Svandís Guðmundsdóttir fæddist í Bolungarvík 15. júlí 1920. Hún lést 27. maí síðastliðinn. Foreldrar Svandísar voru Guðmundur S. Ásgeirsson, sjómaður í Bolungarvík, f. 21. sept. 1894, d. 29. ágúst 1972, og Hallgerður S. Hallgrímsdóttir, verkakona í Bolungarvík og Ísafirði, f. 18. nóv. 1898, d. 24. mars 1983. Svandís ólst upp í Bolungarvík hjá fósturforeldrum sínum Bergi Kristjánssyni og Ingibjörgu Tyrfingsdóttur. Svandís átti sjö hálfbræður, sammæðra voru Sigurður, Valdimar og Elías, þeir eru allir látnir, samfeðra eru Sævar, Geir, Gunnar og Rögnvaldur, en hann er látinn.

Svandís giftist 6. sept. 1952 Benedikti Þ. Jakobssyni, f. 1920, d. 2000. Foreldrar hans voru Jakob Þórðarson, bóndi á Horni og víðar í Miðfirði, f. 1860, d. 1924, og Helga Guðmundsdóttir, f. 1877, d. 1958. Svandís og Benedikt eiga fjóra syni: 1) Jakob, f. 1951, d. 1996. Maki Gunnhildur J. Halldórsdóttir, f. 1955. Þau skildu. Börn þeirra eru: Jóhanna Dagmar f. 1978, sambýlismaður hennar er Ingibergur Oddsson, f. 1973, sonur þeirra er Jökull Ingi, f. 2000; Benedikt Þórður, f. 7. feb. 1982; og Júlíus Ágúst, f. 1. feb. 1984. 2) Bergur, f. 1952. Maki Ragnhildur Þórarinsdóttir, f. 1953. Börn þeirra eru Kristín Halla, f. 1980, unnusti hennar er Guttormur Hrafn Stefánsson, f. 1979; Þórður, f. 1982; og Signý, f. 1985. 3) Helgi, f. 1953. Maki Kristín Helgadóttir, f. 1961. Dóttir þeirra er Helga María, f. 1998. Börn Kristínar eru Magnús Jónsson, Margrét Helga Stefánsdóttir og Andri Már Stefánsson. 4) Sigurbjörn, f. 1964.

Svandís ólst upp hjá fósturforeldrum sínum í Bolungarvík. Hún flutti árið 1944 til Reykjavíkur, þar sem hún bjó síðan. Starfsvettvangur hennar var húsmóðurstarfið.

Útför Svandísar verður gerð frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 3. júní, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það er komið að kveðjustund, hún Svandís tengdamóðir okkar er öll. Yndislegt vorveðrið heillaði hana. Hún fór út að ganga sér til ánægju og á þeirri göngu kvaddi hún þennan heim. Svandís vildi alltaf vera sjálfstæð og ekki upp á aðra komin. Og henni auðnaðist að halda reisn sinni til æviloka.

Já, Svandís var sjálfstæð kona og það sem vakti sérstaka athygli var hversu ákveðið hún tók málstað þeirra sem minna máttu sín. Sú lífssýn var byggð á hennar eigin bernsku.

Svandís og Benedikt eignuðust fjóra syni og erum við tengdadætur þeirra svo lánsamar að hafa hreppt þá Berg og Helga sem eiginmenn. Elsti sonurinn Jakob lést fyrir nokkrum árum og sá yngsti, Sigurbjörn, býr á sambýli fyrir fatlaða í Stigahlíð. Samband Svandísar og Benedikts við Bjössa og sambýlisfólk hans var einstakt og víst er að þar er þeirra sárt saknað. Meðan Bjössi bjó á Kópavogshælinu voru þau hjónin mjög virk í foreldrastarfi þess og studdu það heilshugar meðan kraftar þeirra leyfðu.

Heimili Svandísar og Benedikts einkenndist af mikilli gestrisni, þar sem Svandís var við stjórnvölinn og veitti af rausn. Barnabörnunum lá alla tíð mikið á, að komast í kjötbollurnar hennar ömmu. Inn á það matreiðslusvið treystum við okkur ekki, því það var öruggt að engar kjötbollur jöfnuðust á við hennar.

Síðustu árin voru Svandísi nokkuð erfið, því heilsan gaf sig. Eftir lát Benedikts haustið 2000 hélt Svandís heimili með Jóhönnu sonardóttur sinni og Inga sambýlismanni hennar. Það gerði henni mögulegt að búa áfram heima.

Við kveðjum Svandísi með þakklæti í huga og geymum með okkur góðar minningar um mæta konu.

Ragnhildur Þórarinsdóttir

og Kristín Helgadóttir.

Líklegast hefur afa þótt tómlegt á himninum því hann hefur náð í þig og kveðjum við þig elsku amma í hinsta sinn. Við áttum margar góðar stundir saman og munu þær lifa áfram í minningunni. Þú varst hjartahlý kona og vildir alltaf hjálpa þeim sem sem minna máttu sín og líklegast réð þar þín eigin reynsla.

Þú vildir ávallt bjóða okkur eitthvað þegar við komum til þín. Ef við afþökkuðum spurðir þú: "Er fólk hætt að borða nú á dögum eða eru allir í megrun?" Stundum var erfitt að finna svarið við þessari spurningu svo að maður lét undan. Kjötbollur, pönnukökur og draumatertur koma fljótt upp í hugann þegar maður hugsar um ömmu. Við töluðum oft um að úlfahjörðin væri komin í mat þegar við settumst við matarborðið hjá þér, og eflaust var það rétt því sjaldnast var einn biti af kjötbollunum eftir, svo góðar voru þær.

Þó að síðustu ár hafi stundum verið þér erfið hélstu ótrauð áfram og heima vildir þú vera. Þegar sólin hækkaði á lofti og túlipanarnir sprungu út ákvaðstu að skilja við þennan heim. Nú eruð þið afi og Jakob saman á ný og ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna. Takk fyrir allt.

Kristín Halla.

Kristín Halla.