HEILDARKJÖRSÓKN í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi liggur ekki formlega fyrir þar sem félagsmálaráðuneytið bíður enn eftir staðfestum tölum frá kjörstjórnum í tveimur sveitarfélögum; Reykjavík og Akureyri, auk þess sem von er á tölum frá...

HEILDARKJÖRSÓKN í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi liggur ekki formlega fyrir þar sem félagsmálaráðuneytið bíður enn eftir staðfestum tölum frá kjörstjórnum í tveimur sveitarfélögum; Reykjavík og Akureyri, auk þess sem von er á tölum frá Árneshreppi eftir helgi.

Kjörstjórnin á Akureyri ætlar að láta þann vikufrest líða sem lögboðinn er til að leggja fram kæru á framkvæmd kosninganna og samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu ætlar kjörstjórnin í Reykjavík að láta tíu daga líða frá kosningum þar til að staðfestum tölum verður skilað.

Á kjörskrá í kosningunum voru alls 204.923 manns, þar af 101.837 karlar og 103.086 konur. Þess má geta að í kosningunum fyrir fjórum árum voru 193.632 einstaklingar á kjörskrá og af þeim greiddu atkvæði 159.187. Kjörsókn var því 82,2% í heild. Hjá körlum var kjörsóknin 81,5% en 82,8% hjá konum.

100% kjörsókn í Mjóafirði

Fyrir liggur í þeim staðfestu tölum sem félagsmálaráðuneytinu hefur borist um kjörsókn, að í einu sveitarfélagi kusu allir sem á kjörskrá voru, þ.e. í Mjóafjarðarhreppi. Þar voru 25 manns á kjörskrá, 24 komu á kjörstað og einn hreppsbúi skilaði utankjörfundaratkvæði. Enginn seðill var auður eða ógildur, en kosning í hreppnum var óbundin þar sem enginn listi kom fram.