NÝLIÐAR Hauka og Leiftur/Dalvík áttu góðu gengi að fagna í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Haukar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Stjörnunni í Garðabæ, 4:0, og norðanmenn gerðu góða ferð í Breiðholtið þar sem þeir lögðu ÍR-inga, 3:0. Í Mosfellsbæ skildu Afturelding og Þróttur jöfn, 0:0, og sömu úrslit urðu á Höfn í leik Sindra og Víkings.

Haukar úr Hafnarfirði áttu ekki í neinum vandræðum með andlaust lið Stjörnunnar á Stjörnuvelli. Haukarnir sigruðu 4:0 og með sigrinum skutust þeir upp í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Stjarnan þokaðist niður í 6. sæti, hefur 6 stig að loknum 5 leikjum. Þrátt fyrir stórtap voru það heimamenn í Stjörnunni sem byrjuðu leikinn betur. Strax á 2. mínútu skallaði Ragnar Árnason knöttinn rétt framhjá marki Haukanna eftir hornspyrnu og á 11. mínútu var Ólafur Páll Snorrason einn á móti Jörundi Kristinssyni, markverði Haukanna, sem hafði betur og varði skot Ólafs. Þvert gegn gangi leiksins var það hinn eldfljóti Jón Gunnar Gunnarsson sem skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu og eftir það var líkt og nýtt Haukalið væri á vellinum. Sjálfstraust leikmanna jókst til mikilla muna og Birgir Rafn Birgisson skoraði tvívegis á innan við mínútu eftir ótrúlegan klaufaskap í vörn Stjörnunnar. Stjörnumönnum var eðlilega brugðið að fara inn í leikhléi með þrjú mörk á bakinu en þeir komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og sýndu á köflum ágætan leik. Allt kom þó fyrir ekki og Haukamenn innsigluðu sigur sinn á 66. mínútu með marki frá Goran Lukic eftir góðan undirbúning frá Sævari Eyjólfssyni. Leikur Stjörnunnar var langt frá því að vera sannfærandi og var líkt og sigurinn á Þrótti í síðustu umferð hafi lagt þeim í brjóst meiri sigurvissu en hollt er að koma með í leik sem þennan. Þótt varnarlínan hafi síður en svo verið voldug þá voru Kristinn H. Guðbrandsson og Ragnar Árnason engu að síður skástir í liði þeirra. Eins og fyrr kom mesta ógnunin í liði Hauka frá Jóni Gunnari Gunnarssyni en auk hans áttu þeir Sævar Eyjólfsson, Goran Lukic og Birgir Rafn Birgisson góðan leik í sterku Haukaliði.

Maður leiksins : Jón Gunnar Gunnarsson, Haukum.

Sanngjarnt í Mosfellsbæ

Afturelding og Þróttur skildu með skiptan hlut í markalausum, tilþrifalitlum og tíðindalitlum leik að Varmá. Stigið nægir Aftureldingu til þess að halda sig í efri hluta deildarinnar, liðið er nú í 4. sæti með 8 stig og á ásamt Breiðabliki inni leik á önnur lið deildarinnar. Þróttarar hafa ekki náð sér á strik á Íslandsmótinu til þessa, eru í 7. sæti með 5 stig úr 5 leikjum.

Þróttarar voru sprækari en leikmenn Aftureldingar í leiknum og voru nær því að skora ef eitthvað var. Fyrri hálfleikur var afar rólegur í blíðviðrinu og það var ekki fyrr en eftir rúmlega hálftíma leik sem öðru liðinu tókst að ógna marki hins. Voru þar á ferð leikmenn Þróttar, Brynjar Sævarsson og Hjálmar Þórarinsson, en máttlitlar tilraunir þeirra runnu út í sandinn. Þá átti Eysteinn Lárusson skot yfir mark Aftureldingar eftir hornspyrnu. Eina almennilega skot Aftureldingar að marki Þróttar kom á 36. mínútu er Baldvin Hallgrímsson skaut rétt yfir af allnokkru færi.

Síðari hálfleikur var viðlíka óspennandi. Þróttarar voru meira með boltann en þeim gekk illa að brjóta á bak aftur vörn heimamanna. Að sama skapi voru sóknartilburðir Mosfellinga rýrir í roðinu. Hjálmar Þórarinsson, leikmaður Þróttar, var næst því að setja mark sitt á leikinn er hann fékk opið færi á 74. mínútu, en kollspyrna hans var örugglega varin af Axel Gomes í marki Aftureldingar.

Maður leiksins: Lárus Einar Huldarson, Þrótti.

ÍR-ingar steinlágu í Breiðholti

Leiftur/Dalvík vann góðan útisigur á ÍR í gærkvöldi, 3:0, í 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ákjósanlegar í blíðviðrinu í gærkvöldi og ÍR-völlurinn stenst vel samanburð við flesta velli á höfuðborgarsvæðinu. Markalaust var í hálfleik eftir nokkuð hraðan leik í fyrri hálfleik, þar sem herslumuninn vantaði hjá liðunum til að gera sér mat úr sóknaraðgerðum sínum. ÍR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn hins vegar af nokkrum krafti, og héldu ágætri pressu á lið gestanna. En Sigurjón Egilsson braut ísinn fyrir norðanmenn eftir rúmlega tuttugu mínútna leik í síðari hálfleik, með föstu skoti vinstra megin úr teignum. Við þetta datt leikurinn niður og leikmenn ÍR urðu pirraðir eftir því sem á leið. Einbeitingarleysi þeirra kostaði þá svo tvö mörk eftir skyndisóknir undir lok leiksins. Hermann Albertsson gerði annað markið og Þorleifur Árnason það þriðja, en í bæði skiptin sótti Leiftur/Dalvík upp völlinn vinstra megin. Eyjólfur Ólafsson var dómari og komst hann vel frá verkefni sínu, en lítil harka var í leiknum.

"Ég er gríðarlega sáttur við að halda hreinu á útivelli. Við byrjuðum leikinn ekki sérlega vel en í síðari hálfleik höfðum við betra sjálfstraust og spiluðum boltanum betur. Í kjölfarið tókst okkur að nýta þau færi sem sköpuðust," sagði Þorvaldur Guðbjörnsson, miðvörður Leifturs/Dalvíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Þegar fimm umferðir eru búnar af mótinu, þá er liðið í svipaðri stöðu og hann átti von á. "Við byrjuðum mótið illa, en eftir að við breyttum leikkerfinu úr 5-3-2 í 4-4-2 höfum við unnið tvo leiki í röð. Þetta er því allt að koma og þá má reikna með okkur í toppbaráttunni," sagði Þorvaldur, sem var bestur í liði gestanna í leiknum.

Maður leiksins: Þorvaldur Guðbjörnsson, Leiftri/Dalvík.

Fyrsta stig Sindramanna

Á Höfn nældi Sindri sér í fyrsta stig sitt í deildinni þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Víking. Víkingum, sem fóru vel af stað í sumar, hefur gengið illa upp á síðkastið en um síðustu helgi lágu þeir fyrir Valsmönnum á heimavelli. Víkingar eru í fimmta sætinu með 7 stig en Sindramenn sitja sem fyrr á botninum - eru nú með eitt stig en Breiðablik, sem er sætinu fyrir ofan með 4 stig, á í höggi við Valsmenn í lokaleik fimmtu umferðar í kvöld.

Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar