ÞAÐ er hægt að velja sér bíl með tilliti til minni hættu á hálshnykksmeiðslum ef til óhapps kemur.

ÞAÐ er hægt að velja sér bíl með tilliti til minni hættu á hálshnykksmeiðslum ef til óhapps kemur. Hættan á hálshnykksmeiðslum sem leiða til örorku er næstum fimm sinnum meiri í Ford Escort en í Volvo V70, svo dæmi sé tekið úr rannsókn sænska Folksam tryggingafélagsins sem hófst haustið 2000 og stóð yfir til vorsins 2002 í samvinnu við sænska öryggisbúnaðarframleiðandann Autoliv og sænsku bíltæknistofnunina.

Rannsóknin leiðir í ljós að meiri hætta er á hálshnykksmeiðslum í bílum með stífum og sterkum undirvagni en minni áhætta er í bílum sem smíðaðir eru á eftirgefanlegri undirvagn. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að bílsæti í mörgum nýjum bílum eru nægilega stíf og sterkbyggð til að spila saman við virkni öryggispúðanna en þau eru hins vegar síðri þegar kemur að hættunni á hálshnykksmeiðslum á hraða undir 20 km á klst. Farþegum í bílum með dráttarkrók er hættara við hálshnykksmeiðslum en farþegum í bílum án dráttarkróks. Bíll með dráttarkrók tekur verr við höggum af árekstri en bíll án króks. Folksam ætlar frá og með 1. júlí að lækka iðgjöld af bílatryggingum um 10% á bílum sem hafa virkar varnir gegn hálshnykksmeiðslum.