[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÚ er veturseta mín í Kaliforníu á enda og þrátt fyrir að hún hafi verið hin prýðilegasta er ég afskaplega ánægð að vera komin heim.

NÚ er veturseta mín í Kaliforníu á enda og þrátt fyrir að hún hafi verið hin prýðilegasta er ég afskaplega ánægð að vera komin heim. Í bland við gleðilega endurfundi við vini og ættingja er eins og ákveðið samanburðarferli hafi farið sjálfkrafa af stað inni í hausnum á mér. Kannski er það þotuþreytan og tímaruglið.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er löggæslan og hegðun lögreglumanna í samskiptum sínum við saklausa óbreytta borgara.

Í vetur lenti ég aðstæðum þar sem ég fékk algjört sjokk yfir framgöngu bandarísku lögreglunnar. Ég var á gangi með manninum mínum eftir aðalgötu Berkeley (sem er um 100.000 manna bær). Við vorum á leið á vídeóleiguna að skila spólu klukkan fimm á sunnudagseftirmiðdegi og gangstéttin var þéttskipuð fólki, þar á meðal fólki í hjólastólum og börnum. Allt í einu heyrði ég mann fyrir aftan okkur hrópa. Þetta gerist gjarnan, þannig að við kipptum okkur ekkert upp við hrópin, en þegar þau urðu háværari og við fórum að greina orðaskil hætti okkur að lítast á blikuna; ,,Frjóstu! Upp með hendur! Þú þarna í svarta jakkanum, upp með hendur!!!"

Fyrir framan gekk einmitt svartklæddur maður sem fálmaði einhver ósköp undir jakkann sinn. Ég leit snöggt aftur fyrir mig og varð þá litið upp í opinn byssukjaft. Á byssunni hélt lögga sem beindi henni að bófanum í svarta jakkanum, þrátt fyrir að á milli þeirra væru grandalaus hjón með vídeóspólu sem höfðu samt vit á því að stinga sér inn í húsasund sem var heppilega staðsett við hlið þeirra. Þar horfðu þau á löggumanninn snúa bófann niður, börðu svo læstar dyrnar í húsasundinu að utan og var loks hleypt inn bakdyramegin á írskan bar þar sem þau stöldruðu við um stund til að róa taugarnar.

Án nokkurrar umhugsunar fóru þau síðan niður á lögreglustöð til að leggja fram formlega kvörtun. Þar var fyrir varðstjóri sem gerði allt sem hann gat til að hindra að þau færu í mál við lögguna, viðurkenndi aldrei að gerð hefðu verið mistök, en hélt því blákalt fram að löggan hefði með tilburðum sínum verið að vernda þau. Einmitt.

Mér var ómögulegt að skilja hvernig hann fékk þetta út, það voru örfáir metrar milli löggunnar og bófans og við vorum á milli þeirra þegar byssa var dregin upp. Augljóst var að bófinn var líka vopnaður, ég hef séð nógu margar löggumyndir til að vita að löggur beina ekki byssum að óvopnuðum mönnum og það sem ég var hræddust við var að bófinn myndi skjóta aftur fyrir sig þegar hann áttaði sig á því að löggan væri þar vígreif. Þetta útskýrði ég fyrir varðstjóra og spurði hvort þessi vinnubrögð væru viðunandi, hvort það þætti ekki sjálfsagt að gæta þess að óbreyttir borgarar væru ekki í beinni skotlínu í svona tilfellum, hvað þá allt fólkið í kring þar á meðal börn sem hefðu auðveldlega getað orðið fyrir voðaskoti. Þá fór hann út í miklar málalengingar um alla þá þjálfun sem lögreglumenn búa að og að þeir væru allir mjög nákvæmar skyttur o.s.frv. ,,En þessi sem átti að handtaka, hann er ekkert endilega þjálfaður" sagði ég og þá sagði varðstjóri okkur blákalt að ef bófinn hefði sýnt minnstu tilburði í ofbeldisátt hefði löggan skotið hann á færi ,,þannig að þið voruð ekki í hættu" ítrekaði hann. Nei, einmitt, það hefði bara verið þægileg lífsreynsla að sjá mann skotinn tveimur metrum fyrir framan sig.

Varðstjóri sagði okkur svo að umræddur maður hefði verið nýbúinn að fremja vopnað rán með byssu og reyndi eins og hann gat að sannfæra okkur um að löggan hefði verið að vernda okkur. ,,Hann hefði mjög auðveldlega getað tekið ykkur sem gísla! Beint byssu að höfði ykkar til að sleppa við handtöku. Hugsið ykkur! Þið ættuð að vera þakklát." Við fórum án þess að þakka fyrir okkur.

Í gær sagði systir mín mér svo frá því að hún hefði átt samskipti við lögregluna í Kringlunni. Þar stóð hún í sakleysi sínu að skoða sundföt þegar tveir lögregluþjónar, einn einkennisklæddur og einn óeinkennisklæddur, komu upp að henni og sögðu henni að vera alveg róleg en svo vill til að hún líkist mjög ungri konu sem er grunuð um stórfellt búðahnupl. Systur minni stálheiðarlegu var brugðið og hélt fyrst að verið væri að þjófkenna sig en löggurnar voru mjög kurteisar og báðust afsökunar á ónæðinu en ástæða þess að þeir komu að máli við hana var að þeir vildu fá hana til að taka þátt í sakbendingu nokkrum dögum síðar. Þar átti hún að standa með hinni grunuðu og nokkrum öðrum sem líktust henni og restina þekkjum við úr löggumyndum. Hún sagðist því miður ekki komast í sakbendinguna því hún yrði farin til Ítalíu, ,,ekkert mál," sögðu löggurnar, ,,takk samt," sögðu þær svo og kvöddu.

Í framhaldi af pælingum um að allt sé eins og í sjónvarpinu varð mér hugsað til þess að mín löggusaga minnir á atriði úr Dirty Harry-mynd á meðan löggusaga systur minnar minnir á atriði úr falinni myndavél hjá Hemma Gunn. Hvað það segir um Ísland og Bandaríkin veit ég ekki alveg en það má velta því fyrir sér. Eitt er víst að mér finnst alltaf jafn indælt að koma heim.