Kristinn Þór Hansson fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1960. Hann lést af slysförum í Arizona í Bandaríkjunum 23. maí síðastliðinn og var hann jarðsunginn í Mesa í Arizona 31. maí.

Það var seinnipart vetrar 1991 sem nokkrir Íslendingar úr félagi Íslendinga í Arizona hittu Kidda fyrir tilviljun á Bobby McGee's. Þar skemmti hann sér með nokkrum amerískum félögum sínum og var greinilega hrókur alls fagnaðar.

Eftir þetta var Kiddi fastur punktur í uppákomum hjá Íslendingafélaginu.

Kiddi var alltaf brosandi og ef það var eitthvað sem hann kunni ekki þá var það að vera í vondu skapi. Við hittum Kidda síðast á þorrablótinu í ár og þá talaði hann um börnin sín eins og svo oft áður, var greinilega stoltur af þeim. Hann hlakkaði mikið til að fá Elínu í heimsókn og var með ýmislegt á prjónunum sem þau ætluðu að gera saman á meðan hún væri hér. Því miður endaði heimsókn þeirra í Miklagljúfur skyndilega, bæði Kiddi og Elín létu lífið í bílslysi. Fráfall þeirra hefur haft mikil áhrif á Íslendingafélagið í Arizona og þeirra verður sárt saknað. Við viljum votta Ólöfu Wheeler, Kristjáni, Margréti, fjölskyldu Elínar á Íslandi, Daníel Karli og Lilju Dröfn, börnum Kidda, og öðrum aðstandendum dýpstu samúð okkar.

Fyrir hönd Íslendinga í Arizona,

Kristín S. Ólafsdóttir og Baldur Benediktsson.

Kristín S. Ólafsdóttir og Baldur Benediktsson.