Þeir geta mótmælt, - en hafa engin áhrif á framgang byggingaráforma hans. Hvernig verða menn réttindalausir? Gætir þú spurt. - Jú, húsin sitt hvoru megin við hús Grandvars eru gerð "víkjandi" Þau skal rífa og ekki nóg með það: Nærliggjandi lóðir eru gerðar að kvaðalóðum með gegnum akstri og opnum bílastæðum fyrir svokallað framtíðar miðbæjarsvæði. Þetta hlýtur þó að vera bótaskylt? Spyrð þú væntanlega. - Nei, alls ekki segja byggingaryfirvöld Reykjanesbæjar. Þau senda mér svohljóðandi yfirlýsingu við mótmælum: "Með breyttu deiliskipulagi er heimilað að rífa núverandi hús, ef viðkomandi eigandi óskar eftir því, og heimilað verður að byggja allt að 465 fm í stað þeirra 258 fm sem eru á lóðinni. Skipulags- og byggingarnefnd fær ekki séð að breytt skipulag valdi á nokkurn hátt verðrýrnun á viðkomandi eign." Hér eru byggingaryfirvöld að tala um húsið sem ég endurbyggði á sl. ári. Ég má rífa það og byggja stærra. - Þökk sé þeim! - Var ég annars að biðja um leyfi fyrir stærra húsi?

Þetta eru ekki tilvísanir í ævintýrið um Lísu í Undralandi, hr. Árni Sigfússon, það getur þú kynnt þér á heimasíðu minni: http://www.netverslun.com/hafnargata sem hefur að geyma afrit af öllum gjörningum varðandi lóðina og húsið.

Með bestu kveðju og óska þér farsældar í starfi sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

GUNNAR GEIR

KRISTJÁNSSON,

Hafnargötu 18, 230 Keflavík.

Frá Gunnari Geir Kristjánssyni: