Randi og Magnús Gíslason, ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, fluttu norræn söngverk, aríur og dúetta úr óperum eftir Tsjajkovskí og Verdi. Sunnudaginn 9. júní.

SÍÐUSTU tónleikarnir í Salnum fyrir sumarfrí voru samsöngstónleikar Randi og Magnúsar Gíslasonar, er þau héldu sl. sunnudagskvöld. Þau starfa bæði í Danmörku sem óperusöngvarar og hafa sungið í ýmsum uppfærslum á vegum "Konunglega" í Kaupmannahöfn, við norður-jósku óperuna og óperuna í Hamborg.

Tónleikarnir hófust á þremur íslenskum lögum, Í fjarlægð eftir Karl O. Runólfsson, Heimi og Hamraborginni eftir Sigvalda Kaldalóns, sem Magnús söng með heldur litlausum hætti. Randi Gíslason söng þrjú lög eftir Sibelius og eins og í lögunum sem Magnús söng eru Den första kyssen, Säv, säv, susa og Flickan kom ifrån sin älsklings möte lög sem ótal söngsnillingar hafa sungið, svo að þar búa þau við ójafnan samanburð. Þrátt fyrir þetta var margt fallega gert hjá Randi, sem hefur góða og hljómmikla rödd.

Í næstu fimm verkefnum skiptu þau með sér sérlega fallegum lögum eftir Carl Nielsen, en þrátt fyrir að lögin séu elskuleg og falleg eru þau nátengd dönskum alþýðusönglögum og sem slík ekki mikilhæf viðfangsefni raddlega. Það var nokkur þokki yfir söng þeirra en fallegasta lagið var Underlige aftenlufte, sem Randi söng mjög fallega. Saman sungu þau dúett úr óperunni Saul og David eftir Nielsen. Í þessum dúett syngur Davið til Mikal, sem er dóttir Saul. Þarna kveður við annan tón, þ.e. nútímalegra tónmál, en auk þess að gera nokkrar kröfur til söngvaranna var píanóleikurinn á köflum nokkuð snúinn, sem Anna Guðný leysti vel af hendi, þótt flutningurinn í heild væri nokkuð órólegur.

Í þessum dúett sýndu söngvararnir á sér nýja hlið, sem svo kom enn betur fram í viðfangsefnunum eftir hlé, að þeirra svið er auðheyrilega óperur. Magnús söng Kuda, kuda, aríu Lenskýs úr Evgení Ónegin, er hann syngur fyrir einvígið við Ónegin. Þessa aríu söng Magnús ágætlega og píanóleikur Önnu Guðnýjar var einstaklega fallega mótaður. Hin ástríðufulla bréfaaría, úr sömu óperu, var prýðilega flutt, en í söng Randi vantaði þau tilfinningatilþrif, sem þessi sérstæða aría býður upp á.

Síðustu viðfangsefnin voru aríur eftir Verdi, fyrst O figli, o figli, hin örvæntingarfulla aría Macduffs, sem Magnús söng með töluverðum tilþrifum, og Vieni t'affretta, aría Lafði Macbeth, er Randi söng vel, þótt nokkuð vantaði á grimmd konunnar, sem manaði mann sinn til illverka. Magnús söng síðan aríu Ótellós, Dio mi potevi, og saman sungu þau dúettinn Gia nella notte úr 1. þætti Ótelló og gerðu það að mörgu leyti vel.

Magnús hefur fallega tenórrödd en hættir til að missa "stuðninginn" þegar hann syngur veikt og fyrir bragðið verður söngur hans á köflum litlaus, eins og t.d. í íslensku lögunum og söngvunum eftir Carl Nielsen. Randi Gíslason hefur töluverða rödd, sem þó fylgir henni ekki til sterkrar túlkunar, svo að söngur hennar í heild var til meðalhófsins. Anna Guðný átti nokkur mjög fallega mótuð augnablik, eins og t.d. í aríunni Kuda, kuda eftir Tsjajkovskí. Í heild sýndu þessir tónleikar að óperan er viðfangsefni Magnúsar og Randi en það vantaði nokkuð á söng þeirra í léttari viðfangsefnunum, er gerði tónleikana í heild nokkuð mislita og ójafna að gæðum.

Jón Ásgeirsson