[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margháttuð uppbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar næstu árin gæti kostað 25 til 30 milljarða króna verði farið að tillögum breska flugvallarfyrirtækisins BAA. Jóhannes Tómasson kynnti sér tillögurnar.

RÆTIST spár um framtíðaruppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til ársins 2025 mun farþegafjöldinn aukast úr 1,4 milljónum í 4,4 milljónir, flugvélastæðum verða fjölgað úr 12 í 27 og bílastæðum úr 1.500 í 4.800. Þá er gert ráð fyrir að fjöldi fluga á ári aukist úr 12.200 í 34.200 og starfsmannafjöldi úr 1.800 í 5.000 en þá er miðað við starfsmenn í og við stöðina sjálfa auk áhafna og starfsmanna flugfélaganna sem reka flug um Keflavíkurflugvöll.

Tilgangur framtíðaruppbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., FLE, er að meta framtíðarsýn á þróun flugstöðvarsvæðisins. Markmið þeirra er að forgangsraða framtíðarfjárfestingum, tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins og tryggja þjónustu og þægindi við farþega. Gert er ráð fyrir að þessi uppbygging kosti á bilinu 25 til 30 milljarða króna, þ.e. kostnaður við byggingar, flughlöð og akstursbrautir. Unnt er að ráðast í hana í nokkrum áföngum.

Stefnt að ákvörðun með haustinu

Fulltrúar stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. kynntu í gær tillögur um þróun og uppbyggingu stöðvarinnar og um landnýtingu á flugvallarsvæðinu. Gísli Guðmundsson, formaður stjórnarinnar, sagði að breska fyrirtækið BAA, sem rekur um 80 flugvelli og fríhafnir í Englandi og sinnir víðar ýmsum öðrum rekstri sem tengist flugi, hefði verið fengið til verkefnisins. Verkefnið var þríþætt, að gera spá um farþegafjöldann, að meta núverandi afkastagetu og móta tillögur til framtíðar. Gísli sagði stjórnina íhuga að gera tillögur BAA að sínum og Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri FLE, sagði stefnt að því að taka ákvörðun með haustinu um hvernig staðið yrði að forgangsröðun uppbyggingarinnar. Hann sagði eiginfjárstöðu fyrirtækisins sterka og reksturinn í góðu horfi og því væri unnt að leggja í meiri fjárfestingar á næstu árum. Skuldir stöðvarinnar í dag eru nærri 9 milljarðar króna.

Fram kom á fundinum að forsendur fyrir mati BAA um fjölgun flugfarþega eru m.a. spár íslenskra efnahagsyfirvalda um hagvöxt á Íslandi, upplýsingar um sögu flugstarfsemi, markaðssókn ferðamálayfirvalda, þróun flugfargjalda, flugupplýsingakerfi Keflavíkurflugvallar og almennar forsendur um þróun í flugi í Evrópu á næstu misserum. Spá BAA gerir ráð fyrir að fjöldi farþega verði kominn í 2,8 milljónir árið 2015 og um 4,4 milljónir árið 2025. Bjartsýn spá BAA þýðir 5,2 milljónir farþega árið 2025 en svartsýn spá gerir ráð fyrir 3,5 milljónum farþega. Sagði Höskuldur að gera mætti ráð fyrir að raunhæft væri að ætla farþegafjöldann á bilinu 3,9 til tæplega fimm milljóna árið 2025.

Tillögurnar gera ráð fyrir verulegri stækkun flugstöðvarinnar en forsenda þeirra er sú að stærð og umfang stöðvarinnar skuli ráðast af hámarksfjölda farþega á mestu álagstímum en ekki af fjölda farþega á ári. Höskuldur segir fyrsta skrefið líklega að stækka sjálfa flugstöðvarbygginguna bæði til austurs og vesturs til að bæta innritunaraðstöðuna og auka afköst í meðferð farangurs. Þá segir hann einnig brýnt að stækka tengibygginguna milli flugstöðvarinnar og nýju suðurbyggingarinnar, breikka hana og koma fyrir færiböndum fyrir farþega til að flýta ferð þeirra og auka afköst tengibyggingarinnar. Þetta segir hann að þyrfti að ráðast í á næstu þremur til fjórum árum. Einnig segir hann brýnt að fjölga sem fyrst bílastæðum og reisa bílastæðahús sem tengt yrði flugstöðinni.

Þá gera tillögurnar ráð fyrir allmörgum nýjum flughlöðum. Byggðir yrðu tveir landgangar til austurs frá núverandi tengibyggingu og yrðu stæði við hvorn landgang fyrir 10-15 flugvélar. Þessa landganga mætti byggja í áföngum og kom fram í máli forráðamanna FLE að yrðu tillögurnar samþykktar í stórum dráttum yrðu þær teknar til endurskoðunar eftir því sem forsendur í flugheiminum breyttust. Lögðu þeir áherslu á að svigrúm væri til að skipta stækkuninni í áfanga eftir þróun flugumferðar.

Í tillögu um landrými er gert ráð fyrir svæði fyrir innanlandsflugstöð austan við núverandi bílastæði flugvallarins. Höskuldur segir að þarna sé gert ráð fyrir að innanlandsflugið flytjist hugsanlega til Keflavíkurflugvallar eftir árið 2016 og sé einungis verið að sýna fram á að hægt sé að finna því stað á flugvallarsvæðinu. Einnig segir hann setta fram hugmynd að aðkomu járnbrautar ef sú yrði raunin í framtíðinni. Tillögur breska fyrirtækisins gera einnig ráð fyrir rými fyrir byggingu hótels og skrifstofuhúss nokkru vestan flugstöðvarinnar en slíkar byggingar yrðu ekki reistar á vegum FLE.

Forval á rekstraraðilum næstu ára í sumar

Í sumar verður efnt til forvals á rekstraraðilum á brottfararsvæði flugstöðvarinnar og um ýmsa þjónustu utan fríverslunarsvæðisins. Samningar um verslunarrekstur, veitingasölu og aðra þjónustu í FLE renna út um áramót og er markmið með forvalinu að fá nýjar hugmyndir um rekstur í stöðinni og gera núverandi aðilum kleift að koma nýjum hugmyndum sínum á framfæri.

Forráðamenn FLE segja að kröfur um stækkun, aukið öryggi, þjónustu, hraða og hagkvæmni skipti atvinnugreinina mestu máli. Lögðu þeir áherslu á að til að svo geti orðið þurfi að tryggja sveigjanlegt athafnarými og lagalega umgjörð sem henti sem best þróuninni á flugstöðvarsvæðinu. Segir Höskuldur að kanna megi ýmis atriði varðandi landnotkun og skipulag flugvallarstarfseminnar og hvernig það snertir varnarsvæðið. Um þetta þurfi viðræður við yfirvöld og skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd varnarsvæðisins.

joto@mbl.is