[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VOLVO bauð hópi blaðamanna til sín til Gautaborgar um miðjan maí, setti á svið bílveltu og hélt sýnikennslu á byltingarkenndum öryggisbúnaði nýja jeppans, XC90. Þetta er fyrsti jeppi Volvo og kemur hann á markað í nóvember nk.

VOLVO bauð hópi blaðamanna til sín til Gautaborgar um miðjan maí, setti á svið bílveltu og hélt sýnikennslu á byltingarkenndum öryggisbúnaði nýja jeppans, XC90. Þetta er fyrsti jeppi Volvo og kemur hann á markað í nóvember nk. og gæti hæglega reynst öruggasti jeppi heims.

Sumt af öryggisbúnaði XC90 verður einnig boðið í Ford-bílum síðar meir, en Volvo er sem kunnugt er í meirihlutaeigu Ford.

Stóru fréttirnar er rafræn veltivörn bílsins og notkun hástyrktarstáls í yfirbygginguna. Volvo segir að þessi búnaður geri XC90 öruggari jafnt fyrir farþega sem og farþega í öðrum bílum ef til áreksturs kemur.

Volvo hefur verið nefnt sem forðabúr Ford fyrir öryggisbúnað og tækni á sviði öryggismála. Ford vonast til þess að geta nýtt sér gott orðspor Volvo á þessu sviði til að laða kaupendur einnig að Ford-bílum. Hlutar af veltivarnarkerfi XC90 verða kynntir í Ford Explorer og öðrum jeppum Ford innan tveggja ára.

Blæs út hliðargardínum áður en bíllinn veltur

Veltivarnarkerfið er byggt á spólvörn bílsins. Skynjarar nema þegar hjól bílsins lyftast frá veginum. Tölvukerfi bílsins reiknar síðan út á örskotsstundu líkurnar á því að bíllinn velti. Send eru boð til hemlakerfisins sem hemla niður eitt eða fleiri hjól til að ná bílnum strax á réttan kjöl. Dugi þetta engu að síður ekki til og bíllinn veltur kemur til kasta sjálfvirks búnaðar sem í fyrsta lagi strekkir öll sjö bílbeltin og í öðru lagi blæs upp loftgardínur á báðum innanverðum hliðum bílsins. Gardínurnar hylja hliðargluggana frá farþega í framsæti til farþega í þriðju sætaröð. Blaðamenn sem voru viðstaddir prófunina sögðu að bílnum hefði verið velt á 50 km hraða á klst. og hann farið þrjár veltur og endað á hliðinni. Þakið aflagaðist ekki, þökk sé sérstyrktu stálinu í þakstólpunum. Engar dyr opnuðust heldur en auðvelt var að opna þær utan frá.

Talsmenn Volvo leggja áherslu á að þótt viss tækni sé notuð í XC90 þýði það ekki að sams konar tækni verði notuð í alla aðra bíla fyrirtækisins. Hástyrktarstálið í þakbitum og þakbogum XC90 var talið nauðsynlegt en það verður ekki notað í minni bíla fyrirtækisins. Meiri áhersla verður í staðinn lögð á varnir vegna áreksturs að framan í minni bílunum. Það er þó einnig gert í XC90. Bíllinn er 25 cm hærri en venjulegur Volvo V70 langbakur en þyngdarpunkturinn er þó aðeins níu cm hærri, eða mun lægri en hjá flestum keppinautum og því er bíllinn stöðugri á vegi.

Jafnframt hefur Volvo hannað bílinn með tilliti til þess að valda sem minnstum skemmdum og skaða á öðrum bílum og fótgangandi vegfarendum. Framendinn er hafður lægri en á venjulegum jeppum og framstuðarinn er í sömu hæð og á venjulegum fólksbíl. Vélarhlífin er hönnuð á þann veg að meiri líkur eru á að vegfarandi sem verður fyrir bílnum lifi af.