Hús  Þorsteins Njálssonar á ferðinni. Gárungarnir á Hellu sögðu þetta myndarlega hús, sem hafði helgarviðdvöl við Suðurlandsveginn, alveg tilvalið ráðhús fyrir hið nýja sameinaða sveitarfélag. Það sómdi sér vel og sumum fannst það alltaf hafa verið þarna,
Hús Þorsteins Njálssonar á ferðinni. Gárungarnir á Hellu sögðu þetta myndarlega hús, sem hafði helgarviðdvöl við Suðurlandsveginn, alveg tilvalið ráðhús fyrir hið nýja sameinaða sveitarfélag. Það sómdi sér vel og sumum fannst það alltaf hafa verið þarna,
ÞAÐ tók sig vel út á Hellu, gamla skátaheimilið úr Hafnarfirði, sem núna hefur reyndar verið sett niður á sinn stað á bænum Lambafelli undir Eyjafjöllum.

ÞAÐ tók sig vel út á Hellu, gamla skátaheimilið úr Hafnarfirði, sem núna hefur reyndar verið sett niður á sinn stað á bænum Lambafelli undir Eyjafjöllum. Öflugir trukkar, stórvirkir kranar og samstilltur hópur vanra manna flutti húsið með töluverði fyrirhöfn og tilfæringum frá Hafnarfirði austur í Rangárþing, en vegna breiddar hússins þurfti að fara um Óseyrarbrú og alla leið upp fyrir Búrfell yfir Þjórsá við Sultartangavirkjun, alls um 260 kílómetra leið.

Þorsteinn Njálsson læknir í Hafnarfirði stendur fyrir húsaflutningnum, en hann hyggst nýta húsið undir ferðaþjónustu á Lambafelli, auk þess sem þar mun skapast aðstaða til námskeiðahalds í tengslum við aðaláhugamál hans, samspil hefðbundinna og óhefðbundinna lækninga. Að sögn Þorsteins var húsið byggt undir verslun árið 1903 af Ágústi Flygenring og Bæjarútgerð Hafnarfjarðar nýtti það síðar fram til 1960 þegar skátunum var gefið húsið, en til hafði staðið að rífa það. Þá var það flutt að Hrauntungu og notað sem skátaheimili þar til fyrir 8 árum að skátarnir byggðu sér nýtt samkomuhús. Aftur stóð til að rífa húsið og segja má að það hafi verið á hálfgerðum hrakhólum í nokkur ár, þangað til Þorsteinn festi sér húsið og ákvað að flytja það undir Eyjafjöllin.

Húsið er nokkuð stórt eða um 115 fermetrar á tveimur hæðum, 7½ metri á breidd og 15 metra langt og þurfti RARIK víða að lyfta rafmagnslínum á leiðinni. Við Þverá þurfti að skrúfa brúarhandrið af og rjúfa þurfti straum til Vestmannaeyja í um klukkustund þegar flutningurinn fór undir rafmagnslínuna til Eyja. En allt gekk þetta snurðulaust fyrir sig og nú er húsið, sem nokkrum sinnum átti að rífa í Hafnarfirði, komið með nýtt hlutverk í sveitinni.