Unnur Bjarklind fæddist í Reykjavík 22. mars 1951. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut 16. maí síðastliðinn og var útför gerð frá Fossvogskirkju 27. maí.

Fáein fátækleg kveðjuorð færi ég á blað við fráfall hennar Unnar Bjarklind, sem ég hafði af svo kær kynni fyrir margt löngu. Harmsefni var mér fráfall svo ágætrar konu á bezta aldri, en ég vissi að hún hafði lengi barizt hetjulegri baráttu við vágest þann sem svo alltof marga að velli leggur.

Unnur var starfsmaður Alþingis þegar ég var þar vistráðinn og hún annaðist þá alls konar vélritun og þar með skjalafrágang, ómetanleg aðstoð þeim sem þóttust ekki hafa til þess tíma að ganga sómasamlega frá svo mörgu sem að kallaði á hverri tíð. Það má ekki gleymast hversu mikilsverðu hlutverki hið góða starfsfólk Alþingis gegndi og gegnir ugglaust enn og þakklátum huga renni ég oft til þessa tíma og þá ekki sízt til þess góða fólks er þar vann á vettvangi.

Frænka hennar Sigríður Bjarklind var úti á skrifstofunni, hinn ómissandi bakhjarl þeim sem óreyndur var á málasviði og minnist ég hennar með sérstöku þakklæti og svo var hún Unnur mín úti í Þórshamri með sína aðstöðu, alltaf reiðubúin til að lesa misvel skrifuð og misgáfuleg handrit frá minni hendi, alltaf broshýr og elskuleg, alltaf jafnfljót til, alltaf jafnrösk að skila til baka, allt jafnvel gert svo ekki þurfti um að bæta.

Það komu margir með handrit sín í Þórshamar á þessum árum og annríki oft ótrúlega mikið enda mörg önnur störf þar sem þurfti hendi til að taka og nær alltaf lá öllum á. Þær stöllur Unnur og Fríða Proppé voru alltaf jafnviðbragðsfljótar og ekki var síður mikils um vert af hve mikilli samvizkusemi öllu var skilað heilu í höfn og svo komu aðrar þar til skjalanna með sömu aðalsmerkin.

Ég minnist þess að einu sinni skömmu fyrir kosningar varð ég fullseinn fyrir með bæði minnisatriði, blaðagreinar tvær og ræðukorn og ekki var þetta nú fagurlega skrifað í flýtinum, en ég kom við hjá Unni á leiðinni út á flugvöll og bað hana sem bezt liðsinnis og svo skyldi hún senda mér þetta heim á Reyðarfjörð. Þessu var tekið með sömu elskuseminni og birtu í brosinu og eitthvað var ég að stússast þarna smástund, en um leið og ég fór út úr dyrunum í Þórshamri kallaði Unnur á mig og rétti mér minnisatriðin fullfrágengin. Daginn eftir kom hitt allt til mín austur með hvatningarkveðju hennar sem ég gleymi aldrei, svo mikil hlýja og einlægni sem henni fylgdi, dýrmæt mér í erfiðri og krefjandi baráttu. Unnur var greind kona, hún var hógvær, allt að því hlédræg, fíngerð kona, brosmild og hlý í viðmóti og bauð af sér einkar góðan þokka. Ég hitti hana einstaka sinnum á síðari árum og alltaf var það jafnágætt, samt var hennar hlýja bros og vermandi viðmótið og það fékk ég að heyra frá starfsfélaga hennar í fyrra að á þeim vinnustað hefði hún reynzt sami ljúfi starfskrafturinn og á Alþingi áður, velvirk og vandvirk.

Ég hlýt að færa hlýjar þakkir við leiðarlok og undir það veit ég svo margir taka sem hún Unnur vann fyrir á sinni tíð. Ég sendi öllu hennar fólki einlægar samúðarkveðjur. Þar fór hin ágætasta kona góðra eðliskosta.

Blessuð sé hennar mæta minning.

Helgi Seljan.

Við vorum báðar fæddar í Reykjavík en kynntumst í Ólafsvík innan við 10 ára aldur. Þau kynni voru stutt en eftirminnileg og tengdu okkur saman síðar á ævinni. Við vorum í sveit eins og það var kallað í þá daga. Báðar hjá góðu fólki en ekki sömu fjölskyldu þótt þær tengdust fjölskylduböndum. Við undum okkur við leik fyrstu dagana en svo fannst okkur komið nóg og vildum heim. En barnshugurinn er fljóthuga því ekki fannst okkur ástæða til að nefna það við þetta góð fólk sem við vorum hjá að við værum með heimþrá heldur skipulögðum flótta. Við vorum í marga daga að undirbúa hann, söfnuðum mat og snyrtivörum sem við töldum nauðsynlegt að hafa með í ferðina. Við sannfærðum hvor aðra um að ferðin væri aðeins yfir fjallið og kannski mundum við komast til Þingvalla því þar var víst voða gaman að vera. Við lögðum af stað og gengum strax er við komum út úr Ólafsvík upp á fjallið eins og við kölluðum það. Þá voru höfuðborgarstelpurnar orðnar þreyttar því gangan var ansi löng fyrir barnsfætur. Við ætluðum aðeins að hvíla okkur því það var farið að rökkva er upp var komið. En lengra komumst við ekki því skelfing hafði gripið um sig í Ólafsvík er uppgötvaðist að við vorum horfnar og mikil leit gerð þar og fundumst við seint um kvöldið. Hvorug okkar mundi hvað gerðist eftir þennan flótta okkar en trúlega vorum við skildar að. Það næsta er ég heyri um Unni var er faðir minn var á Alþingi að hann segir við mig: Strokustelpan, vinkona þín, vinnur á Alþingi. Úps, það sat enn í föður mínum eftir öll þessi ár, en síðan sagði hann mér að hún væri alveg einstök í starfi sínu þar.

Leiðir okkar lágu saman aftur er hún fór að vinna hjá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar en ég vann hjá Eflingu - stéttarfélagi. Þessi ljúfa og elskulega stúlka sem leysti úr hvers manns vanda ef hún gat með elskulegu brosi og fordómalaus með öllu. Það er erfitt starf að vinna á Vinnumiðlun og reyna að leysa úr vanda fólks sem er örvæntingarfullt og hrætt vegna atvinnuleysis, en þar var Unnur fremst á meðal jafningja.

Minningar okkar frá barnsaldri eru fullar af sólskini og gleði, sagði Unnur við mig fyrir stuttu, og það er með sanni. En minningar mínar um Unni eru fullar af sólskini jafnt í dag sem á æskuárum okkar. Blessuð sé minning Unnar vinkonu minnar, það voru forréttindi að eiga hana sem vin.

Sólveig

Guðmundsdóttir.

Helgi Seljan.