HUGMYNDAÞING um framtíðarskipulag svokallaðs Mýrargötusvæðis verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Hugmyndavinnan sem þar verður unnin verður síðan höfð til hliðsjónar í fyrirhugaðri samkeppni um skipulag svæðisins.

HUGMYNDAÞING um framtíðarskipulag svokallaðs Mýrargötusvæðis verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Hugmyndavinnan sem þar verður unnin verður síðan höfð til hliðsjónar í fyrirhugaðri samkeppni um skipulag svæðisins.

Svæðið sem um ræðir afmarkast af Ánanaustum og Grandagarði í vestri, slippasvæði og Ægisgarði í Reykjavíkurhöfn í norðri, Norðurstíg í austri og Vesturgötu í suðri. Að sögn Helgu Bragadóttur, deildarstjóra hjá Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkur, er hugmyndin að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila á svæðinu, s.s. íbúa, atvinnurekenda og annarra sem þar starfa, en á þinginu verður til umræðu staða skipulags- og umferðarmála á svæðinu og framtíðarsýn á hafnar-, athafna- og íbúðarsvæði.

Helga segir standa til að efna til samkeppni um skipulag svæðisins í haust og hugmyndir frá þinginu verði síðan notaðar við undirbúning samkeppnislýsingarinnar. Eru allir sem hagsmuna hafa að gæta á svæðinu því hvattir til að mæta og greina frá sínum hugmyndum og væntingum varðandi framtíð þess.

Hugmyndaþingið verður sem fyrr segir haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, miðvikudaginn 12. júní, og hefst það klukkan 16:30.