Damien Duff lagði upp annað mark Íra og skoraði það þriðja gegn Sádi-Arabíu í gær og tryggði þar með Írum sæti í 16-liða úrslitum. Hér fagnar Duff ásamt Robbie Keane, sem kom írska liðinu á bragðið í leiknum.
Damien Duff lagði upp annað mark Íra og skoraði það þriðja gegn Sádi-Arabíu í gær og tryggði þar með Írum sæti í 16-liða úrslitum. Hér fagnar Duff ásamt Robbie Keane, sem kom írska liðinu á bragðið í leiknum.
Írar fylgdu Þjóðverjum upp úr E-riðli og í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær þegar þeir unnu Sádi-Arabíu 3:0.

Írar fylgdu Þjóðverjum upp úr E-riðli og í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær þegar þeir unnu Sádi-Arabíu 3:0. Þeir komu þar með fjölmörgum á óvart sem bjuggust við að liðið yrði vængbrotið á mótinu án Roys Keanes sem var sendur heim frá Japan fyrir að gagnrýna undirbúning liðsins fyrir mótið.

Fyrir leikina í E-riðli í gær þurftu Írar að leggja Sádi-Araba með tveggja marka mun til þess að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitum. Þeir blésu því strax til sóknar og ekki liðu nema sjö mínútur þar til Robbie Keane hafði komið þeim yfir. Sádar börðust af hörku í leiknum og fengu nokkur góð færi en það var Írinn Gary Breen sem skoraði annað mark leiksins á 61. mínútu og Damien Duff bætti svo við því þriðja skömmu fyrir leikslok. Þetta var í fyrsta skipti sem Írar skora fleiri en eitt mark í leik á heimsmeistaramóti.

"Við vorum taugaveiklaðir í fyrri hálfleik og höfum líklega ekki spilað verr í mótinu en þá. Við jöfnuðum okkur hins vegar í þeim síðari og strákarnir stóðu sig frábærlega. Við erum stöðugt að berjast gegn þeim sem efast um okkur en við stöndum okkur vel í þeirri baráttu. Liðið sem mætir okkur í næsta leik á sunnudaginn kvíðir því eflaust en ég hlakka hins vegar til leiksins," sagði Mick McCarthy sigurreifur á blaðamannafundi eftir leikinn.

Þjálfari Sádi-Arabíu, Nasser al Johar, var hins vegar fullur iðrunar eftir leikinn enda vann lið hans ekki leik á mótinu og fékk á sig tólf mörk án þess að skora eitt einasta. "Við klúðruðum fjölmörgum færum í fyrri hálfleik og það réð úrslitum leiksins. Mig langar að biðja alla Sádi-Araba afsökunar á gengi liðsins," sagði al Johar.