"KÍNA er eitt af erfiðari löndum fyrir okkur að eiga viðskipti við. Það er mín reynsla.

"KÍNA er eitt af erfiðari löndum fyrir okkur að eiga viðskipti við. Það er mín reynsla. Það er að hluta til vegna þess að oft fara menn þangað með röngu hugarfari, halda að auðvelt sé að komast inn á þennan stóra markað og um skjótfenginn gróða sé að ræða. Sú er alls ekki raunin," segir Baldur Hjaltason, sem starfar hjá Pronova Biocare, dótturfyrirtæki Norsk Hydro í Noregi. Þar sér hann m.a. um viðskipti við Kína en Baldur hóf að stunda viðskipti við Kínverja þegar hann starfaði sem tæknilegur framkvæmdastjóri hjá Lýsi hf.

"Þegar farið er út í viðskipti við Kínverja þarf að læra nokkuð inn á hvernig þeir hugsa. Frá mínum bæjardyrum séð er viðmót þeirra í viðskiptum allt annað en maður á að venjast, t.d. eru þeir miklu harðari og ákveðnari í samningum og viðskiptum en við. Þeir eru harðir í horn að taka en það er ekkert að því. Við þurfum kannski að læra að bregðast við því."

Baldur segir í sjálfu sér ekki erfitt að sameina vinnubrögð manna af þessum tveimur menningarheimum. "Kínverjum er umhugað um að eiga viðskipti og græða peninga. Það er leiðarljós beggja aðila og leiðir þá saman. Hins vegar er mikilvægt að kynna sér trú þeirra og menningu til þess að vera sér meira meðvitandi um lífsviðhorf þeirra. Sérstaklega ef menn ætla að selja neytendavörur, þá er mikilvægt að skilja samfélag þeirra.

Annað er sláandi í öllum viðskiptum við Kína, að flestöll fyrirtækin eru ennþá í eigu hins opinbera. Því er mikilvægt, samhliða hreinum viðskiptum, að hafa pólitísku hliðina í lagi, þ.e. að skapa traust meðal valdamanna í stofnunum og ráðuneytum og sjá til þess að þeir viti hver þú ert. Það hafa margir farið flatt á því að fara út í viðskipti í Kína án þess að vera búnir að vinna heimalandið."

Baldur segir að bestu lýsingarnar á viðskiptum við Kína hafi hann frá erlendum stórfyrirtækjum sem hafi fjárfest þar í landi. Þau séu flest komin á þá skoðun að ekki verði mikill ágóði af fjárfestingum þeirra í Kína á næstu árum. Hins vegar telja þau sig ekki hafa efni á því að sleppa þeim enda liggi þarna óhemjumikil viðskipti í framtíðinni. Þá geti orðið þeim dýrkeypt að hafa ekki ekki komið sér fyrir og lært á markaðinn. "Menn verða að koma sér fyrir, læra og vera þolinmóðir áður en þeir fara að sjá árangur."