STJÓRN Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. hefur látið vinna tillögur um uppbyggingu stöðvarinnar til ársins 2025, sem kynntar voru í gær. Kostnaður við uppbygginguna nemur á bilinu 25 til 30 milljörðum króna en í henni felst m.a.

STJÓRN Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. hefur látið vinna tillögur um uppbyggingu stöðvarinnar til ársins 2025, sem kynntar voru í gær. Kostnaður við uppbygginguna nemur á bilinu 25 til 30 milljörðum króna en í henni felst m.a. stækkun á innritunarsvæði, aukin afköst í töskumóttöku, fjölgun flughlaða og bílastæða. Gert er ráð fyrir að fjöldi brottfararfarþega á klukkustund geti aukist úr um 1.250 í 3.200 og komufarþega úr 1.300 í 3.150.

Breska fyrirtækið BAA, sem sér um þróun og rekstur flugvalla, var fengið til að segja fyrir um fjölda farþega sem ætla má að fari um stöðina allt til ársins 2025, meta núverandi afkastagetu og móta tillögur að framtíðaruppbyggingu.

Fulltrúar stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem kynntu tillögurnar segja að ljóst hafi verið á miðju síðasta ári að stöðin myndi ekki uppfylla margþætt hlutverk sitt nema með meiri uppbyggingu, áætlun hafi ekki legið fyrir og því hafi verið ráðist í verkið.

Stjórnin íhugar að gera tillögurnar að sínum og segir Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri að næst þurfi að huga að forgangsröðun. Segir hann ljóst að með fyrstu verkefnum verði að auka afköst í töskumóttöku og bæta aðstöðu farþega með stækkun á sjálfri stöðinni. Einnig hljóti fljótlega að verða ráðist í stækkun tengibyggingar milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar og fjölgun bílastæða.