ElínBjarnadóttir
ElínBjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er von Margrétar Leósdóttur og Elínar Bjarnadóttur að stjórnendur heilbrigðismála fari að taka til hendinni við breytingar, íbúum til hagsbóta.

Á höfuðborgarsvæðinu búa í dag 178.030 manns. Af þessum einstaklingum eru rúmlega 20 þúsund, eða 11%, sem ekki hafa heimilislækni. Þetta jafngildir u.þ.b. 5000 fjögurra manna fjölskyldum. Þó svo að hver heimilislæknir á höfuðborgarsvæðinu sinni að meðaltali mun fleiri einstaklingum en eðlilegt er talið (2000-2500 manns í stað 1500), er það langt frá því að duga til að þjónusta alla íbúa svæðisins. Algengt er að fólk þurfi að bíða í 3-5 daga eftir því að komast að, jafnvel 1-2 vikur þegar ástandið er sem verst. Margar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á vaktþjónustu utan venjulegs vinnutíma til að stemma stigu við þessum skorti og er Læknavaktin í Smáranum þeirra stærst. Álagið á Læknavaktina er mikið, en á meðalvakt þjónustar hún 100-150 manns. Barnalæknaþjónustan í Domus Medica veitir einnig þjónustu af svipuðu tagi fyrir börn, en þangað leita allt að 60 foreldrar með börn sín á hverjum degi.

Sérfræðingum mismunað

Stór partur af skattpeningum landsmanna fer í að halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi í landinu. Í staðinn er þeim kostnaði sem einstaklingarnir sjálfir þurfa að greiða við komu til læknis eða á sjúkrahús stillt í hóf. Ef læknir opnar einkastofu, þarf hann ná samningum við heilbrigðisráðuneytið um niðurgreiðslu hins opinbera á þjónustunni sem hann hyggst veita. Ef læknar ná ekki slíkum samningum, greiðir Tryggingastofnun (T.R.) ekki niður þessa þjónustu. Heilsugæslulæknar eru einu sérfræðimenntuðu læknarnir á Íslandi sem ekki hafa fengið tækifæri til að gera slíka samninga. Ef heilsugæslulæknir hyggst starfa á Íslandi eftir sérnám hefur hann því tvo kosti hvað varðar vinnu - annars vegar að starfa hjá hinu opinbera og hins vegar að starfa sjálfstætt án þátttöku TR, sem þýðir að sjúklingarnir þurfa að borga þjónustuna að fullu. Með hliðsjón af þessu er það ljóst að heimilislækningar hafa frekar laka stöðu þegar kemur að því fyrir unglækni að velja sér sérnám, því valið um vinnustaði eftir útskrift er ansi einhæft.

Áhugasömum vísað frá

Heimilislækningar er ein fárra sérgreina sem hægt er að læra hér á landi. Því miður eru allt of fáir unglæknar sem hafa valið þetta nám á síðustu árum. Miðað við það áhugaleysi sem er á greininni hjá læknanemum og unglæknum er ekki að sjá að þeim muni fjölga mikið á næstunni. Búast mætti við því, miðað við núverandi ástand, að reynt yrði að lokka sem flesta í námið. Reyndin hefur hins vegar verið sú að stórum hluta þeirra fáu sem sýnt hafa náminu hér heima áhuga, hefur verið vísað frá, að sögn sökum fjárskorts.

Reikningsdæmi

Setjum þetta nú allt upp í reikningsdæmi. Hvað sparast við núverandi kerfi? Jú, launakostnaður til lækna og rekstrarkostnaður heilsugæslustöðvanna er auðvitað minni en ef mönnun og umfang heilsugæslunnar væri viðunandi. Kostnaður við framhaldsnám í heilsugæslulækningum er líka minni þegar færri eru teknir inn en vilja komast að.

Hvað kostar hins vegar að svelta kerfið? Leiða má líkum að því að veikindadögum fjölgi, þar sem fólk kemst ekki til læknis þegar það þarf á að halda. Vaktþjónusta heilsugæslustöðvanna kostar væntanlega meira en betur mönnuð þjónusta á dagvinnutíma. Fjölmörg vandamál sem heilsugæslulæknar gætu auðveldlega sinnt, lenda inni á borði hjá öðrum sérfræðimenntuðum læknum, en þjónusta þeirra er að meðaltali töluvert dýrari en þjónusta sem veitt er á heilsugæslustöðvum. Álagið á stóru sjúkrahúsin eykst líka, þar sem þeir sem ekki komast að á heilsugæslum leita oft þangað í staðinn. Sú þjónusta sem þar er veitt er yfirleitt mun dýrari en sú sem heilsugæslan veitir. Þetta aukna álag af lítið veiku fólki á bráðamóttökurnar gerir það að verkum að erfiðara er að sinna bráðveikum sjúklingum. Þannig hefur þessi kreppa ekki bara kostnaðaraukandi áhrif innan heilsugæslunnar sjálfrar heldur innan alls heilbrigðiskerfins og þjóðfélagins í heild.

Mannúð að leiðarljósi

Mörgum finnst kannski kaldranalegt að leggja heilbrigðisþjónustu til jafns við hver önnur viðskipti og eru boðberar slíkrar stefnu oft sagðir ómannúðlegir. Þetta er að mati greinarhöfunda stór misskilningur. Það er ekki ómannúðlegt að vilja hag landsmanna sem mestan með því að þeir hafi aðgang að bestu mögulegu þjónustu og hafi val um hvaðan þeir þiggja hana. Auðvitað mun hið opinbera halda áfram að kosta stærstan hluta heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisráðuneytið þarf að hafa yfirumsjón með allri þjónustu í kerfinu, setja reglur og viðhalda öflugu eftirliti. Meðan ráðuneytið stendur sig í þessu hlutverki og hefur lög um heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi, þar sem segir að allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita, þurfum við ekkert að óttast.

Leiðir til úrbóta

Hvernig má þá bæta ástandið í heilsugæslunni svo framboð á þjónustu verði hvoru tveggja nægjanlegt sem og af bestu gæðum?

Í fyrsta lagi þarf að veita heilsugæslulæknum frelsi til að starfa sjálfstætt líkt og öðrum sérfræðimenntuðum læknum. Það myndi án efa lokka fleiri í stéttina, en undirmönnun er eitt stærsta vandamálið sem heilsugæslan glímir við þessa dagana. Í öðru lagi þarf að skjóta styrkari stoðum undir einkaframtakið í heilbrigðiskerfinu, en samkeppni milli ríkisrekinnar og einkarekinnar heilsugæslu undir traustu eftirliti heilbrigðisráðuneytisins, myndi að mati greinarhöfunda auka framboð og gæði þjónustunnar. Í þriðja lagi þarf að tryggja það að allir þeir sem áhuga hafa á að stunda framhaldsnám í heilsugæslulækningum hér á landi hafi aðgang að náminu, meðan skorturinn er sem nú.

Mikið er pressað á um að takmarka útgjaldaaukningu til heilbrigðismála. Ef reikningsdæmið hér að ofan er haft í huga er ekki annað að sjá en hér sé kjörið tækifæri til sparnaðar. Þannig er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. bæta þjónustuna samhliða því að spara peninga. Það er von greinarhöfunda að stjórnendur heilbrigðismála í landinu fari bráðum að sjá skóginn fyrir trjánum og taki til hendinni við breytingar, svo íbúar höfuðborgarsvæðisins geti farið að vænta mannsæmandi þjónustu í heilsugæslunni fyrr en síðar. Ekki er hægt að krefjast neins annars af þjóð sem gefur sig út fyrir að vera meðal fremstu velferðarþjóðfélaga í heiminum í dag.

Höfundar eru læknar á Landspítala - Háskólasjúkrahúsi.