Óli  Tynes
Óli Tynes
Ég fæ ekki betur séð, segir Óli Tynes, en að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé unnin af hlutleysi og fagmennsku. Það sem kemur mér verulega á óvart, er hvernig hún er túlkuð.

Í ÁRATUGA starfi fyrir þjóðina hefur Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, oftlega sýnt að hann er góðviljaður maður. Það kemur því ekki á óvart að hann skuli láta sér annt um fólkið, sem býr á Sólheimum, í Grímsnesi.

Ummæli hans vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar, byggja hinsvegar á misskilningi og vekja óróleika og ótta hjá þeim sem unna þessum stað. Ég verð að segja eins og er, að ég furða mig á því hvað Páll er hvassyrtur og stórorður í yfirlýsingum sínum.

Ég hef verið reglulegur gestur á Sólheimum, undanfarin þrjátíu ár, til þess að heimsækja mág minn og vin, Gísla Halldórsson, og kærustuna hans, hana Sirrý. Sigurlín Sigurgeirsdóttur. Ég hef því getað fylgst nokkuð vel með þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem þar hefur orðið. Og ég hef séð hvaða hlut Pétur Sveinbjarnarson hefur átt í þeirri uppbyggingu. Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, við tilhugsunina um að þetta upphlaup verði notað til þess að bola honum burt frá heimilinu.

Meðan Ríkisendurskoðun var að gera úttekt á starfsemi Sólheima óskuðum við eiginkona mín, Vilborg Halldórsdóttir, eftir því að fá að koma á fund með þeim sem úttektinni stýrðu. Okkur var ljúflega tekið og á þeim fundi var öllum okkar spurningum greiðlega svarað.

Við komum af þeim fundi ánægð með að þetta væri fólk sem ynni af heilindum, með velferð íbúanna að leiðarljósi. Skýrslan sem nú liggur fyrir, staðfestir þá skoðun. Ég fæ ekki betur séð en að hún sé unnin af hlutleysi og fagmennsku. Það sem kemur mér verulega á óvart er hvernig hún er túlkuð.

Mér finnst mikilvægast í skýrslunni að það vantar enga peninga. Öll framlög hafa skilað sér og það er hægt að gera grein fyrir hverri krónu. Ágreiningurinn er um hvernig þessum peningum hefur verið varið. Að kalla skýrsluna áfellisdóm yfir stjórn Sólheima er ansi langt seilst. Í skýrslunni segir að fjármunum hafi til dæmis verið varið til mun umfangsmeiri atvinnurekstrar og uppbyggingar á Sólheimum, en ríkið hafi fallist á að greiða, samkvæmt þjónustusamningi. Sem dæmi er nefnt að tíu milljónum króna hafi verið varið til þess að innrétta samveru og félagsmiðstöð, sem jafnframt sé kaffihús fyrir gesti staðarins.

Það er alveg rétt að í stað þess að rífa gamalt gróðurhús, með glerveggjum og þaki, var því breytt í samveru og félagsmiðstöð og kaffihús.

Ég veit ekkert hvaðan þeir peningar voru teknir. Ég veit hinsvegar að þetta er afskaplega sjarmerandi kaffihús. Er það of mikið?

Það er örugglega rétt að á Sólheimum hefur verið hrundið af stað margvíslegri starfsemi sem ríkið hefur ekki reiknað með að þar yrði rekin.

Heimilisfólkið vinnur til dæmis við verslun, lífræna ræktun, búskap, leiklist, listhönnun, tónlist, og ferðaþjónustu. Og er þá fátt eitt talið.

Stefna stjórnar Sólheima er að þar sé rekið lítið þorp, þar sem sé að finna sem flest af því sem finnst í öðrum litlum þorpum, á landinu. Hvort sem það er kirkja eða íþróttahús, kaffihús eða leikhús. Og að íbúarnir taki þátt í þessu öllu. Umgangist gesti og gangandi. Er það slæmt?

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er tekið fram að íbúar Sólheima hafi nóg að bíta og brenna og séu ánægðir. Er það ekki það sem skiptir máli? Einsog ég sagði áðan efast ég ekki um að bæði Ríkisendurskoðun og félagsmálaráðherra miði við og hugsi, fyrst og fremst, um velferð íbúanna.

Ég er kannski ekki sammála í öllum atriðum, en ég efast ekki um velvildina. Hinsvegar fannst mér afskaplega dapurlegt, föstudaginn 31.

maí, að heyra formann Landssamtaka Þroskahjálpar fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar og fagna viðbrögðum félagsmálaráðuneytisins. Hverju í ósköpunum var maðurinn að fagna?

Fyrir nokkrum árum skrifaði Jónína Michaelsdóttir frábæra bók um baráttu Sesselju Sigmundsdóttur, sem stofnaði Sólheima. Bókin heitir "Mér leggst eitthvað til" og ég ráðlegg öllum, sem hafa áhuga á þessum málum, að lesa hana. Sesselja mátti þola ótrúlegar árásir, svívirðingar og fordóma. Enda langt á undan sinni samtíð. Þó smátt sé, í þeim árásum sem hún varð fyrir, situr í mér að henni var legið á hálsi fyrir að gefa börnunum of mikið grænmeti! Garðurinn hennar Sesselju er ennþá ræktaður, á Sólheimum. Í margvíslegum skilningi. Hann er kannski ekki ræktaður alveg samkvæmt opinberum stöðlum, en hann þrífst vel. Það hef ég séð í þrjátíu ára samskiptum mínum við hina glöðu garðyrkjumenn.

Við okkar ágæta félagsmálaráðherra vil ég segja; "Kæri Páll, ekki fara að reka Sesselju núna."

Höfundur er fréttamaður.