Hinn þjóðlegi tónlistarhópur Kínversku kvikmyndahljómsveitarinnar í Peking lék hér á landi í janúar á þessu ári til að fagna þrjátíu ára stjórnmálasambandi þjóðanna.
Hinn þjóðlegi tónlistarhópur Kínversku kvikmyndahljómsveitarinnar í Peking lék hér á landi í janúar á þessu ári til að fagna þrjátíu ára stjórnmálasambandi þjóðanna.
ÍSLENSKIR esperantistar fóru í heimsókn til Kína árið 1952. Um haustið stofnuðu þeir Kínanefnd, og formaður hennar var kjörinn dr. Jakob Benediktsson, forstöðumaður Orðabókar Háskóla Íslands.

ÍSLENSKIR esperantistar fóru í heimsókn til Kína árið 1952. Um haustið stofnuðu þeir Kínanefnd, og formaður hennar var kjörinn dr. Jakob Benediktsson, forstöðumaður Orðabókar Háskóla Íslands. Veturinn eftir efndi Kínanefndin til kínverskrar listmunasýningar í Listamannaskálanum. Kínversk-íslenska menningarfélagið var svo stofnað formlega haustið 1953. Formaður Kínversk-íslenska menningarfélagsins í dag er Arnþór Helgason.

"Félagið beitti sér fyrir margvíslegum uppákomum í samvinnu við kínversk stjórnvöld. Meðal hópa sem hingað komu var Pekingóperan sem kom hingað 1955. Kínversk-íslenska menningarfélaginu var boðið að senda nefndir til Kína. Það varð til þess að árið 1956 fór nefnd skipuð fulltrúum allra stjórmálaflokka undir forystu dr. Jakobs til Kína."

Á þessum árum beitti félagið sér fyrir því að koma á samskiptum milli íslenskra fræði- og vísindamanna og kínverskra starfsbræðra þeirra. Árið 1966 fóru Stefán Jónsson fréttamaður og Sigurður Róbertsson rithöfundur til Kína.

"Þeir fylgdust með upphafi menningarbyltingarinnar og Stefán sendi fréttir heim um þau mál. Eftir að sendiráð Kínverja á Íslandi tók til starfa árið 1972 kom fjörkippur í samstarfið. Kínversk-íslenska menningarfélagið var þá sá farvegur sem bæði stjórnvöld í Kína og jafnvel hér á landi beindu samskiptum um. Ég get nefnt sem dæmi að 1975 kom hingað fjöllistahópur frá Tianjin og hélt sýningar í Laugardalshöll sem milli tólf og sextán þúsund manns sáu." Arnþór segir að Kínversk-íslenska menningarfélagið hafi lengi haft það á stefnuskrá sinni að íslensk stjórnvöld viðurkenndu Kínverska alþýðulýðveldið. Það gerðist þó ekki fyrr en 1971. "Félagið átti frumkvæði að því að efna til almennra ferða til Kína, og fyrstu hóparnir fóru héðan á þeirra vegum árið 1977. Félagið hefur samskipti við Kínversku vináttusamtökin, þá stofnun í Kína sem annast alþjóðleg samskipti sveitarstjórna í Kína við umheiminn. Þar höfum við komið á tengslum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Félagið hefur í nokkrum mæli verið að taka á móti hópum á vegum kínverskra fylkisstjórna, sem koma hingað í þeim tilgangi að kynna sér bæði efnahagslegt og menningarlegt umhverfi."

Kínversk-íslenska menningarfélagið átti hugmyndina að því að gerður var gagnkvæmur samningur um menningartengsl Íslands og Kína. Í honum felst að stjórnvöld taka við listamannahópum þjóðanna samkvæmt nánara samkomulagi. "Það er talsvert til félagsins leitað frá Kína um ráðgjöf um íslensk málefni, en Íslendingar leita einnig til okkar með margvísleg verkefni sem þá langar að takast á hendur í Kína."

Um 200 félagsmenn eru í Kínversk-íslenska menningarfélaginu. Það er óháð kínverskum stjórnvöldum og segir Arnþór það sjálfstæð menningarsamtök sem blandi sér ekki í pólitísk málefni.