Sigurður Daði  Sigfússon
Sigurður Daði Sigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
3. -13. júní 2002

STIGAMÓT Hellis var skipulagt í þeim tilgangi að gefa skákmönnum færi á að hækka á alþjóðlega stigalistanum sem FIDE mun birta í byrjun júlí. Fjórtán sterkir skákmenn taka þátt í mótinu. Sú nýjung var tekin upp í þessu móti að ekki er heimilt að fresta skákum. Fjórum umferðum af sjö er lokið og Björn Þorfinnsson hefur tekið forystuna á mótinu með 3½ vinning. Staðan er annars þessi:

1. Björn Þorfinnsson 3½ v.

2. Sigurður Daði Sigfússon 3 v.

3.-5. Sævar Bjarnason, Bragi Þorfinnsson, Arnar Gunnarsson 2½ v.

6.-9. Snorri Bergsson, Ríkharður Sveinsson, Ingvar Þór Jóhannesson, Stefán Kristjánsson 2 v.

10.-12. Lenka Ptacnikova, Hrannar B. Arnarsson, Kristján Eðvarðsson 1½ v.

13. Dagur Arngrímsson 1 v.

14. Guðmundur Kjartansson ½ v.

Taflmennskan á mótinu hefur verið afar fjörleg og úrslitin oft óvænt, bæði þegar tekið er tillit til stigamismunar keppenda og eins þegar skoðað er hvernig skákirnar þróuðust. Efsti maður mótsins, Björn Þorfinnsson, hefur haft heilladísirnar með sér í mótinu og kann líka að fagna svo um munar þegar þær leggja honum lið. Þeir gera ekki miklu betur knattspyrnumennirnir í heimsmeistarakeppninni, sem nú stendur yfir, þegar þeir ná að skora mark.

Það er hins vegar Hrannar B. Arnarsson, nýendurkjörinn forseti Skáksambands Íslands, sem hefur nýtt sér best þetta tækifæri til að fjölga alþjóðlegu skákstigunum, en eftir fjórar umferðir hefur hann hækkað um 23 stig.

Ein allra villtasta skákin á mótinu fram að þessu var viðureign þeirra Sigurðar Daða Sigfússonar og Braga Þorfinnssonar. Sigurður Daði teflir afar djarft í skákinni, og uppsker glæsilegan sigur.

Hvítt: Sigurður Daði Sigfússon

Svart: Bragi Þorfinnsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 Rc6 6. Bc4 e6 7. Be3 -

Önnur leið er 7. Bb3.

7. ... a6 8. Bb3 -

Þegar hvítur teflir Velimirovic-árásina leikur hann venjulega strax 8. De2.

8. ... Dc7 9. De2

-

Með þessum leik, ásamt langri hrókun, er Velimirovic-árásin sett í gang. Rólegri skákmenn leika 9. 0-0, ásamt f2-f4-f5 o.s.frv.

9. ... Be7

Svartur getur reynt að hefja strax gagnaðgerðir á drottningarvæng með 9... Ra5.

10. 0-0-0 0-0

Ekki er hægt að birta skák með þessari byrjun, án þess að geta grunnskákarinnar: 10. ... Ra5 11. g4 b5 12. g5 Rxb3+ 13. axb3 Rd7 14. Rf5 exf5 15. Rd5 Dd8 16. exf5 0-0 17. f6 gxf6 18. Bd4 Re5 19. gxf6 Bxf6 20. Hhg1+ Bg7 21. Bxe5 dxe5 22. Dxe5 f6 23. Re7+ Kf7 24. Dh5+ og svartur gafst upp (Velimirovic-Sofrevski, 1965).

Danski alþjóðameistarinn Svend Hamann fann betri vörn fyrir svart: 16. ... Bb7 (í stað 16. - 0-0).

11. g4 Rd7

Upphafsmaður afbrigðisins, júgóslavneski stórmeistarinn Dragoljub Velimirovic, vann fallega skák á móti Júlíusi Friðjónssyni á Reykjavíkurskákmótinu 1974: 11. ... Rxd4 12. Hxd4 b5 (12. - e5 13. Hc4, ásamt 14. g5) 13. g5 Rd7 14. e5!? d5 15. Hh4 g6 16. f4 b4 17. Ra4 Bb7 18. Bd4 Bc6 19. De3 Hfb8 20. Hg1 Da5 21. f5 Bxa4 22. fxe6 fxe6 23. Dh3 Rf8 24. Hxh7 Rxh7 25. Dxe6+ Kf8 26. Hf1+ Ke8 27. Hf7 Hb7 28. Bxa4+ Dxa4 29. Hxh7 Kd8 30. Bb6+ Hxb6 31. Dxe7+ og svartur gafst upp.

12. Hhg1 Rc5 13. Rf5!? -

Önnur leið er 13. g5. t. d. 13. - b5 14. Kb1 Bb7 15. Hg3 Rxd4 16. Bxd4 b4 17. Dh5 bxc3 18. f3 Rxb3 19. axb3 e5 20. Hh3 (20. Bxc3 Bc8) 20. - h6 21. Be3 cxb2 22. Hg1 Da5 23. c4 Bxg5 24. Hhg3 Da1+ 25. Kc2 Da2 26. Hb1 Bxe3 og svartur vann (Garma-Vladimirov, Kalkútta 2001).

13. ... b5

Hvítur fær góð sóknarfæri á g-línunni ef svartur drepur riddarann. Staðan er svo flókin, að erfitt er að fullyrða um möguleika teflanda.

14. Bd5 Bb7

Eða 14. ... exf5 15. gxf5 He8 16. Bxf7+! Kxf7 17. Dh5+ Kf8 18. Hxg7 Kxg7 19. Bh6+ Kf6 (19. ... Kh8 20. Dxe8+ Bf8 21. Dxf8+ mát) 20. Dg5+ Ke5 21. f4+ mát.

Eftir 14. ... exd5 15. Rxd5 Db7 16. e5 Re6 17. exd6 Bd8 á svartur þrönga stöðu, en hvítur virðist ekki eiga auðvelt með að brjóstast í gegnum varnirnar.

15. g5 b4

Skákin verður sífellt flóknari. Önnur leið er 15. ... Hfc8.

16. Dh5 Re5 17. f4!? -

Nýr leikur. Þekkt er 17. Hg3 exf5 18. exf5 bxc3 19. g6 cxb2+ 20. Kb1 hxg6 21. fxg6 Rxg6 22. Dxg6 Re6 23. Bxe6 Bf6 24. Dxf6 fxe6 25. Dxe6+ Df7 26. Hxg7+ og svartur gafst upp (Sion Castro-Rivera Kuzawka, Cordoba 1991).

17. ... bxc3 18. fxe5 -

Eftir 18. Bxb7 exf5 19. Bxa8 Rc4 stendur svartur til vinnings.

18. ... cxb2+

Ekki gengur 18. ... exf5? 19. g6 hxg6 20. Dxg6 Re6 21. Bxe6 Bf6 22. exf6 fxe6 23. Dxg7+ Dxg7 24. Hxg7+ Kh8 25. Hxb7 og hvítur hefur yfirburðastöðu.

Eftir 18. ... exd5 19. Bxc5 dxc5 20. exd5 cxb2+ 21. Kb1 Dd7 22. Hgf1 Hab8 23. c4 g6 24. Rh6+ Kg7 25. Dh4 á svartur ekki auðvelt um vik, þótt hann eigi manni meira.

19. Kb1 Rxe4?

Eftir þennan leik er erfitt að finna vörn fyrir svart. Besta vörnin virðist vera 19. ... Bxd5!?, t.d. 20. exd5 (20. Bxc5 dxc5 21. exd5 exf5 22. d6 Dd7 23. Hd3 De6 24. dxe7 Hfe8 25. Hh3 Dg6 26. Df3 Ha7; 20. Rxe7+ Dxe7 21. exd5 exd5 22. Hxd5 Re4 23. Hd3 dxe5; 20. exd6 Bxa2+ 21. Kxa2 Da5+ 22. Kxb2 Hfb8+ 23. Kc1 Rb3+ 24. cxb3 (24. Kb2 Rd2+ 25. Kc1 Hb1+ mát) 24. ... Dc3+ 25. Kb1 Hxb3+ 26. Ka2 Db2+ mát; 20. Rh6+ gxh6 21. gxh6+ Kh8 22. exd5 Re4 23. Bd4 Rc3+ 24. Kxb2 Hab8+ 25. Kc1 f6) 20. ... exf5 og það er vandséð, hvernig hvítur nær mátsókn í þessari stöðu.

20. g6 Rc3+ 21. Kxb2 Rxd1+ 22. Kc1! fxg6

23. Hxg6! -

Eftir 23. Bxe6+ Kh8 24. Hxg6 Rxe3 25. Rxe3 dxe5 sleppur svartur með skrekkinn.

23. ... Hxf5

Ekki gengur 23. - hxg6 24. Bxe6+ Hf7 25. Dxg6 Bf8 (26. - Haf8 27. Dxg7+ mát) 26. Rh6+ Kh8 27. Rxf7+ Kg8 28. Rg5+ Kh8 29. Dh7+ mát.

24. Bxe6+ Kh8

Eða 24. ... Kf8 25. Dxf5+ Bf6 (25. ... Ke8 26. Df7+ Kd8 27. Dg8+ Bf8 28. Dxf8+ mát) 26. Hxf6+ gxf6 27. Dxf6+ Ke8 28. Bg5 og við hótuninni 29. Dh8+ mát er ekkert að gera.

25. Bxf5 dxe5

Svartur er varnarlaus: 25. ... Bg5 26. Hxg5 g6 27. Dxd1 gxf5 28. exd6 og við hótuninni 29. Bd4+ er engin vörn, eða 25. ... Rxe3 26. Hxg7! Kxg7 27. Dxh7+ Kf8 28. Dh8+ Kf7 29. e6+ mát, eða 25. ... Bc8 26. He6! g6 27. Bxg6 Bf8 28. exd6 Db7 29. Bd4+ Kg8 30. He7! og svartur verður mát.

26. Dxh7+! Kxh7 27. Hh6++ Kg8 28. Be6+

og svartur gafst upp, því að hann verður mát, eftir 28. - Kf8 29. Hh8+.

Hannes að ná sér á strik í Svíþjóð

Eftir tap í tveimur fyrstu skákunum á Sigeman-mótinu í Svíþjóð hefur Hannes Hlífar Stefánsson náð að rétta aðeins úr kútnum. Í þriðju umferð gerði hann jafntefli við Tom Wedberg (2.540) og í þeirri fjórðu sigraði hann sænska alþjóðlega meistarann Emanuel Berg (2.514). Staðan á mótinu er þessi:

1.-3. Peter Heine Nielsen, Thomas Luther, Jonny Hector 2½ v.

4.-7. Nigel Short, Vladimir Epishin, Tom Wedberg, Emanuel Berg 2 v.

8.-10. Jan Timman, Hannes Stefánsson, Leif Erlend Johannessen 1½ v.

Tefldar verða níu umferðir. Mótinu lýkur 14. júní.

Daði Örn Jónsson Bragi Kristjánsson