Elín Halldórsdóttir
Elín Halldórsdóttir
Elín Halldórsdóttir söng íslensk sönglög, ljóðasöngva eftir Schubert, Schumann og Strauss og óperuaríur eftir Mozart, Wagner, Verdi, Puccini og fleiri. Meðleikari á píanó var Richard Simm. Sunnudag kl. 20.00.

ÞAÐ er alltaf ákveðinn spenningur sem fylgir því að heyra í nýjum söngvurum; heyra nýjar raddir og hvernig þær falla bæði að okkar eigin söngarfi og þeim sem tilheyrir heimsmenningunni. Elín Halldórsdóttir sópransöngkona er ein af þeim fjölmörgu sem stundað hafa söngnám erlendis, en er nú komin heim til að kynna sig, áður en hún heldur í frekari landvinninga á erlendri grund.

Elín er fjölmenntuð tónlistarkona og hefur auk söngmenntunar náð sér í próf í píanóleik.

Elín Halldórsdóttir hefur margt það til að bera sem söngvarar þurfa að hafa; fyrst og fremst mikla rödd. Á besta raddsviði hennar hljómar röddin voldug og kraftmikil. Vandinn er hins vegar sá að röddin er enn mjög ójöfn milli raddsviða, og besti hluti hennar enn á of takmörkuðu raddsviði. Það vantar meiri hljóm bæði á efstu tónana, en þó enn tilfinnanlegar á neðsta raddsviðið.

Elín þarf að vinna talsvert betur í að fá meiri fókus í röddina; - aga hana og jafna. Þindarstuðningur þarf að vera jafnari, þannig að hendingar hefjist ekki á glæsilegum og þéttum hljóm sem er svo búinn löngu áður en hendingin er á enda, eins og gerðist alloft á tónleikunum. Betri fókus í röddinni myndi líka hjálpa til við skýrari framburð; en Elín átti í vandræðum bæði með sérhljóða og samhljóða. Sérhljóðar, eins og e og ö, voru nánast bornir fram sem i og u og samhljóðar voru óskýrir.

Efnisskrá Elínar var sett saman af íslenskum sönglögum, ljóðasöngvum og óperuatriðum.

Það sem best var á tónleikunum voru sönglög Jóns Þórarinssonar, Íslenskt vögguljóð á hörpu og Fuglinn í fjörunni, sem Elín söng mjög fallega. Því miður voru ljóðasöngvarnir eftir Schubert, Schumann og Strauss ekki góðir. Þar vantaði fyrst og fremst næmi fyrir orðsins list og túlkun. Styrkleikabreytingar voru víða mjög fallega mótaðar, en það dugði ekki til, þegar tilfinningin fyrir innihaldi ljóðanna var ekki fyrir hendi og maður fann ekki fyrir lýrískri framvindu laganna. Það er djarft að tefla fram ljóðum eins og Morgen, Allerseelen og Die Lotosblume og Gretchen am Spinnrade á fyrstu einsöngstónleikum, og ef til vill hefði verið ákjósanlegra að ráðast fyrst í viðráðanlegri verk.

Pie Jesu úr Sálumessu eftir Sigurð Sævarsson var forvitnileg tónsmíð, einföld en mjög falleg. Óperuaríurnar voru misgóðar í flutningi Elínar. Porgi amor úr Brúðkaupi Fígarós og Draumur Elsu úr Lohengrin voru bestar.

Þrátt fyrir ágalla í tæknilegri og músíkalskri úrvinnslu söngsins hefur Elín Halldórsdóttir ýmislegt sér til tekna. Eins og áður sagði er það fyrst og fremst mikil rödd, en ekki síður hlýja og mikil útgeislun á sviði. Þetta eru þættir sem eru ekki öllum söngvurum gefnir og mikils virði fyrir þá sem ætla sér að feta þessa braut.

Richard Simm lék með Elínu á píanóið; afskaplega vel. Gott dæmi er leikur hans í Morgen eftir Strauss; dæmalaust fallegur; brothættur, glitrandi og gegnsær í senn og fullkomlega í anda þessa viðkvæma ljóðs. Hann hafði íslensku lögin í hendi sér og óperuaríurnar hristi hann fram úr erminni með glæsibrag.

Bergþóra Jónsdóttir