SANNKALLAÐ fótboltaæði hefur gripið um sig í Kabúl, höfuðborg Afganistans, vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu en í tíð talibanastjórnarinnar var bannað að horfa á slíka skemmtun. Raunar var sjónvarpið sjálft bannað á valdatíma þeirra.

SANNKALLAÐ fótboltaæði hefur gripið um sig í Kabúl, höfuðborg Afganistans, vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu en í tíð talibanastjórnarinnar var bannað að horfa á slíka skemmtun. Raunar var sjónvarpið sjálft bannað á valdatíma þeirra.

Síðustu daga hefur verið rífandi sala í gervihnattadiskum enda treystir fólk því varlega, að afganska ríkissjónvarpið, vanbúið og í sundursprengdri byggingu, geti haldið uppi áfallalausum útsendingum.

"Við erum í hátíðarskapi. Salan hefur rokið upp. Í síðustu viku seldi ég átta móttakara og diska en 16 á fyrstu dögum þessarar viku," sagði Abdul Tawab, kaupmaður á rafeindavörumarkaðinum í Kabúl, og Shah Mahmoud, þjálfari unglingaliðsins í knattspyrnu, sagði að áhuginn á heimsmeistarakeppninni væri óskaplegur.

"Ég er viss um, að 80% íbúanna vildu fylgjast með en líklega hafa aðeins um 20% tök á því vegna rafmagnsleysis og truflana," sagði Mahmoud.

Afganir kunna margir skil á helstu knattspyrnuhetjunum en svo virðist sem franski landsliðsmaðurinn Zinedine Zidane sé í sérstöku uppáhaldi.

Kabúl. AFP.