Á hátíðartónleikum Menningarhátíðarinnar í Mývatnssveit kemur fram 80 manna kór úr S-Þingeyjarsýslu.
Á hátíðartónleikum Menningarhátíðarinnar í Mývatnssveit kemur fram 80 manna kór úr S-Þingeyjarsýslu.
MENNINGARHÁTÍÐ verður haldin í Mývatnssveit dagana 13. til 17. júní næstkomandi og samanstendur hún af tónleikum, upplestri, samsöng og ýmsum viðburðum við allra hæfi. Margrét Bóasdóttir söngkona stjórnar menningarhátíðinni sem nú er haldin í fjórða...

MENNINGARHÁTÍÐ verður haldin í Mývatnssveit dagana 13. til 17. júní næstkomandi og samanstendur hún af tónleikum, upplestri, samsöng og ýmsum viðburðum við allra hæfi. Margrét Bóasdóttir söngkona stjórnar menningarhátíðinni sem nú er haldin í fjórða sinn. "Hátíðin byrjaði sem nokkurs konar viðauki við Sumartónleika við Mývatn, sem staðið er fyrir nú sextánda árið í röð. Í fyrra breikkuðum við dálítið hugmyndina á bak við menningarhátíðina, bættum við myndlistarviðburðum og dagskrá tengdri þingeyskum menningararfi. Í ár ætlum við að halda áfram á þessari braut og verður hátíðin viðameiri en nokkru sinni fyrr, enda er aðalviðburðurinn, þ.e. hátíðartónleikarnir í íþróttahúsinu í Reykjahlíð, mjög stórt og metnaðarfullt verkefni," segir Margrét.

Menningarhátíðin samanstendur af fjórum dagskrám og verður sú fyrsta haldin í Skjólbrekku á morgun, fimmtudag, kl. 20.30. Dagskráin verður tileinkuð menningararfi þingeyskra kvenna og er haldin í tengslum við fyrirhugaða útgáfu bókar um efnið sem gefin verður út af Menningarsjóði þingeyskra kvenna í haust. "Dagskráin verður í tali og tónum," segir Margrét. "Þar verður lesið úr birtum og óbirtum verkum kvenna úr Þingeyjarsýslu og kvennakórinn Lissý kemur saman eftir nokkurt hlé og syngjur lög og texta eftir þingeyskar konur."

Á föstudag verður efnt til viðburðar sem að sögn Margrétar er orðinn fastur liður í menningarhátíðinni. "Það er mikil hefð fyrir því hér í Þingeyjarsýslu að syngja í fjórum röddum þegar fólk kemur saman. Á föstudaginn verður efnt til slíks samsöngs í Skjólbrekku sem Jón Stefánsson, kórstjóri og organisti í Langholtskirkju, mun stjórna. Jón er alinn upp í Þingeyjarsýslu og hefur stjórnað þessum samsöng frá upphafi. Þar koma saman allt að því hundrað manns, ungir sem aldnir, og taka þátt í nokkurs konar "opinni söngæfingu" og syngja af hjartans lyst. Á dagskrá verða ætttjarðarlögin, eða "Fjárlögin", eins og þau hafa verið kölluð, og hefst dagskráin klukkan hálfníu um kvöldið."

Meginviðburður hátíðarinnar er hátíðartónleikar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og áttatíu manna kór úr Þingeyjarsýslu, einleikara og fjórum einsöngvurum. Á efnisskrá eru óperuforleikur, einsöngslög, trompetkonsert eftir J. Haydn og Krýningarmessan eftir W.A. Mozart. "Þetta er alstærsta verkefnið sem við höfum ráðist í og kemur hér saman söngfólk úr flestum kórum í Suður-Þingeyjarsýslu, auk Kammerkórs Norðurlands," segir Margrét.

Einsöngvararnir eiga það allir sameiginlegt að vera búsettir hér á Norðurlandi eða eiga ættir sínar þangað að rekja, en það eru Sigrún Arngrímsdóttir mezzósópran, Óskar Pétursson tenór og Benedikt Ingólfsson bassi, auk Margrétar Bóasdóttur. Þá mun Ásgeir H. Steingrímsson leika einleik á trompet en stjórnandi á tónleikunum verður Guðmundur Óli Gunnarsson.

Margrét bendir á að þetta verði í fyrsta sinn sem þingeyskir kórar fá tækifæri til að koma saman og syngja með sinfóníuhljómsveit. "Krýningarmessuna hefur kórinn æft frá því í vor, og er mikil ánægja meðal kórfólksins með þessa tónlist. Ég held að það sé einkar mikilvægt að efnt sé til verkefna af þessu tagi í öðrum byggðarlögum en á höfuðborgarsvæðinu, enda hefur hátíðin sem slík gefið heimafólki tækifæri til að njóta og taka þátt í metnaðarfullum menningarviðburðum. Þetta hefði þó aldrei verið hægt hefði ekki notið við styrktaraðila sem hafa mikinn skilning á mikilvægi þess að styðja við listalíf á landsbyggðinni," segir Margrét.

Á þjóðhátíðardaginn verður lokadagskrá hátíðarinnar, sem opin verður gestum og gangandi. Flutt verður lifandi tónlist og boðið upp á veitingar á veitingahúsunum Hótel Reynihlíð, Selhóteli Mývatni og í Gamla bænum. "Leitast verður við að skapa hátíðarstemningu í tilefni af þjóðhátíðardeginum og í tónlistaratriðunum verða ungir einsöngvarar kynntir," segir Margrét Bóasdóttir að lokum.