Li Peng, forseti þjóðþings Kína, heimsótti Ísland fyrir tæplega tveimur árum og voru ekki allir  sáttir við heimsóknina. Hér eru mótmælendur við Hótel Sögu.
Li Peng, forseti þjóðþings Kína, heimsótti Ísland fyrir tæplega tveimur árum og voru ekki allir sáttir við heimsóknina. Hér eru mótmælendur við Hótel Sögu.
LI Peng, forseti kínverska þingsins og fyrrverandi forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Íslands í september 2000 og varð heimsóknin umdeild.

LI Peng, forseti kínverska þingsins og fyrrverandi forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Íslands í september 2000 og varð heimsóknin umdeild.

Mörg félagasamtök efndu til sameiginlegs útifundar á Austurvelli daginn eftir komu Li Pengs til landsins til að mótmæla heimsókn hans til Íslands. Á fundinum var vakin athygli á ástandi mannréttinda í Kína og fórnarlamba blóðbaðsins á Torgi hins himneska friðar var minnst.

Fram kom hjá fundarboðendum að kínversk stjórnvöld hefðu barið niður andóf námsmanna og lýðræðissinna í blóðbaði á Torgi hins himneska friðar í júní 1989. SUS skoraði á íslenska ráðamenn að hunsa heimsókn Li Pengs til Íslands og taka þannig undir hörð mótmæli ungra sjálfstæðismanna vegna komu hans til landsins. Þá sendi Íslandsdeild Amnesty International samhljóða bréf til forseta Íslands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og forseta Alþingis þar sem vakin var athygli á ástandi mannréttindamála í Kína.

Vegna fundarins ákvað kínverska sendinefndin að heimsækja ekki Alþingishúsið eins og til hafði staðið.

Íslenskir lögreglumenn og kínverskir öryggisverðir hindruðu fréttamann Stöðvar 2 í að leggja spurningar fyrir Li Peng á Nesjavöllum og lögreglan hafði afskipti af sama fréttamanni og meinaði honum aðgang að húsi í Breiðholti þar sem Li Peng var í heimsókn. Fréttamaðurinn spurði Li Peng hvort hann bæri ábyrgð á blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar, en fékk ekki svar og urðu af þessu nokkur eftirmál.

Morgunblaðið fjallaði um heimsóknina í leiðara þriðjudaginn 5. september 2000 og þar segir m.a.:

"Kína er eitt af voldugustu ríkjum veraldar. Þar býr um fjórðungur mannkyns og búast má við að áhrif Kínverja í heiminum fari stöðugt vaxandi næstu áratugina. Sú opnun, er átt hefur sér stað í kínversku efnahagslífi, gerir jafnframt að verkum að Kína er orðið að mikilvægum markaði, ekki síður fyrir Ísland en önnur vestræn ríki. Samskiptin við Kína eru því mikilvæg fyrir okkur Íslendinga og nauðsynlegt að efla þau enn frekar.

Það breytir hins vegar ekki því að okkur ber skylda til að fordæma það sem okkur þykir miður fara í stjórnarfari Kína og ekki hika við að vekja athygli á því í samskiptum okkar við kínverska ráðamenn.

Þrátt fyrir að Ísland hafi átt veruleg samskipti og viðskipti við Sovétríkin á meðan þau voru og hétu varð það ekki til þess að við létum af gagnrýni á stjórnarfarið þar í landi. Að sama skapi hafa Íslendingar ekki sætt sig við að Kínverjar reyni að segja okkur fyrir verkum, til dæmis hvað varðar samskiptin við lýðræðisríkið Taívan.

Staða mannréttindamála er að mörgu leyti hrikaleg í Kína og er sorglegt að fjölmennasta þjóð veraldar skuli enn búa við þá andlegu kúgun er raun ber vitni. Tjáningarfrelsi og óheft skoðanaskipti eru grundvöllur okkar samfélags.

Það sama á því miður ekki við um Kína líkt og greinilega kom í ljós er forseti kínverska þingsins ákvað að hætta við heimsókn sína í Alþingi Íslendinga til þess að þurfa ekki að sjá fólk, sem notfærði sér lýðræðislegan rétt í okkar þjóðfélagi og mótmælti heimsókn hans. Þann sama rétt og námsmennirnir á Torgi hins himneska friðar börðust fyrir að kínversk alþýða fengi en guldu fyrir með lífi sínu hina örlagaríku daga sumarið 1989."