Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari ásamt útskriftarhópnum.
Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari ásamt útskriftarhópnum.
Á DÖGUNUM var Framhaldsskólanum á Húsavík slitið í fimmtánda sinn við fjölmenna athöfn í Húsavíkurkirkju. Að þessu sinni brautskráðust 20 nemendur með stúdentspróf. Um 130 nemendur stunduðu nám við skólann í vetur auk 8 nemenda á öldungabraut.

Á DÖGUNUM var Framhaldsskólanum á Húsavík slitið í fimmtánda sinn við fjölmenna athöfn í Húsavíkurkirkju. Að þessu sinni brautskráðust 20 nemendur með stúdentspróf. Um 130 nemendur stunduðu nám við skólann í vetur auk 8 nemenda á öldungabraut. Alls hefur skólinn frá upphafi brautskráð 410 nemendur, þar af eru 222 með stúdentspróf af bóknámsbrautum, 62 af iðnnámsbrautum og 126 af öðrum starfs-námsbrautum.

Í ræðu sinni kom Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari víða við, sagði m.a "í tilefni 15 ára afmælis skólans um þessar mundir væri ástæða til að líta yfir farinn veg og meta gagnsemi hans fyrir húsvískt og þingeykst samfélag. Við undirbúning að stofnun skólans og á fyrstu árum hans voru uppi efasemdir í samfélaginu um að hér væri hægt að starfrækja skóla sem gerði svipaðar kröfur til nemenda sinna og gæti þjónað þeim jafnvel og rótgrónir menntaskólar og fjölbrautaskólar. Þeir voru þó fleiri sem höfðu trú á þessum nýja vaxtarsprota og voru nógu framsýnir til að sjá að ef vel tækist til þá gæti skólinn skipt sköpum fyrir tilveru og vaxtarmöguleika byggðarinnar. Foreldrar og nemendur gáfu því skólanum tækifæri til að sanna sig. Strax á öðru starfsári skólans, haustið 1988, skráðu langflestir þeirra Húsvíkinga sem á annað borð hófu framhaldsnám, sig í Framhaldsskólann á Húsavík. Og árin líða og við skynjum breytingar. Á fyrstu árum skólans voru alltaf þónokkrir nemendur sem luku grunnskólaprófi og létu þar við sitja, fóru ekki í framhaldsnám. Þetta hefur breyst og síðastliðið haust gerðist það í fyrsta skipti í sögu Húsavíkur að því er ég best veit að allir þeir sem luku grunnskólaprófi úr Borgarhólsskóla hófu nám í framhaldsskóla. Það spillti ekki heldur að allir sem enn voru búsettir á Húsavík völdu að setjast í þennan skóla."

Björgvin Rúnar Leifsson áfangastjóri stjórnaði útskrift og verðlaunaafhendingum til nemenda, eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur:

Berglind Rut Magnúsdóttir fyrir íslensku, gefandi verðlauna Edda-miðlun og útgáfa, fyrir samfélagsgreinar, gefandi verðlauna Skipaafgreiðsla Húsavíkur ehf., fyrir dönsku, gefandi verðlauna danska menntamálaráðuneytið og fyrir frábæran námsárangur á félagsfræðibraut, gefandi verðlauna Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf.

Brynjar Már Bjarkan fyrir stærðfræði, gefandi verðlauna Tækniþing hf., fyrir góðan árangur í tölvufræðum, gefandi verðlauna Grímur ehf., og fyrir frábæran námsárangur á náttúrufræðibraut, gefandi verðlauna Húsavíkurapótek.

Elsa María Jakobsdóttir fyrir frönsku, gefandi verðlauna Íslandsbanki, fyrir dönsku, gefandi verðlauna Vátryggingafélag Íslands, fyrir ensku, gefandi verðlauna Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Elsa María fékk einnig viðurkenningu fyrir félagsstörf frá Tómstundanefnd Húsavíkur.

Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í þýsku fengu þær Anný Peta Sigmundsdóttir, Erla Alfreðsdóttir og Írena Björk Ásgeirsdóttir, gefandi verðlauna þýska sendiráðið.

Gyðja Johannesen fékk verðlaun frá Landsbanka Íslands á Húsavík fyrir góðan námsárangur í ensku og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, sem var formaður nemendaráðs, viðurkenningu fyrir félagsstörf frá Tómstundanefnd Húsavíkur. Þá fékk Anna Karin Jónsdóttir, stúdent af náttúrufræðibraut, viðurkenningu frá Menningarsjóði þingeyskra kvenna fyrir framfarir, dugnað og góðan námsárangur.

Við athöfnina flutti Yngvi Leifsson, fulltrúi nýstúdenta, ávarp og hjónin Judit György og Aladár Rácz fluttu nokkur tónlistaratriði, spiluðu m.a. fjórhent á píanó.