Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir enn of mikla sókn í þorskstofninn.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir enn of mikla sókn í þorskstofninn.
HAFRÓ leggur til samkvæmt aflareglu, að hámarksafli á þorski á næsta fiskveiðiári verði 179 þúsund tonn. Það er 11 þúsund tonnum minna en í fyrra þegar aflamarkið var 190 þúsund tonn.

HAFRÓ leggur til samkvæmt aflareglu, að hámarksafli á þorski á næsta fiskveiðiári verði 179 þúsund tonn. Það er 11 þúsund tonnum minna en í fyrra þegar aflamarkið var 190 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun telur jafnframt æskilegt að draga enn frekar úr sókn en gert er ráð fyrir samkvæmt aflareglu, vegna aldurssamsetningar stofnsins, óvissu í stofnmati og fyrstu vísbendinga um stærð 2001-árgangsins.

Hafrannsóknastofnun gerir tillögu um talsvert aukinn hámarksafla á ýsu, eða 55 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári miðað við 30 þúsund tonna tillögu í fyrra. Ýsuafli á fiskveiðiárinu 2001/2002 er áætlaður 45 þúsund tonn. Veiðistofn 2002 er metinn 120 þúsund tonn og hrygningarstofn 69 þúsund tonn. Árgangurinn 1996 var lélegur og árgangur 1997 heldur undir meðallagi. Árgangar 1998-2000 eru hins vegar allir yfir meðallagi.

Ennþá of mikil sókn

Síðastliðin tvö ár hefur Hafrannsóknastofnun endurskoðað aðferðafræði sína "sem lyktaði með leiðréttingu á stofnmati á þorski á síðastliðnu vori. Við höfum haldið þeirri vinnu áfram", sagði Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar m.a. á blaðamannafundi í gær þar sem skýrsla Hafrannsóknastofnunar um ástand fiskistofna og aflahorfur fiskveiðiárið 2002/2003 var kynnt.

"Endurbættar aðferðir okkar staðfesta niðurstöðu okkar frá síðasta vori. Þær benda til þess að þorskstofninn sé heldur að styrkjast en það er engu að síður staðreynd og nokkurt áhyggjuefni að staða stofnsins er veik ennþá og við erum ennþá að veiða af of miklum þunga og of mikilli sókn í þennan stofn," sagði Jóhann m.a. "Hins vegar er því ekki að leyna að afleiðing þess að við ofmátum stofninn á allra síðustu árum hefur leitt til of þungs veiðiálags." Þetta er bagalegt, að mati Jóhanns. Komið hefur verið á fót sérstakri verkefnastjórn sem er ætlað að hafa með höndum stofnmat á þorski og samhæfa allar þær rannsóknir sem Hafrannsóknastofnun og aðrir gera sem styrkt geta áreiðanleika stofnmats á þorski. "Þetta er okkar viðleitni til að bæta okkur," sagði Jóhann m.a.

Brýnt að endurskoðun aflareglu ljúki sem fyrst

Jóhann sagði að Hafrannsóknastofnun teldi brýnt að sú nefnd sem sjávarútvegsráðherra hefur skipað til þess að endurskoða aflareglu sem gilt hefur síðastliðin ár, ljúki sínu starfi sem fyrst. "Meðal annars breytt aflaregla síðustu misseri hefur vegið þungt í of mikilli sókn í þorskstofninn, að því er við teljum. Það er mikilvægt að þessi mál séu tekin til sérstakrar meðferðar og endurskoðunar hið fyrsta."

Jóhann benti á að loðnustofninn stendur með ágætum en bakslag er í síldarstofnum sem m.a. helgast af erfiðleikum við að ná bergmálsmælingum á síldinni. "Almennt má segja að jákvæð teikn séu á lofti varðandi nokkra okkar mikilvægustu botnfiskstofna, sérstaklega ýsu. Einnig gullkarfa, grálúðu og ufsa."

Of hátt hlutfall ungs þorsks

Hvað varðar þorskstofninn kom fram í máli Björns Ævarrs Steinarssonar, sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun og formanns verkefnishóps, að afli fiskveiðiárið 2001/2002 sé áætlaður um 215 þúsund tonn. Veiðistofn í ársbyrjun 2002 er áætlaður um 680 þúsund tonn, miðað við 640 þúsund tonn í fyrra og hrygningarstofn um 280 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að veiðistofn í ársbyrjun 2003 verði um 756 þúsund tonn. Veiðidánartala var 0,81 á árinu 2001 sem er tvöfalt hærra en upphafleg aflaregla gerði ráð fyrir og þriðja hæsta gildi sem mælst hefur. Björn sagði þetta gildi allt of hátt og mun hærra en stefnt var að með aflareglunni. Veiðidánartala á árinu 2002 er áætluð um 0,7.

Hann benti einnig á að 6 ára fiskur og yngri væri 83% aflans í fjölda á árinu 2002 og áætlað hlutfall 6 ára fisks og yngri væri um 90% á árinu 2003. Þetta eru slæm teikn, að mati Björns, þar sem mikilvægi eldri fisks í hrygningarstofni væri nú viðurkennt og svo hátt hlutfall ungs fisks væri ekki jákvætt.

Áætlun Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir að veiðistofn þorsks muni vaxa úr 680 þúsund tonnum í ársbyrjun 2002 í 940 þúsund tonn í ársbyrjun 2004 en hrygningarstofn úr 280 þúsund tonnum í 425 þúsund tonn árið 2004.

Tillögur um hámarksafla á ufsa breytast úr 25 þúsund tonnum í fyrra í 35 þúsund tonn nú. Tillögur um hámarksafla á loðnu eru óbreyttar, 690 þúsund tonn og á úthafskarfa 120 þúsund tonn, skv. tillögum Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Hámarksafli á síld úr íslenska sumargotsstofninum er miðaður við kjörsókn skv. tillögum Hafrannsóknastofnunar og samsvarar það 105 þúsund tonna hámarksafla á vertíðinni 2002/2003. Það er samdráttur frá í fyrra þegar hámarksaflinn var 125 þúsund tonn. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til að leyfilegur hámarksafli norsk-íslenskrar síldar verði 710 þúsund tonn árið 2003 sem er samdráttur frá í fyrra þegar tillagan hljóðaði upp á 850 þúsund tonn og koma 132 þúsund tonn í hlut Íslendinga.