Eiður Arnarson
Eiður Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÆGT er með auðveldum hætti að nálgast á Netinu lögin á Eldhúspartí fm957 , fyrstu íslensku geislaplötunni sem framleidd var með sérstakri læsingu til að koma í veg fyrir að hægt væri að spila hana í tölvum og þar með afrita. Skífan ákvað að frá og með...

HÆGT er með auðveldum hætti að nálgast á Netinu lögin á Eldhúspartí fm957, fyrstu íslensku geislaplötunni sem framleidd var með sérstakri læsingu til að koma í veg fyrir að hægt væri að spila hana í tölvum og þar með afrita. Skífan ákvað að frá og með 1. maí yrðu allar geislaplötur, er fyrirtækið framleiddi, læstar með umræddri afritunarvörn en svo virðist sem mönnum hafi tekist það sem ekki átti að vera hægt, að brjóta vörnina á bak aftur, með þar til gerðum forritum og venjulegum tússpenna, spila plöturnar í tölvum og þar með taka afrit af þeim.

Hið sama hefur átt sér stað erlendis, þar sem mönnum hefur tekist, með fremur einföldum klækjum, að afrita efni af plötum sem áttu að vera harðlokaðar og læstar.

Kemur ekki á óvart

Eiður Arnarson, útgáfustjóri hjá Skífunni, segist vita til þess að mönnum hafi tekist að smeygja sér framhjá lásnum á Eldhúspartí-plötunni og þar með náð að taka af henni afrit. "Þetta kemur okkur svo sem ekkert mjög á óvart því við vissum vel að þessi tækni væri ekki, frekar en önnur tækni, fullkomin," segir Eiður. "Ég átti þó kannski von á að það hefði þurft tæknilegri brögð til. Tússpennabragðið er nefnilega langt frá því að vera eins öruggt og það var fyrir svona hálfu ári þegar greinileg var sú rönd á geislaplötunni sem strika þurfti yfir. Á þessari nýjustu kynslóð læstra geislaplatna er hins vegar alveg ógreinanlegt það svæði sem þarf að einangra og því orðin miklu meiri áhætta í því fólgin að vera að tússa á plötuna hér og þar því sé það gert á rangan stað verður platan hreinlega ónothæf."

Eiður segir menn frá upphafi hafa verið meðvitaða um að þetta hafi einungis verið fyrsta skref af mörgum í baráttunni gegn ólöglegri afritun. "Það mikilvægasta af öllu var að með þessum aðgerðum vildum við koma á framfæri sjónarmiðum rétthafa, að ítreka að allt annað en afritun til einkanota er klár þjófnaður. Við erum að vonast til að öll umræðan sem orðið hefur í kringum læsta diska veki fólk til umhugsunar um hvað það er að gera er það stendur í að fjölfalda tónlist. Ég held t.d. að það sé að vaxa úr grasi kynslóð hér á landi sem hefur ekki hugmynd um að það sé eitthvað rangt við að afrita tónlist."

Eiður segist gera ráð fyrir því að erlendir framleiðendur geislaplatnanna sem Skífan gefur út vinni hörðum höndum við að þróa áfram leiðir til að læsa geislaplötum enn kirfilegar: "Þeir eru meðvitaðir um þennan einfalda galla á núverandi diskum, sem kannski engin augljós lausn er á."

Skaðinn ógreinilegur

Eiður segir söluna á umræddri plötu hafa staðið undir væntingum en það sé þó afar erfitt að meta hversu illa það hefur komið niður á sölunni að hún sé aðgengileg á Netinu og að hægt sé eftir allt saman að afrita hana. "Það eina sem hægt er að greina er að eintökin verði fleiri í umferð en ella. En hvort það eru eintök sem hefðu annars selst er erfitt að fullyrða um, sérstaklega í ljósi þess að platan fór ekki á Netið fyrr en mánuði eftir að hún kom í búðir og plötur seljast mjög hratt á Íslandi." Hann segist þó greina eina fremur skýra vísbendingu um að læsing plötunnar hafi orðið til þess að hún seljist meira en ella en það sé hagstæður samanburðurinn við tiltölulega dræma sölu á nýjustu plötu hins geysivinsæla Eminem. "Sú plata er ekki læst og var fáanleg í heild sinni á Netinu nokkru áður en hún kom í búðir. Miðað við vinsældir Eminem ætti sú plata í raun að seljast miklu meira og hefði eflaust gert það ef hún væri læst og ekki komin á Netið."

Sú nýbreytni fylgir hinum læstu geislaplötum sem Skífan gefur út að eigendur þeirra eiga að geta sótt efni þeirra á heimasíðu Skífunnar með því að slá inn sértæka kóða sem fylgja með hverju og einu eintaki. Nokkuð hefur þó borið á því að þessi þjónusta hafi brugðist, þ.e. að aðgangur sé ekki veittur að efni plötunnar þrátt fyrir að réttur kóði sé sleginn inn. Eiður segist þekkja þennan vanda og harmar að hann skuli hafa komið upp. Hann fullyrðir þó að vandinn, sem megi rekja til framleiðenda í Austurríki, sé úr sögunni og að allir kóðarnir eigi nú að virka.

Hægt að spila læsta diska í tölvum innan árs

Eiður segir gallana á læstu diskunum sem komið hafa í ljós ekki verða til þess að Skífan dragi í land og hætti við að læsa öllum sínum diskum. "Við höldum þessu að sjálfsögðu áfram og með næstu útgáfu, sem verður safnplatan Svona er sumarið 2002, munum við t.d. ganga skrefinu lengra í að þjónusta þá sem kaupa plötuna með því að bjóða þeim upp á ein 5 aukalög sem verður að finna á vefsvæðinu sem þeir fá jafnframt aðgang að. Við teljum þannig að þeir sem verða sér úti um tónlist með löglegum hætti eigi allt gott skilið og viljum gera enn betur við þá.

Innan árs sjáum við síðan fram á að búið verði að þróa þá tækni sem gerir eigendum allra læstra diska, þeirra sem þegar eru komnir út og annarra, að spila þá í tölvum sínum, án þess þó að hægt sé að afrita þá."

skarpi@mbl.is