LENGING skólaársins í grunnskólunum er eðlileg og sjálfsögð, finnst Víkverja.

LENGING skólaársins í grunnskólunum er eðlileg og sjálfsögð, finnst Víkverja. Íslenzk börn og unglingar mættu gjarnan nota tímann betur, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, til þess að á Íslandi sé hægt að útskrifa 18 ára stúdenta eins og í flestum nágrannalöndum okkar. Víkverji heyrði í útvarpinu umfjöllun um lengingu skólaársins og þar kom fram að óánægja væri með breytinguna hjá öllum; foreldrum, nemendum og kennurum. Víkverja finnst út af fyrir sig ekkert skrýtið að kennarar séu óhressir með að sumarfríið þeirra hafi stytzt, því að sennilega hafa þeir ekki fengið þær kjarabætur á móti, sem eðlilegt hefði verið. Honum finnst heldur ekki óeðlilegt að nemendurnir kvarti - þegar Víkverji var á grunnskólaaldri fannst honum oft skemmtilegra að vera úti að leika sér en að vera í skólanum. En eftir á sér hann, eins og flestir sem komast til vits og ára, að tímanum var vel og skynsamlega varið í skólanum. En Víkverja finnst stórundarlegt ef foreldrar eru óánægðir með lengingu skólaársins. Hann hefði haldið að foreldrum þætti jákvætt að börnin nýttu árið betur til náms og jafnframt þarf þá ekki að finna þeim verkefni í jafnlangan tíma á sumrin, því að það er staðreynd að fæstir foreldrar geta núorðið tekið sér frí með börnunum allt sumarið.

Í UMFJÖLLUN útvarpsins var rætt við skólastjóra, sem sagði hálfafsakandi að skólinn hefði reynt að hjálpa nemendum að aðlagast breytingunni með því að auka mjög útivist, þannig að það væri nú ekki þannig að blessuð börnin héngju yfir bókunum allan þann tíma, sem skólaárið hefði lengzt. Víkverja er spurn: Var ekki meiningin að börnin "héngju yfir bókunum" eða væru a.m.k. að læra eitthvað þessar vikur, sem búið er að lengja skólatímann? Til hvers var verið að lengja skólaárið ef niðurstaðan er bara sú að krakkarnir eru í útilegu eða göngutúr, sem þau hefðu líklega farið í hvort sem var? Víkverji vorkennir æsku landsins ekkert að vera í skólanum fram í júní og minnir á að þetta hafa börn annars staðar í Evrópu mátt þola lengi. Menn segja sem svo að sumrið á Íslandi sé svo stutt að fólk eigi að fá að njóta þess, en er ekki eins hægt að segja að það hljóti að vera minni áþján fyrir íslenzk börn að sitja innandyra í íslenzku sumarveðri en fyrir t.d. spænsk börn að missa af alvörusumrinu þar suðurfrá?

LAUGARDALSLAUGIN var lokuð í nokkra daga í síðustu viku vegna málningarvinnu og annars viðhalds og veitti ekkert af. Nágranna Víkverja, honum Velvakanda, höfðu m.a. borizt bréf undanfarnar vikur, þar sem haft var á orði að viðhalds væri þörf í Laugardalnum. Nú líta sundlaugarmannvirkin betur út, en einn galli er þó á gjöf Njarðar. Við laugarbakkana hafa þrep verið máluð með málningu, sem sandur virðist hafa verið settur í til að gera þau stamari og hindra að fólk renni til. Það hefur tekizt með ágætum, en kornin í málningunni eru svo hvöss, að Víkverji veit til að bæði börn og fullorðnir hafi meitt sig á þeim. Þarna hefði mátt fara hægar í sakirnar.