Hungur og fátækt eru alvarlegasta vandamál samtímans og hægagangur í lausn þeirra er blettur á samfélagi þjóðanna. Um þessar mundir stendur matvælaráðstefna Sameinuðu þjóðanna yfir í Róm.

Hungur og fátækt eru alvarlegasta vandamál samtímans og hægagangur í lausn þeirra er blettur á samfélagi þjóðanna. Um þessar mundir stendur matvælaráðstefna Sameinuðu þjóðanna yfir í Róm. Við setningu hennar á mánudag sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, að þjóðir heims mættu engan tíma missa ætluðu þær að standa við að minnka fjölda þeirra, sem líða hungur, um helming fyrir árið 2015. "Meira en 800 milljónir manna, þar af 300 milljónir barna, þjást dag hvern af hungri og þeim sjúkdómum, sem vannæringin veldur," sagði Annan. "Áætlað er að allt að 24.000 manns deyi daglega af þessum sökum ... Fátt er meiri svívirða við mannlega reisn en hungur. Í þessum heimi allsnægtanna ætti okkur að vera í lófa lagið að útrýma því og við skulum ekki láta þá skömm henda okkur að sitja auðum höndum."

Spjótin hafa beinst að vestrænum ríkjum á ráðstefnunni. Annan skoraði á vel stæð ríki að hætta að niðurgreiða landbúnað og sagði að slík vernd kæmi í veg fyrir að fátæk ríki gætu keppt við þau á frjálsum markaði. "Hver er tilgangurinn með því að hjálpa mjólkurbúum í þróunarríki og selja síðan niðurgreitt mjólkurduft inn í hagkerfi þeirra þannig að bændurnir eigi erfitt með að halda áfram framleiðslu?" sagði Annan við blaðamenn.

Jacques Diouf, yfirmaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar, sagði á ráðstefnunni að ríku þjóðirnar styrktu sinn landbúnað með 27 milljörðum króna árlega, en það jafngilti tæplega 1,1 milljóna króna styrk við hvern bónda. Á hinn bóginn væri aðstoð ríku þjóðanna við þróunarlöndin um 720 milljarðar króna, sem gerði 540 krónur á hvern bónda.

Það hefur vakið mikla eftirtekt á ráðstefnunni að leiðtogar Spánar og Ítalíu, sem er gestgjafi, sækja hana einir vestrænna leiðtoga. Þetta hefur sætt harðri gagnrýni á ráðstefnunni og hefur verið haft eftir embættismönnum hjá Sameinuðu þjóðunum að það sýni að í vestrænum ríkjum standi mönnum á sama um hungursneyðina í heiminum.

Bretar, sem létu nægja að senda embættismenn á ráðstefnuna, hafa svarað þessari gagnrýni fullum hálsi og sagði Clare Short, ráðherra þróunarmála, að ráðstefnan sé tímasóun. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sé gamaldags stofnun, sem þarfnist umbóta.

Vissulega má gagnrýna stofnunina, en árangur stofnunar á borð við Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þeirra mun ávallt velta á því hvað aðildarríkin eru tilbúin að leggja af mörkum. Á matvælaráðstefnu SÞ 1996 var það markmið sett að fækka hungruðum í heiminum um helming fyrir árið 2015, eða úr 840 milljónum í 400 milljónir. Nú eru liðin sex ár og er talið að hungraðir í heiminum séu 815 milljónir. Það muni taka 60 ár að ná markinu ef fram heldur sem horfir. Það er auðvelt að gefa fögur fyrirheit, en orðin verða innantóm ef ekkert er á bak við þau.