Anna Kisselgoff segist hafa mótast af marg-þættum bakgrunni sínum, en hún er af rússneskum ættum, fædd í París og alin upp í kínversku andrúmslofti í New York.
Anna Kisselgoff segist hafa mótast af marg-þættum bakgrunni sínum, en hún er af rússneskum ættum, fædd í París og alin upp í kínversku andrúmslofti í New York.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANNA Kisselgoff er einn þeirra fjölmörgu Bandaríkjamanna sem eiga sterkar rætur í Evrópu. Amma hennar og afi flúðu frá Rússlandi til Parísar eftir byltingu og sjálf er hún fædd í París þótt hún hafi alið mestan sinn aldur hinum megin Atlantsála.

ANNA Kisselgoff er einn þeirra fjölmörgu Bandaríkjamanna sem eiga sterkar rætur í Evrópu. Amma hennar og afi flúðu frá Rússlandi til Parísar eftir byltingu og sjálf er hún fædd í París þótt hún hafi alið mestan sinn aldur hinum megin Atlantsála. "Sjálf er ég þó mjög bandarísk," segir Anna, "hér gekk ég í skóla og hér er mitt ríkisfang. Það voru þó foreldrar mínir sem mest mótuðu líf mitt, en þau voru bæði mjög vel menntuð svo ég fékk tækifæri til að hitta mikið af áhugaverðu fólki í uppvextinum. Móðir mín var sérfræðingur í klassískri kínversku og vann með helstu hljóðfræðingum heims í Frakklandi og það má því segja að ég hafi átt kínverska bernsku í New York, meðal kínverskra samverkamanna hennar," segir Anna og brosir, "en sérfræðigrein mömmu var tungumál hinna sögulegu handrita Kína frá þrettándu öld. Faðir minn var hagfræðingur og líklega þekktastur fyrir að skilgreina hugtakið "fátækt" fyrir Lyndon B. Johnson forseta, þegar hann var að skera upp herör gegn fátækt í landinu.

Sem barn naut ég einnig tengsla ömmu minnar inn í listheim Parísarborgar, en hún tengdist m.a. ballettflokki rússans Diaghilev, en síðasti danshöfundur hans var enginn annar en George Balanchine. Amma fór með mömmu að sjá ballett þegar hún var fjögurra ára og mamma kynnti mig síðan fyrir ballettlistinni hér í New York þegar ég var fjögurra ára, svo áhuginn gengur í erfðir."

Þriðja kynslóð ballettaðdáenda

Amma Önnu þekkti marga þá frægu málara sem unnu við leiktjöld og hönnun danssýninga Diaghilevs, og hún segir tengslin inn í skapandi heim dansins alltaf hafa verið mjög sterk. "Ég er af þriðju kynslóð ballettaðdáenda og lít á það sem gæfu mína að hafa getað gert áhugamál mitt að ævistarfi mínu. Það sem kveikti í mér áhugann var sýning leikmanna á Svanavatninu í rússneskri kirkju í Harlem, fjögurra ára gömul. Þar upplifði ég það sem Isadora Duncan sagði að gerðist á meðal svo margra barna - ég varð heilluð af sjónarspili ballettsins. Duncan mislíkaði það stórlega, því hún var þeirrar skoðunar að nútímadans ætti fyrst og fremst að vera trúr möguleikum mannslíkamans í hreyfingu. En ég heillaðist sem sagt af hvítu tjullpilsunum og sagði mömmu minni að mig langaði til að læra að dansa. Ég var sett í nám hjá Valentínu Belova strax fjögurra ára, en það var alltof snemmt svo ég dró mig í hlé. Um átta ára aldurinn var ég aftur komin í læri og þá hjá Jean Yazvinsky, sem var nemandi Diaghilevs.

Ég entist í þessu dansnámi í átta ár, en fjórtán ára vissi ég að ég var ómögulegur dansari og latur nemandi - þrátt fyrir óbilandi dálæti mitt á dansinum sem slíkum. Ég vil því taka það fram að ég er ekki vonsvikinn dansari, heldur viðurkenndi ég bara fyrir sjálfri mér að dansinn væri sársaukafullur, ég þoldi ekki teygjuæfingarnar og þaðan af síður gólfþvottinn.

Þetta kom mér þó allt til góða að lokum því ég er sannfærð um að góður dansgagnrýnandi verður að hafa mikla þekkingu á dansi. Nú eru því miður að koma fram á sjónarsviðið dansgagnrýnendur sem skrifa eins og leikmenn - þeir skrifa um dans einungis af því þeim finnst hann skemmtilegur. Það er bara ekki nóg, maður verður skynja heildarmyndina á sviðinu, eins og áhorfandinn, en hafa auk þess þekkingu á því sem býr undir yfirborðinu."

Erfitt fyrir konur að hasla sér völl í blaðamennsku

Þegar Anna Kisselgoff hafði lokið háskólanámi við Bryn Mawr-kvennaháskólann hélt hún um tíma til Frakklands til að lesa sagnfræði, en meistaraprófi í þeirri grein lauk hún frá Columbia-háskóla. Síðar tók hún einnig meistarpróf í fjölmiðlafræði frá sama háskóla, "en á þeim tíma voru mjög fáar konur í blaðamennsku," segir hún. "Joseph Lelyveld, sem var aðalritstjóri New York Times þar til á síðasta ári og ég starfaði mikið með, hóf t.d. sinn feril með klassískum hætti, þ.e.a.s. sem einskonar sendisveinn. Síðan vann hann sig upp á toppinn. Ég held að mér sé óhætt að segja að allt þangað til konur höfðuðu mál gegn blaðinu um miðjan sjöunda áratuginn fyrir kynjamismunun hafi þessi leið verið okkur algjörlega lokuð. Konum var ekki einu sinni hleypt inn til að vera sendisveinar. Ég gerði mér því grein fyrir að mér væru engar leiðir færar aðrar en að mennta mig til þess að verða blaðamaður, öðruvísi kæmist ég ekki að."

Að loknu námi heyrði Anna af enskumælandi deild frönsku fréttaþjónustunnar "Agence France Press".

"Þar sem ég talaðu frönsku dreif ég mig til Frakklands og fékk vinnu við þýðingar og lagfæringar á fréttum og fréttaskýringum. Helst af öllu langaði mig samt til að helga mig skrifum um dans en þar sem ég eygði enga möguleika á því sviði og hafði áhuga á stjórnmálum fór ég þessa leið og vann mest á sviði efnahagsmála og kínverskra málefna. Ég var þó svo heppin að á meðan ég bjó í París [á sjöunda áratugnum] var haldin þar viðamikil danshátíð. Ég lagði því leið mína á Parísar-skrifstofu New York Times og tókst að sannfæra ritstjórann þar um að þessari hátíð þyrfti að gera skil. Rökin sem ég notaði á hann voru þau sömu og maður notar á alla ritsjóra," segir Anna hlæjandi, "ég sagði að hann hefði þarna stóran lesendahóp eiginkvenna bandarískra hermanna, sem þyrptust á ballettsýningarnar þar sem þeirra væri hægt að njóta án þess að skilja frönsku. Hann féllst hálfólundarlega á þessa röksemdafærslu og leyfði mér að reyna mig við þetta.

Í tvö ár fór ég síðan í hverri viku og sannfærði hann um að það næsta sem kom á fjalirnar væri þess virði að fjalla um það líka og þannig hélt þetta áfram, en treglega þó - þrátt fyrir að þetta væru stórir og heimsfrægir flokkar sem ég var að skrifa um."

Gagnrýnendur eiga að vera sérfræðingar

Anna segir fólk ekki hafa haft mikinn áhuga á danslist á þessum tíma og ef ekki hefði komið til stofnun listasjóðs bandaríska ríkisins, sem John F. Kennedy lagði grunninn að, hefði ballettheimurinn aldrei orðið jafnöflugur og raun ber vitni. "Eftir að hann var myrtur héldu næstu forsetar verkefninu gangandi svo töluverðir fjármunir voru settir í listir. Þetta varð til þess að dansheimurinn tók við sér og upphaf hins stórkostlega tímabils ballettsins í Bandaríkjunum var markað, en það hefur varað síðustu 40 ár. Dagblöðin urðu auðvitað að gera þessu skil og þegar það vildi svo til að aðalgagnrýnandi New York Times, Clive Barnes, var settur í að skrifa um leiklist auk dansins, var ég ráðin til viðbótar." Anna Kisselgoff varð síðan aðaldansgagnrýnandi blaðsins árið 1977, er Barnes hætti, en á ferli sínum hefur hún skrifað um marvíslega þætti menningar, allar tegundir dans og ýmislegt tengt dansheiminum, svo sem Michael Jackson, kúrekasýningar og jafnvel Ólympíuleika. Hún er þó þeirrar skoðunar að gagnrýnendur eigi að vera sérfræðingar á sínu sviði og einbeita sér að því, annars missi þeir tiltrú lesenda.

"Ferill minn hér hjá New York Times hefur þróast samhliða þessari miklu uppsveiflu í ballettinum," segir Anna er hún er spurð um þróunina á þessum áratugum "En ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að gæði ólíkra flokka, hvort sem þeir eru ríkisstyrktir eða reiða sig á framlög stuðningsaðila úr einkageiranum, byggist fyrst og fremst á listrænum krafti þeirra. Dansflokkar verða ekki góðir af því þeir eru ríkisstyrktir, þeir verða góðir af því ríkið bregst rausnarlega við þeim sköpunarkrafti sem þar er fóstraður. Það ber því ekki að þakka opinberum aðilum þann frama sem næst á sviði lista, framinn er alfarið orðinn til fyrir þá miklu og erfiðu vinnu sem listamenn leggja á sig. Enda felst töluverð hætta í því að móta dansflokka "að ofan". Þannig er einungis hægt að búa til stjórnskipulag eða kerfi. Óperuhús í Evrópu eru iðulega rekin á þessum forsendum og stundum fer lítið fyrir listrænu starfi þótt öll aðstaða sé til fyrirmyndar. Það sem ég á við er að ef listrænn metnaður ballettflokks frönsku óperunnar yrði t.d. einungis hjóm eitt, þá myndi jafnvel fjárstuðningur frá Lúðvík fjórtánda ekki bjarga málunum," segir Anna hlæjandi, en af orðum hennar má ráða að virðing fyrir listsköpuninni sjálfri skipti sköpum við uppbyggingu öflugs menningarlífs. "Evrópubúar eru þó ótrúlega vel í stakk búnir til að fóstra listræna endurreisn þegar hún á sér stað."

Bannað að sýna karlmenn í sokkabuxum

Anna segir ballett í Bandaríkjunum framan af hafa liðið nokkuð fyrir þá víðtæku skoðun Bandaríkjamanna að "dans væri ekki álitinn virðingarverð atvinnugrein, sérstaklega fyrir karlmenn, en það er hluti af okkar púritanísku hefð. Þeir eru óteljandi karldansararnir sem ég hef hitt um ævina sem kvartað hafa yfir viðbrögðum feðra sinna við dansáhuga þeirra. Feðurnir sögðu einfaldlega að karlmenn dönsuðu ekki. Menningaruppbyggingin í þessu landi hefur verið á þann veg að þeir auðmenn sem styrktu listir, settu á stofn leikhús eða óperuhús, en aldrei ballettflokk. Með rússnessku ballettdönsurunum, Baryshnikov, Nureyjev og fleirum sem flúðu hingað á tímum kommúnismans, mættum við nýjum viðhorfum. Feður þeirra voru í rauða hernum, en ég hef enn ekki fyrirfundið bandarískan ballettdansara sem á föður í herþjónustu. Fram að þessu hefur það verið óhugsandi, en viðhorfin eru þó sem betur fer að breytast."

Vegna þessarar púritanísku arfleifðar mátti ekki um langt skeið sýna karlmenn í sokkabuxum í sjónvarpi sem byggðist á auglýsingatekjum í Bandaríkjunum, að sögn Önnu. "Við gátum ekki einu sinni birt myndir frá ákveðnum sjónarhornum í New York Times," segir hún brosandi. "En þetta breyttist allt á sjöunda áratugnum. Fólk hætti að skammast sín fyrir líkama sinn og um leið fóru áhorfendur að njóta þess að horfa á dans með eðlilegum hætti. En það sem ekki skipti minna máli var að fagurfræðin í dansinum breyttist um leið. Við hurfum frá því sem einna helst má líkja við sálfræðileg dansdrama, þar sem áhorfendur sættu sig loks við afstæði [abstraksjón] og naumhyggju í hinum ýmsu listum. Unga fólkið varð allt í einu mjög opið fyrir hreinum dansi, á borð við þann sem Balanchine sýndi, en hann lagði alla áhersluna á hreyfingu en sagði enga sögu. Formbundnir danshöfundar á borð við hann og Cunningham reyndu að nálgast hreyfinguna með ýmsum hætti, en hurfu frá því sem frekar mátti flokka sem táknrænan dans. Svo vildi til að straumhvörf sjöunda áratugarins og frjálslyndari viðhorf gagnvart líkamanum héldust í hendur við viðurkenningu almennings á gildi afstæðisins í listum - og það fordómaleysi er sá grunnur sem samtímadansinn byggist á. Í dag þurfa áhorfendur ekki á sögu að halda, þeir eru fullkomlega ánægðir með að horfa á hreyfingu líkama í rými."

fbi@mbl.is