UMBOÐSMAÐUR Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu í nýju áliti að úrskurður dómsmálaráðuneytisins, 14. ágúst í fyrra, um að hafna beiðni manns um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi hafi ekki verið í samræmi við lög.

UMBOÐSMAÐUR Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu í nýju áliti að úrskurður dómsmálaráðuneytisins, 14. ágúst í fyrra, um að hafna beiðni manns um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi hafi ekki verið í samræmi við lög. Í úrskurði ráðuneytisins var staðfest ákvörðun Útlendingaeftirlitsins um að hafna beiðni mannsins um ótímabundið dvalarleyfi og var synjunin byggð á því að maðurinn hefði komið ólöglega til landsins og hefði ekki búið hér á landi nema í þrjú ár.

Maðurinn hélt því hins vegar fram að þegar honum var veitt tímabundið dvalarleyfi hafi honum verið tjáð að í gildi væri sú regla að ótímabundið dvalarleyfi yrði gefið út þegar hann hefði búið hér á landi í þrjú ár að því skilyrði uppfylltu að hann hefði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Umboðsmaður hefur beint þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál mannsins til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá honum.

Lögin fáorð um dvalarleyfi

Í niðurstöðu ráðuneytisins var m.a. vísað til 4. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum sem segir að Útlendingaeftirlitið veiti þau leyfi sem þurfi til landgöngu og dvalar samkvæmt lögunum og í niðurstöðu ráðuneytisins sagði að að öðru leyti væru lögin fáorð um útgáfu dvalarleyfa. Um árabil hafi þeirri venju verið fylgt að gefa fyrst út ótímabundið atvinnuleyfi eftir þriggja ára dvöl hérlendis, en jafnframt verið við það miðað að þeim útlendingum sem komið hafa ólöglega til landsins, eða hafa brotið af sér með öðrum hætti, sé fyrst veitt dvalarleyfi hér á landi eftir 5 ár. Komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að telja verði þessa reglu eðlilega.

Í áliti umboðsmanns segir að þegar maðurinn fékk fyrst útgefið tímabundið dvalarleyfi var stjórnsýsluframkvæmdin sú að útlendingar í hans stöðu gátu fengið ótímabundið dvalarleyfi að öllu óbreyttu eftir þrjú ár. Ári síðar var þessari framkvæmd breytt og við það miðað að þeir útlendingar sem komið höfðu hingað til lands á ólögmætum forsendum eða gerst brotlegir með öðrum hætti ættu fyrst rétt á að fá ótímabundið dvalarleyfi eftir fimm ára dvöl hér á landi. Umboðsmaður telur ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við þessa ákvörðun stjórnvalda. Hins vegar væri álitamál hvort og þá að hvaða marki stjórnvöldum hefði verið heimilt að láta þess breyttu stjórnsýsluframkvæmd gilda einnig um þá útlendinga sem fengið höfðu tímabundið dvalarleyfi áður en hún gekk í gildi.

Dvalarleyfisumsóknir beinast að mikilvægum hagsmunum

Bendir umboðsmaður á að ekki yrði séð af gögnum málsins að stjórnvöld hefðu gert nokkurn reka að því að kynna þeim útlendingum sem komið höfðu hingað til lands ólöglega en fengið tímabundið dvalarleyfi á grundvelli hinnar eldri framkvæmdar þá ákvörðun að lengja það tímabil sem þessir einstaklingar þurftu að bíða til þess að geta átt möguleika á ótímabundnu dvalarleyfi. Tekið er fram að umsóknir útlendinga um dvalarleyfi beinist að mikilvægum persónulegum og félagslegum hagsmunum þeirra og að stjórnvöldum hafi eins og atvikum var háttað í málinu verið skylt að taka efnislega afstöðu til þess við úrlausn á umsókn mannsins um ótímabundið dvalarleyfi hvort og þá með hvaða hætti sjónarmið um réttmætar væntingar kynnu að hafa þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins.