"ÞAÐ ER tvennt sem vert er að hafa í huga í viðskiptum í Kína. Í fyrsta lagi veit Kínverji ekkert verra en að missa andlitið. Verði hann uppvís að því að segja ósatt eða hafa ekki gefið réttar upplýsingar þá lætur maður vera að skella því á hann.

"ÞAÐ ER tvennt sem vert er að hafa í huga í viðskiptum í Kína. Í fyrsta lagi veit Kínverji ekkert verra en að missa andlitið. Verði hann uppvís að því að segja ósatt eða hafa ekki gefið réttar upplýsingar þá lætur maður vera að skella því á hann. Þeir eru í viðskiptum allir af vilja gerðir og vilja þóknast manni, segja hluti jafnvel vera í lagi sem ekki eru í lagi. Þá þarf að fara í kringum málið eins og köttur fari kringum heitan graut til að fá hlutina lagfærða.

Svo er annað: Aldrei að verða reiður, aldrei að sýna illsku eða hækka röddina. Það sendir þau skilaboð að maður meti hina manneskjuna ekki sérlega mikils. Þetta tel ég vera mikilvægast í viðskiptum við Kínverja," segir Unnur Guðjónsdóttir hjá Kínaklúbbi Unnar. Hún hefur skipulagt 16 ferðir fyrir 15 manna hópa að jafnaði til Kína á sl. tíu árum og lætur vel af viðskiptum sínum við Kínverja. "Mér hefur gengið vel í samskiptum við Kínverja og kínverska kerfið er ekki erfiðara en svo að komi eitthvað óvænt upp á þá getur maður tekið sjálfur í taumana. Fólk er í raun alls staðar eins."

Unnur skiptir við ferðaskrifstofu kínverska ríkisins en skipuleggur samt ferðir sínar sjálf. Hún segir mikilvægt að vera í viðskiptum við ríkið og þrátt fyrir að einkareknar ferðaskrifstofur hafi verið að vinna sér sess í Kína þá hefur hún ekki mikla trú á að þær geti enn sem komið er veitt aðgang að sömu þjónustu og upplýsingum.