[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar eiga í sívaxandi viðskiptum við Kínverja. Soffía Haraldsdóttir kannaði hver þróunin hefur verið í viðskiptunum.

VIÐSKIPTI Kínverja og Íslendinga hafa í gegnum tíðina verið meira og minna einhliða, þ.e. verðmæti innflutnings okkar frá Kína hefur verið margfalt meira en verðmæti útflutnings okkar til Kína. Þetta hefur þó breyst hröðum skrefum á allra síðustu árum þrátt fyrir að enn halli mikið á Íslendinga í viðskiptum þjóðanna.

Innflutningur frá Kína byggist að mestu leyti á unnum vörum á borð við fatnað, skó og ýmiss konar iðnaðarvörur. Einnig á fjarskipta-, rafeinda- og tölvubúnaði, auk þess sem framleiðsluvörur, þ.ám. vefnaðarvörur, skipa sinn sess. Aukning hefur orðið á þessum innflutningi ár frá ári en heildarverðmæti innflutnings frá Kína nam 6,4 milljörðum króna á árinu 2001, sem er tæplega 70% aukning frá árinu áður. Mest munar þar um aukningu í innflutningi flutningatækja, þ.e. skipa sem smíðuð eru í Kína.

Sjávarafurðir, tækni og hitaveita flutt út

Uppistaðan í útflutningi Íslendinga til Kína hefur verið sjávarafurðir og nemur sá hluti yfir 80% af útflutningsverðmæti hvers árs að jafnaði. Helstu tegundirnar sem seldar eru til Kína eru kaldsjávarrækja, loðna, loðnulýsi, fiskiolía, karfi og grálúða. Þá hefur verið lögð aukin áhersla á sölu ýmiss konar tækjabúnaðar og þekkingar auk þess sem Íslendingar vinna nú með Kínverjum að verkefni um nýtingu jarðvarma.

Flestar útflutningsvörurnar eru seldar sem hráefni til vinnslu eða samsetningar í Kína enda leggja Kínverjar mikið upp úr samstarfi um að fullvinna afurðir. Vörur sem fluttar eru frá Íslandi til Kína fara því að jafnaði til vinnslu hjá fyrirtækjum og þar eru þær seldar, jafnvel úr landi, en án þess að neytendur geri sér grein fyrir uppruna vörunnar. Sala á lýsi til manneldis er eitt fárra íslenskra dæma, ef ekki eina dæmið, um sölu innfluttrar íslenskrar vöru beint á neytendamarkað.

Samstarfsverkefni Íslendinga og Kínverja á sviði jarðhitanýtingar í Peking hefur lofað góðu en að því hefur verið unnið um tveggja ára skeið að byggja og reka þar hitaveitu. Til stendur að Ólympíuleikarnir í Kína árið 2008 verði haldnir skammt þar frá og ólympíuþorpið verði rekið á umhverfisvænan hátt. Verið er að athuga möguleika Íslendinga á að komast í tengsl við það verkefni hvað varðar jarðvarma til orkunotkunar.

Tollar fara lækkandi

Frá þeim tíma að Kínverjar opnuðu landið fyrir utanríkisviðskiptum árið 1978 hefur verslun við önnur lönd margfaldast. Lagst var í miklar umbætur með endurskipulagningu efnahagskerfisins og leiddi það til betri efnahags og umtalsverðs hagvaxtar í landinu. Viðhorfin til utanríkisviðskipta hafa því breyst mikið á síðustu árum og mikið er lagt upp úr því að auka erlendar fjárfestingar og innstreymi á erlendum gjaldeyri. Þess vegna vilja Kínverjar gjarnan flytja inn vöru til vinnslu og flytja hana svo út.

Sem fyrr segir byggist útflutningur Íslendinga til Kína að langmestu leyti á sjávarafurðum en helstu hömlur á þeirri sölu hafa verið háir tollar í Kína. Ísland hefur þó um nokkurra ára skeið verið í hópi þeirra landa sem greiða hvað lægsta tolla inn í landið. Þar sem Kínverjar hafa nú gerst aðilar að Heimsviðskiptastofnuninni eru enn frekari tollalækkanir á döfinni þegar til lengri tíma er litið.

Útflutningsráð og VUR

Íslensk fyrirtæki hafa flest nýtt sér sérfræðiaðstoð við útflutning til Kína. Útflutningsráð hefur komið mörgum þeirra til aðstoðar í tengslum við markaðsstarf, kynningar og vörusýningar. Ráðið hóf að kynna markaðssetningu sjávarafurða í Kína á árunum 1994-5 og síðar véltækni í tengslum við vinnslu og veiðar. Nú er áherslan í Kína sett á markaðssetningu íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja.

Einnig hefur viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðað íslensk fyrirtæki við úrlausn ýmissa verkefna í Kína. Í sendiráðinu í Kína er viðskiptafulltrúi sem aðstoðar fyrirtækin við úrlausn vandamála og hindrana auk þess að koma á viðskiptasamböndum við Kínverja. Dæmi um úrlausnarefni er útvegun túlka og sambönd við yfirvöld en fyrirtæki í Kína eru flest enn í eigu hins opinbera eða starfrækt á vegum yfirvalda í einstökum fylkjum landsins. Með miklum vexti beinna erlendra fjárfestinga er þetta að breytast en viðmælendur voru sammála um að mönnum yrði lítt ágengt í viðskiptum við einkaaðila eingöngu.

soffia@mbl.is