MIG langar aðeins að vekja athygli nýkjörinna sveitarstjórnarmanna á ákveðnu vinnulagi sem gerir þá sýnilega, ekki aðeins rétt fyrir kosningar. Þannig er að eftir kosningar skipta menn með sér verkum og setu í málefnanefndum.

MIG langar aðeins að vekja athygli nýkjörinna sveitarstjórnarmanna á ákveðnu vinnulagi sem gerir þá sýnilega, ekki aðeins rétt fyrir kosningar. Þannig er að eftir kosningar skipta menn með sér verkum og setu í málefnanefndum. Þetta er auðvitað mismikið starf og umfang. Í stærstu sveitarfélögunum er hafa yfir 12 þúsund íbúa er jafnan litið svo á að sá sveitar- eða bæjarstjórnarfulltrúi geri setu sína að aðalstarfi. En eitt finnst mér á vanta í verklagi. Þessir fulltrúar eru ekki mjög sýnilegir. Þar sem ég þekki til telst það til undantekninga að t.d. fulltrúar skólanefndar sjáist á kennarafundum skólanna. Ef þeir koma þá er það rækilega auglýst fyrirfram og fjallað um eitt afmarkað málefni. Reyndar man ég ekki eftir slíku tilefni á sl. kjörtímabili. Eitt er að halda skólanefndarfundi í ákveðnum skóla sem er í sjálfu sér ágætt. Þá er farið um skólann í fylgd skólastjórnenda og ekki gert ráð fyrir að fleiri séu í för. Það sem vantar er að fulltrúinn í málefnanefndinni komi á starfsmannafund og fylgist með umræðum og jafnvel sé reiðubúinn að taka þátt í umræðum. Ég hef reyndar rætt þetta við nokkra sveitarstjórnarmenn en þeir bera því við að slíkir fundir séu ekki markvissir. Þegar sveitarstjórnarfulltrúinn birtist sé strax farið að skammast og gagnrýna það sem illa hefur verið gert. Sjaldan sé fjallað um málefnið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Ég held að þetta sé misskilningur og bið ykkur nýkjörna fulltrúa að kynna ykkur og sjást í fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins.

Gísli Baldvinsson,

náms- og starfsráðgjafi.

Frá Gísla Baldvinssyni: