Jæja, Michael minn. Eigum við nú ekki að fara að hætta þessu?

ÉG ER ekki alveg farinn að skilja hvað rekur Michael Bolton áfram í tónlistariðkuninni. Allt frá fyrsta degi hefur þetta dufl hans aðeins snúist um að verða frægur og græða peninga - hvernig svo sem hann fari að því. Hann virðist stjórnast af krónískri sviðsljóssþrá, því ekki er það ... uuu ... metnaðurinn til að gera góða tónlist sem rekur hann áfram (segðu okkur annan Arnar).

Dæmi: Maðurinn hefur á ferlinum sungið m.a. þessi lög: "Your Love", "If I Had Your Love", "You Make Me Feel Like Lovin' You", " You've Got the Love I Need", "Save Our Love", "Hot Love", "Wait on Love", "That's What Love Is All About", "You Wouldn't Know Love", "Love Cuts Deep", " Stand up for Love", "Love Is a Wonderful Thing", " We're Not Makin' Love Anymore" og "New Love".

Já, af þessu sést að hann er ástleitinn maður hann Bolton. Og smekklaus. Og smekklaus. Og smekklaus. Var ég búinn að segja að hann væri smekklaus?

Til hamingju, Bolton. Þér tókst það enn eina ferðina. Ein ömurleg platan til viðbótar á þínu nafni er komin í búðir. Við verðum bara að vona ... heimsins vegna ... að enginn leggi sig eftir að kaupa hana. Versta plata ársins, jafnvel verri en hörmungin hennar Victoriu Beckham sem út kom í fyrra. Þetta á fjandakornið ekki að vera hægt!

0 stjörnur

Arnar Eggert Thoroddsen