[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvert er tilefnið?" er gjarnan spurt þegar einhver gerir sér glaðan dag; býður gestum í mat, splæsir fordrykk á vinnufélagana á barnum eftir vinnu á föstudegi, nú eða kaupir sér dekurdag í heilsulind.

Hvert er tilefnið?" er gjarnan spurt þegar einhver gerir sér glaðan dag; býður gestum í mat, splæsir fordrykk á vinnufélagana á barnum eftir vinnu á föstudegi, nú eða kaupir sér dekurdag í heilsulind.

Orðatiltækið "að gera sér glaðan dag" ber eitt og sér með sér þann móralska boðskap, að slíkt skuli menn veita sér af og til og með miklu tilstandi jafnvel. Það virðist enn vera vel innprentað í Íslendinga að lífið sé saltfiskur frekar en saltfiskveisla eða veisla af öðru tagi. Það hefur verið tilhneigingin um langa hríð, að mikið þurfi að standa til svo haldin sé veisla en ef vel er að gáð, er lífið fullt af litlum hlutum sem vert er að gleðjast (og jafnvel slá upp veislu) yfir.

Öðruvísi veislur

Sturla Birgisson, matreiðslumeistari sem rekur veisluþjónustuna Sturla Birgis, veisluborð, segir landann vera að taka við sér hvað veisluhaldi viðvíkur. Honum finnst sem fólk sé að uppgötva þá fjölmörgu möguleika sem hugtakið veisla felur í sér.

"Fólk vill öðruvísi veislur," segir hann og sem dæmi nefnir hann veislur með sjávarrétta-, skelfisk-, osta og rauðvíns-, kavíar-, chilli-, tapas og bruschetta- (grilluð ítölsk smábrauð), sushi-, ostru- og kampavíns-, humar-, grill-, og austurlenskt þema. "Brunch" (hinn bandarískættaði síðbúni ríkulegi dögurður) er einnig mjög vinsæll kostur. Sturla segir að það sé alltaf að færast í aukana að fyrirtæki, vinahópar, klúbbar, veiðifélagar, saumaklúbbar og ýmsir fleiri hópar (yfirleitt 10-25 manns) panti veislu í heimahús í stað þess að fara á veitingahús. Það er vissulega mjög persónulegt og skemmtileg tilbreyting að fá matreiðslumann heim með kræsingarnar.

Önnur nýbreytni í veislubransanum er að fyrirtæki eru í auknum mæli farin að taka með sér matreiðslumann til útlanda og eins íslenskt hráefni. Þannig geta þau boðið til málsverðar og kynnt í leiðinni íslenskan mat og íslenska matreiðslumeistara. Algengt er að slíkir málsverðir séu haldnir á hóteli, listasafni eða öðrum stöðum sem henta vel til veisluhalda.

Veisla daginn eftir

Á eftir miklum veislum fylgir gjarnan dálítið spennufall. Eftir því sem veislan hefur verið stærri og tilkomumeiri þeim mun meira verður spennufallið oft. Besta ráðið við þessu er náttúrlega að halda aðra veislu strax daginn eftir og "trappa" sig þannig niður. Kjörástandið er að vera sífellt að halda sér og öðrum smáveislur. Þannig verður komist hjá öllum spennuföllum og flestum andlegum skakkaföllum!

Brúðkaup og veislur þeim tengdar eru nú í algleymingi. Algengt er að hin nýbökuðu hjónakorn eyði brúðkaupsnóttinni á hóteli. Hvernig væri að sofa bara heima eða fara e.t.v. upp í sumarbústað og verja hótelpeningnum frekar í að panta rómantískan dögurð (fyrir tvo vitanlega) þegar spennufallið fer að segja til sín? Þetta er nú einu sinni fyrsti hveitibrauðsdagurinn og sá sætasti...!

Veisla fyrir einn

Ekki má gleyma að halda sjálfum sér veislu reglulega. Það getur e.t.v. reynst dýrt spaug að fá matreiðslumann heim með smárétti fyrir einn, en það getur verið mikil veisla í sjálfu sér að útbúa frískandi drykk í morgunsárið úr ferskum ávöxtum, nú eða enda langa vinnuviku (sú íslenska er það yfirleitt) á því að taka með sér hvítvínsglas, ólífuskál og góða bók í dekurbað (ekki sakar að setja nokkra dropa af lavenderolíu í baðvatnið og róandi tónlist er nauðsynleg).

Góð veisla gefur lífinu bragð

Hér fylgja tvær uppskriftir af veisluborði Sturlu Birgissonar.

Kryddlegin hörpuskel

með chilli (eldpipar)

og kóríander

Fyrir 4

200 g hörpuskel

3 stk eldpipar, fínsaxaður

1 pottur ferskt kóríander, fínsaxað

2 tsk limesafi

2 hvítlauksrif, fínsöxuð

½ bolli jómfrúrólífuolía

salt og svartur pipar

Hreinsið hörpuskelina, blandið öllu saman og látið standa í 3 tíma. Gott er að bera fram klettasalat (rucola) og ristað brauð með hörpuskelinni.

Sjávarréttir á

grillpinna með

hvítlauksmarineringu

Fyrir 4

8 stk stór hörpuskel

8 stk humar í skel

400 g skötuselur

400 g lax

8 stk sveppir

1 rauð paprika

Allt er þrætt upp á pinna.

Kryddlögur

½ bolli ólífuolía

½ bolli hvítvín

5 stk hvítlauksgeirar, fínsaxaðir

1 pottur ferskt klettasalat, fínsaxað

1 pottur ferskt rósmarín, fínsaxað

1 pottur ferskt kóríander, fínsaxað

2 tsk chili, fínsaxað

safi úr 2 limeávöxtum

safi úr 2 sítrónum

safi úr 2 appelsínum

salt og svartur pipar

Öllu er blandað saman. Sjávarréttapinnar eru settir út í kryddlöginn og látnir marinerast í 4 tíma. Grillið á ca. 3 mín. við miðlungshita. Restin af kryddleginum er sett í matvinnsluvél og notuð sem sósa. Tilvalið meðlæti með pinnunum er t.d. ferskt salat og hrísgrjón.

Hanna Friðriksdóttir

ahf@mbl.is