Jón Jörgensson Kjerúlf fæddist 8. september 1906 í Brekkugerði í Fljótsdal. Hann lést á dvalarheimili aldraðra í Kirkjuhvoli á Hvolsvelli 15. maí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Ásólfsskálakirkju 24. maí.

Mig langar að skrifa nokkur orð til minningar um Jón J. Kjerúlf, en þegar rætt er um Jón, sem ég og fleiri kölluðum ætíð frænda, jafnvel þótt ekki væri um beinan skyldleika að ræða, er konan hans Þorbjörg ekki langt undan. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast þeim hjónum á árunum 1960 til 1967 er þau bjuggu á Húsum í Fljótsdal, en þá var ég í sveit hjá þeim í 5 sumur. Ég var nú bara barn á þeim árum en þessi sumur austur í Fljótsdal eru mér ákaflega minnisstæð, ekki síst vegna þeirra hjóna. Það ríkti ætíð mjög mikill kærleikur í milli þeirra og þau gáfu mjög mikið af sér.

Aldrei heyrði ég þeim hjónum verða sundurorða þann tíma sem ég dvaldi hjá þeim. Frændi hafði mikið jafnaðargeð og var ætíð ljúfur og góður og gott til hans að koma. Hann gat verið þrjóskur og fastur á sínu, en það held ég eftir á að hyggja að hafi verið mjög nauðsynlegt fyrir hann, því hvernig hefði annars verið hægt að búa fjárbúi í afskekktri sveit sem Fljótsdalurinn var á þeim árum er hann bjó þar. Frændi var mikill búmaður og ég held að ekki sé á neinn hallað þótt ég haldi því fram að fjárgleggri maður hafi varla verið til, hann þekkti rollur úr mikilli fjarlægð og gat sagt til frá hvaða bæ þær voru. Frændi lagði mikið upp úr fjárstofninum sínum og átti alltaf góða hrúta. Hann átti marga verðlaunahrúta og það var honum mikið kappsmál að rækta sitt sauðfé. Til merkis um kærleika þeirra hjóna er að hann kallaði konu sína aldrei annað en "Blíða mín" og hún kallaði hann alltaf Frænda. Þau voru miklir höfðingjar heim að sækja og var oft gestkvæmt hjá þeim, alltaf gat Þorbjörg galdrað fram veislu án fyrirvara er gesti bar að. Þau tóku að sér og ólu önn fyrir þeim sem minna máttu sín, það var alltaf pláss hjá þeim, þarna komu menn sem dvöldust árum saman hjá þeim og nutu góðs atlætis.

Frændi var mjög ljóðelskur maður og kunni reiðinnar býsn af ljóðum og stökum sem hann hafði afar gaman af að fara með, hann orti einnig mikið af ljóðum og til merkis um það kom út eftir hann ljóðabókin Tíbrá árið 1997. Ég get fullyrt að honum leið aldrei betur en þegar hann var úti á engi eða í lækjarbakka með orf og ljá og vasapela í rassvasanum, þá söng hann og fór með kveðskap. Hann hafði kæk, en hann var sá að hann blikkaði mikið augunum og sérlega er hann hafði eitthvað spaugilegt á vörum en þá brosti hann eins og honum einum var lagið og þá hreif hann alla með sér.

Ég man ekki eftir honum nema í góðu skapi. Hann hafði gaman af hestum og átti oft gæðinga en hann notaði þá ekki mikið nema til smalamennsku og þá var líka eins gott að kláranir stæðu sig þar sem göngurnar tóku 9 daga og var um öræfi að fara. Þetta reyndi bæði á menn og hesta, en einnig hunda en Frændi átti ætíð góða smalahunda.

Mér er minnisstæðust manngæskan og góðvildin sem alltaf var til staðar og mér hefur oft orðið hugsað til þess hvort fegurðin í Fljótsdalnum hafi átt þar þátt en trúað gæti ég því.

Eftir að þau hjónin fluttu suður í Holt undir Eyjafjöllum til dóttur sinnar og tengdasonar fór mjög vel um þau en Þorbjörg lést 1975 og var það mikill missir fyrir Frænda. Hann var mikil barnagæla og mikill Afi eins og hann var alltaf kallaður eftir að hann fluttist suður. Börnum hans og tengdabörnum ásamt barnabörum sendi ég mínar hugheilustu samúðarkveðjur.

Ég vil að lokum þakka fyrir viðkynninguna við fólkið á Húsum í Fljótsdal, það gerði mig að betri manni og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Kær kveðja,

Sigþór Hákonarson.

Sigþór Hákonarson.