SKIPAÐ verður í nýja stöðu forstöðumanns fréttasviðs Ríkisútvarpsins frá og með næsta hausti og verður starfið auglýst innan fárra vikna.

SKIPAÐ verður í nýja stöðu forstöðumanns fréttasviðs Ríkisútvarpsins frá og með næsta hausti og verður starfið auglýst innan fárra vikna. Fréttastjórar útvarps og sjónvarps munu framvegis heyra beint undir forstöðumann fréttasviðs en þeir störfuðu áður undir viðkomandi framkvæmdastjóra.

Að sögn Markúsar Arnar Antonssonar útvarpsstjóra liggur langt vinnuferli að baki ákvörðuninni og er markmið að ná fram hagkvæmni í rekstri fréttastofa útvarps og sjónvarps. Að auki munu textavarp og vefurinn heyra undir forstöðumanninn.

Fram kom í tillögum Ríkisendurskoðunar í kjölfar stjórnsýsluúttektar árið 1995 að æskilegt væri að sameina fréttastofur útvarps og sjónvarps. Markús Örn bendir á að þegar Sjónvarpið flutti starfsemi sína í Efstaleiti hafi menntamálaráðuneytið sett fram kröfur um að sem mestri hagkvæmni yrði náð í rekstri og samlegðaráhrifum í ljósi þess að útvarp og sjónvarp störfuðu undir sama þaki.

Útvarpsstjóri skipaði í kjölfarið starfshóp til að fara yfir framtíðarskipulag fréttastarfseminnar. Í þeim starfshópi sátu framkvæmdastjórar útvarps og sjónvarps, fréttamenn og fréttastjórar. Niðurstaðan varð sú að sett yrði á laggirnar sameiginlegt fréttasvið en að fréttastofurnar störfuðu áfram sjálfstætt innan þess.

Í nánu samstarfi við framkvæmdastjóra

Fyrir liggur umsögn fréttamanna og álitsgerð ráðgjafarfyrirtækisins Deloitte & Touche vegna breytinganna og telur Markús Örn ágæta sátt um málið og að tekið hafi verið tillit til óska fréttamanna.

"Það hefur komið fram mikil og þung áhersla af hálfu fréttamannanna um að fréttastofurnar verði áfram mjög sjálfstæðar," segir Markús Örn.

Að hans sögn mun forstöðumaður sjá um margvíslega samræmingu á aðgerðum þar sem það á við, meðal annars eflingu fréttaritarakerfis fyrir báða miðla og stjórnsýsluviðgangsefni innan stofnunarinnar og utan. Þá er forstöðumanni ætlað að verða stefnumótandi varðandi starfsreglur innan fréttasviðs. "Við teljum að með þessari ráðstöfun megi bæta þjónustuna og fréttastarfsemi og styrkja Ríkisútvarpið sem fréttamiðil í þeirri samkeppni sem ríkir."