Raðsmíðaskipin níu sem smíðuð voru fyrir íslenskar útgerðir í Kína voru flutt hingað til lands samtímis á flutningaskipi og sjósett í Hafnarfirði.
Raðsmíðaskipin níu sem smíðuð voru fyrir íslenskar útgerðir í Kína voru flutt hingað til lands samtímis á flutningaskipi og sjósett í Hafnarfirði.
EIN MESTA endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans á seinni tímum fór fram í Kína. Á síðustu fjórum árum hafa bæst í fiskiskipaflotann samtals 16 ný skip sem sem smíðuð voru í Kína.

EIN MESTA endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans á seinni tímum fór fram í Kína. Á síðustu fjórum árum hafa bæst í fiskiskipaflotann samtals 16 ný skip sem sem smíðuð voru í Kína.

Í upphafi síðasta áratugar var ljóst að fiskiskipafloti landsmanna var mjög kominn til ára sinna og þurfti endurnýjunar við. Varla var hægt að tala um nýsmíði í flotanum að gagni síðan Japanstogararnir svokölluð komu til landsins árið 1973, alls tíu stykki. Einkum þótti uppsjávarfiskiflotinn úr sér genginn og einnig var aðkallandi að endurnýja hinn hefðbundna vertíðarbátaflota. Með breyttum reglum um úreldingu fiskiskipa, aðallega breytingum á rúmmetrareglunni svokölluðu, jókst svigrúm útgerðarmanna til endurnýjunar. Þeir fóru því að horfa í kringum sig eftir möguleikum til nýsmíða. Eftir nokkra eftirgrennslan kom í ljós að að skipasmíðastöðvar í Kína og í Chile gátu boðið íslenskum útgerðarmönnum vönduð skip á hagstæðara verði en í helstu samkeppnislöndum.

Kínverskur skipasmíðaiðnaður hefur vaxið og þróast hratt frá árinu 1980 og Kínverjar eru nú þriðja mesta skipasmíðaþjóð í heimi, næst á eftir Japönum og Kóreumönnum. Kínversk stjórnvöld hafa stutt vel við bakið á skipasmíðaiðnaðinum í Kína til að hvetja til aukins útflutnings og er skipasmíðaiðnaðurinn á góðri leið með að verða ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Útflutningur nýsmíða eykst jafnt og þétt og öll helstu vottunarfélög í heimi hafa viðurkennt hágæðaframleiðslu í kínverskum skipasmíðaiðnaði. Það sem Kínverjar hafa hins vegar að bjóða fram yfir aðrar skipsmíðastöðvar er ódýrt vinnuafl í Kína.

Það var Örn Erlingsson, útgerðarmaður og skipstjóri, sem reið á vaðið árið 1998 og samdi við skipasmíðastöðina Huangpu í borginni Guanzhou í Suður-Kína um smíði á öflugu nóta- og togveiðiskipi, Guðrúnu Gísladóttur KE. Í kjölfarið fylgdu fleiri útgerðir og nú eru öll skipin komin til heimahafnar á Íslandi, nú síðast túnfiskveiðiskipið Stígandi VE sem kom til Vestmannaeyja í mars sl.

Vestrænar þjóðir höfðu fram að þessu ekki leitað mjög til kínverskra skipasmíðastöðva til að láta smíða fyrir sig fiskiskip og því má kalla Íslendinga brautryðjendur í þessum efnum. Auk tveggja áðurnefndra skipa voru í Kína smíðaðir tveir 29 metra ísfisktogarar fyrir útgerðir í Reykjavík, Björn RE og Helga RE, netabáturinn Happasæll KE frá Keflavík, kúfiskskipið Fossá ÞH frá Þórshöfn og túnfiskskipið Guðni Ólafsson VE frá Vestmannaeyjum. Þá voru smíðaðir níu sams konar vertíðarbátar í skipasmíðastöðinni í Dalian í Norður-Kína en þeir eru Ársæll Sigurðsson HF frá Hafnarfirði, Eyvindur KE frá Keflavík, Garðar BA frá Patreksfirði, Ólafur GK frá Grindavík, Rúna RE frá Reykjavík, Sigurbjörg ST frá Hólmavík, Sæljón RE frá Reykjavík, Vestri BA frá Patreksfirði og Ýmir BA frá Bíldudal.