Eiður Guðnason
Eiður Guðnason
Ég ítreka að lokum mikilvægi þess að segja börnum satt, segir Eiður Guðnason, og gefa þeim ekki brenglaða mynd af veruleikanum.

UM LANGT skeið hefur undirritaður haft áhuga á hvölum og sögu hvalveiða. Um nýliðna páska skoðaði hann svokallaðan "Hvalavef" Ríkisútvarpsins á Netinu en þar segir af hvölum og m.a. er fullyrt að háhyrningar hafi aldrei ráðist á menn. Þá rifjaðist upp fyrir honum að hafa lesið í bók Erichs Hoyts, "Orca, the Whale Called Killer", frásögn af því að háhyrningur hafi ráðist á mann. Sent var tölvubréf til umsjónarmanna Hvalavefjar Ríkisútvarpsins og bent á þetta. Þegar ekki barst svar við tölvubréfinu skrifaði undirritaður greinarkorn í Morgunblaðið, birti tölvubréfið og minnti á mikilvægi þess að segja börnum sannleikann en Hvalavefurinn er ekki síst ætlaður börnum.

Nú átti undirritaður sannast sagna von á því að einhver af ábyrgðarmönnum Hvalavefjar eða útvarpsstjóri mundi beita sér fyrir því að þessi missögn, sem er á ábyrgð Ríkisútvarpsins, yrði leiðrétt, eða grein minni svarað. Hvorugt hefur gerst.

Hinn 4. júní birti Morgunblaðið hins vegar grein eftir þær Jórunni Sörensen og Eddu Bjarnadóttur, sem þær nefna "Sendiherrann og sannleikur". Vandséð er hvern tilgang þær sjá í að blanda starfsheiti mínu í utanríkisþjónustunni í þetta mál, en skýrt var fram tekið með grein minni í Morgunblaðinu að höfundur væri "áhugamaður um hvali". Starfsheiti mitt kemur þessu máli ekkert við.

Í grein þeirra Jórunnar og Eddu er margt sem ástæða væri til að gera athugasemd við en ég hef ekki nennu til að elta ólar við nema tvennt það fáránlegasta:

Þær segja: "Eiður virðist hafa fest sig í sögusögnum og lítur á þær sem staðfestar rannsóknaniðurstöður." "Sögusagnirnar" eru frásögn Erichs Hoyts og staðfesting læknis sem frá er greint á bls. 87 í áðurnefndri bók um að háhyrningur hafi ráðist á mann. Maðurinn hét Hans Kretschmer, 18 ára, og atburðurinn átti sér stað 9. september 1972 um 100 fet undan landi við Point Sur í grennd við Monterey í Kaliforníu. Sauma þurfti 100 spor til að loka sárum hans og Charles R. Snorf skurðlæknir sem gerði að sárunum staðfesti að bilið milli tannafaranna væri hið sama og milli tannanna í munni háhyrnings. Ef menn vilja kalla þetta sögusagnir, þá er erfitt að halda uppi skynsamlegum umræðum um málið.

Síðan segja þær: "Það er ekki verið að segja börnum ósatt á nýjum Hvalavef Ríkisútvarpsins. Sannleikurinn er ekki bundinn við skoðanir Eiðs Guðnasonar."

Skoðanir mínar koma þessu máli ekkert við. Í umræddri grein vitnaði ég í frásögn Erichs Hoyts um að háhyrningur hefði ráðist á mann. Á hvalavef Ríkisútvarpsins segir að háhyrningar hafi aldrei ráðist á menn. Þetta er kjarni málsins. Skoðanir mínar eru alveg utan við þetta mál. Það fjallar ekki um skoðanir, heldur staðreyndir. Um staðreyndir á ekki að þurfa að deila. Ég vakti athygli á þessu ranghermi á Hvalavefnum. Ég hef engar forsendur til að rengja frásögn Erichs Hoyts, sem lengi hefur rannsakað háhyrninga. Ég held að Jórunn og Edda hafi það ekki heldur.

Ég ítreka að lokum mikilvægi þess að segja börnum satt og gefa þeim ekki brenglaða mynd af veruleikanum og bíð eftir því að umrætt ranghermi á Hvalavef Ríkisútvarpsins verði leiðrétt. Börn og aðrir sem skoða þennan vef eiga heimtingu á því að rétt sé farið með staðreyndir. Sannleikurinn er alltaf sagna bestur, - líka þegar hann er annar en við kannski kysum.

Höfundur er sendiherra og áhugamaður um hvali. eidur@shaw.ca