Abdullah al Muhajir
Abdullah al Muhajir
JOSE Padilla, sem nú kallar sig Abdullah al Muhajir, er meðalmaður að hæð en þrekvaxinn, hann er Bandaríkjamaður og ættaður frá Puerto Rico sem er bandarísk eyja í Karíbahafi.

JOSE Padilla, sem nú kallar sig Abdullah al Muhajir, er meðalmaður að hæð en þrekvaxinn, hann er Bandaríkjamaður og ættaður frá Puerto Rico sem er bandarísk eyja í Karíbahafi. Hann er nú í haldi, grunaður um að hafa ætlað að myrða fjölda óbreyttra borgara í Washington með sprengju er dreifa myndi geislavirkum efnum um stórt svæði. Geislasprengjur af þessu tagi eru stundum nefndar "skítugar sprengjur". Muhajir mun hafa snúist til íslamstrúar í fangelsi og var um hríð í Pakistan og Afganistan í búðum al-Qaeda samtakanna þar sem hann lærði meðal annars að fara með sprengiefni.

Að sögn dagblaðsins The Washington Post er Muhajir 31 árs, fæddur í Brooklyn í New York en alinn upp af móður sinni í fátækrahverfi í Chicago í Illinois og átti heima í grennd við Logan-torg. Föður sinn missti hann í æsku. Borgarhverfið var áður hverfi pólskra innflytjenda og afkomenda þeirra en er nú að mestu byggt fólki sem á ættir að rekja til Rómönsku Ameríku. Mannlíf á staðnum er þjakað af hárri glæpatíðni og fáir unglingar þar ljúka prófi í framhaldsskóla. Nelly Ojeda, 64 ára gömul kona í hverfinu, man vel eftir Jose, hún bjó í sama fjölbýlishúsi. "Ég held að þessi strákur hafi ekki gert neitt af sér," segir hún og minnist þess að hann hafi haldið sig mikið heima við. "Hann var vanur að heilsa með "hæ" og brosti oft." Aðrir nágrannar segja að Jose hafi verið stilltur drengur, hann hafi gengið undir gælunafninu "Pucho".

Dómur fyrir vopnað rán

Í hverfum af þessu tagi er mikill þrýstingur á alla drengi að taka þátt í afbrotum unglingagengjanna og erfitt að halda sig utan við þau. Er Jose var unglingur var hann handtekinn að minnsta kosti fimm sinnum og var þrisvar dæmdur, meðal annars fyrir vopnað rán. Eitt sinn mun hann hafa verið grunaður um aðild að morði þegar hann var 13 ára en óljóst er hvort hann hlaut dóm og vegna ungs aldurs var málið ekki fært inn á sakaskrá hans.

Hann var á stofnun fyrir vandræðaunglinga í Illinois 1985-1988 en upp úr 1990 flutti hann búferlum til Flórída og starfaði meðal annars á Holiday Inn-hóteli í Fort Lauderdale þar sem hann bjó með unnustu sinni. En ekki liðu nema tvær vikur þar til hann komst enn í kast við lögin. Hann lenti í árekstri á svörtum Toyota Tercel-bíl sínum og veifaði þá silfurlitaðri skammbyssu framan í hinn ökumanninn. Maðurinn elti hann til að reyna að ná bílnúmerinu, Padilla skaut að honum en missti marks þótt færið væri innan við tíu metrar.

Lögreglan handtók Padilla á heimili hans og reyndi hann þá að seilast til byssunnar en var yfirbugaður eftir harðar stympingar. "Hann var fjári sterkur," segir Wilbur Kegler, lögreglumaður sem tók þátt í handtökunni og segir hann að Padilla/Muhajir hafi verið mjög ofbeldisfullur.

Er sakborningurinn kom fyrir rétt neitaði hann að tala við nokkurn mann, að sögn Keglers. Í réttarskýrslum kemur fram að hann kvartaði við dómara yfir slæmri meðferð á sér. Er dómarinn spurði Padilla hvað hann vildi svaraði hann: "Ég vil bara að fólk sé heiðarlegt við mig, segi mér hvað gangi á."

Eftir árs fangelsisvist og meðferð vegna fíkniefnaneyslu var hann margsinnis handtekinn fyrir umferðarlagabrot. Konan sem hann leigði hjá, Norma Leon, sagði móður hans hafa síðustu árin borið sig illa yfir því að sonurinn hefði farið úr landi og gengið í trúarsöfnuð. "Hún var hrædd um hann," segir Leon. Er móðirin var yfirheyrð sagðist hún ekki hafa heyrt frá syni sínum eftir að honum var sleppt síðast úr fangelsi í Flórída.