INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir segir ljóst að viðræður verði að fara fram milli borgaryfirvalda og flugmálayfirvalda áður en flugbrautir í Vatnsmýrinni verði lagðar af.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir segir ljóst að viðræður verði að fara fram milli borgaryfirvalda og flugmálayfirvalda áður en flugbrautir í Vatnsmýrinni verði lagðar af. Hún segist alltaf hafa búist við því að umhverfisráðherra setji fyrirvara við staðfestingu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins hvað varðar flugvallarsvæðið.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að Skipulagsstofnun fallist ekki á að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti tekið bindandi ákvörðun í svæðisskipulagi um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í áföngum. Í greinargerð stofnunarinnar er mælt með því við umhverfisráðherra að hann setji fyrirvara við staðfestingu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, sem nú bíður afgreiðslu hans, hvað varðar flugvallarmálið þar sem ekki liggi fyrir önnur stefna af hálfu stjórnvalda en að flugvöllurinn verði miðstöð innanlandsflugs á landinu. Ingibjörg bendir á að í greinargerð Skipulagsstofnunar komi fram að svæðis- og aðalskipulag sé réttur vettvangur til að hefja undirbúning að slíkum breytingum. "Aðalskipulag Reykjavíkur er auðvitað stefnumótun borgarinnar til rúmlega 20 ára og það felur í sér þá stefnu sem við höfum varðandi þetta svæði. Við höfum engin önnur tæki til þess að sýna stefnumótunina í aðalskipulagi öðruvísi en að gera það á korti eins og við gerum þarna. En það kemur jafnframt fram, og á það höfum við lagt áherslu, að í framhaldinu verði að fara fram viðræður milli borgaryfirvalda og flugmálayfirvalda um nánari útfærslu á málinu."

Viðræður verði að fara fram fljótlega

Í greinargerð Skipulagsstofnunar er talað um bindandi ákvörðun í þessu sambandi og aðspurð um það hvort svo sé ekki ítrekar Ingibjörg að um stefnumörkun borgarinnar sé að ræða. "Ég átta mig ekki alveg á því hvað átt er við með því að þessi ákvörðun sé bindandi því við breytum stundum aðalskipulagi reita. Í framhaldi af slíkri ákvörðun þurfa borgaryfirvöld að fara í viðræður við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta. En við getum ekki mótað stefnuna öðruvísi en í gegnum skipulagstillögur."

Ingibjörg segist alltaf hafa átt von á því að umhverfisráðherra myndi staðfesta skipulagið með fyrirvara um Vatnsmýrina eins og Skipulagsstofnun leggur til. "Það kemur mér ekkert á óvart. Svo má gera ráð fyrir því að viðræðurnar fari fram og einhver niðurstaða komi úr því og þá á eftir að samþykkja aðalskipulag aftur því það er gert á fjögurra ára fresti."

Hún segir ekki búið að ákveða viðræður við stjórnvöld en segist telja að það verði að gerast fljótlega. "Það eru ákveðnir hlutir sem er gert ráð fyrir að taki gildi á árabilinu 2005-2008 og það þarf auðvitað að liggja ljóst fyrir von bráðar."