Falun Gong-iðkandi, í haldi lögreglu í Njarðvíkurskóla, kallast á við Morgunblaðið í gegnum glugga í gær.
Falun Gong-iðkandi, í haldi lögreglu í Njarðvíkurskóla, kallast á við Morgunblaðið í gegnum glugga í gær.
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra ákváðu seint í gærkvöldi að heimila öllum þeim Falun Gong-meðlimum, sem voru í haldi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Njarðvíkurskóla í gær,...

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra ákváðu seint í gærkvöldi að heimila öllum þeim Falun Gong-meðlimum, sem voru í haldi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Njarðvíkurskóla í gær, landgöngu á Íslandi. Var þessi ákvörðun tekin að loknum fundi samráðsnefndar ráðuneytanna þriggja í gærkvöldi.

Falun Gong og lögregla funduðu í gær

Morgunblaðinu barst eftirfarandi fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu skömmu eftir miðnætti:

,,Samráðsnefnd þriggja ráðuneyta - forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis - hefur í kvöld þingað um málefni meðlima Falun Gong-hreyfingarinnar sem nú dveljast á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni hans. Jafnframt hafa starfsmenn lögreglustjóraembættisins í Reykjavík átt fundi með talsmönnum Falun Gong sem staddir eru í Reykjavík og gefið nefndinni skýrslu um niðurstöðu þeirra.

Í ljósi viðræðna hefur verið samþykkt að lögregluyfirvöld taki við yfirlýsingu framangreindra talsmanna Falun Gong-félaga þar sem þeir heita því að fara í hvívetna að fyrirmælum lögreglu meðan á heimsókn forseta Kína hingað til lands stendur, virða öryggissvæði og koma saman á sérstökum svæðum samþykktum af lögreglu.

Jafnframt hefur verið ákveðið að veita landgöngu öllum þeim Falun Gong-meðlimum sem dvalið hafa í dag í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Njarðvíkurskóla að því tilskildu að þeir undirriti samsvarandi yfirlýsingu og að framan greinir.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að takmarka sem kostur er komu fleiri meðlima Falun Gong á næstu dögum," segir í tilkynningunni.

Um 70 Falun Gong- félagar voru í haldi

Um 70 iðkendum Falun Gong, sem komu hingað til lands í gær, var synjað um landgöngu. 26 þeirra komu með flugvélum frá Bandaríkjunum í gærmorgun og voru fluttir í Njarðvíkurskóla þar sem þeir voru í haldi lögreglu. Á fimmta tug félaga í Falun Gong, sem komu frá Kaupmannahöfn um hádegi, og nokkrum með síðdegisvélum frá Evrópu, var einnig synjað um landvist. Fólkið neitaði að afhenda farseðla sína og snúa aftur til baka með síðdegisvélum frá landinu. Var gert ráð fyrir því að hóparnir dveldu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Njarðvíkurskóla í nótt. Fólkið er af ýmsu þjóðerni en flestir af asískum uppruna. Skv. upplýsingum lögreglu var fólkið friðsamt og samvinnufúst.