SENEGALAR tryggðu sér í gær sæti í 16-liða úrslitum með því að gera 3:3 jafntefli við Úrúgvæ í mjög kaflaskiptum en fjörugum leik. Þetta er í fyrsta skipti sem Senegalar taka þátt í heimsmeistaramóti og kemur árangur þeirra töluvert á óvart, en liðið hefur spilað frábærlega á köflum.

Í fyrri hálfleik í leiknum gegn Úrúgvæ í gær sýndu "senegölsku ljónin" hvers þau eru megnug og skoruðu þrjú mörk án þess að Úrúgvæjar næðu að svara fyrir sig. Khalilou Fadiga gerði fyrsta markið úr vítaspyrnu og Papa Bouba Diop bætti við mörkum úr tveimur af leiftursóknum Senegals.

Úrúgvæjar skiptu tveimur sóknarmönnum inn á í upphafi síðari hálfleiks, þeim Richard Morales og Diego Forlan, og við það snerist leikurinn við. Morales og Forlan skoruðu báðir og Alvaro Recoba jafnaði svo leikinn fyrir Úrúgvæja þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Úrúgvæjar fengu svo gullið tækifæri til að vinna leikinn en tókst það ekki, en sigur hefði fleytt liðinu áfram í keppninni.

Jafnteflið var hins vegar dýrkeypt fyrir Senegala því sjö leikmenn liðsins fengu gult spjald, þ.ám. markaskorarinn Fadiga og verður hann í leikbanni í 16-liða úrslitum. Þar mæta Senegalar sigurvegurunum í F-riðli, Englendingum, Argentínumönnum eða Svíum.

"Þetta er sögulegur dagur fyrir Senegal og ég er mjög ánægður. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en þurftum að hafa fyrir hlutunum í þeim síðari. Jafnteflið var sigur fyrir okkur og vonandi verða leikmennirnir hugrakkir og ákafir í 16-liða úrslitum," sagði Bruno Metsu, þjálfari Senegals.

Diego Forlan, einn markaskorara Úrúgvæs, var að vonum vonsvikinn í leikslok. "Eitt mark skipti sköpum og við hefðum átt að skora það undir lok leiksins. Liðið lagði sig allt fram í síðari hálfleik og við höfðum tækifæri til að breyta ímynd landsliðsins en það tókst ekki," sagði Forlan.

El Hadji Diouf, framherji Senegals, var hæstánægður í leikslok og bjartsýnn á framhaldið. "Við munum spila sóknarknattspyrnu áfram og ég hef trú á því að við förum langt í keppninni," sagði sóknarmaðurinn snjalli.