JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra segist fylgjast vel með þeirri umræðu sem fram fer hér á landi og erlendis um einkarekstur inni á sjúkrastofnunum. Umræðan sé athyglisverð en ákvarðanir hafi ekki verið teknar um frekari einkavæðingu.

JÓN Kristjánsson heilbrigðisráðherra segist fylgjast vel með þeirri umræðu sem fram fer hér á landi og erlendis um einkarekstur inni á sjúkrastofnunum. Umræðan sé athyglisverð en ákvarðanir hafi ekki verið teknar um frekari einkavæðingu.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag eru uppi hugmyndir í Svíþjóð og Danmörku um að bjóða út rekstur einstakra deilda á ríkisreknum sjúkrahúsum og hafa danskir stjórnmálamenn deilt um þessar hugmyndir.

Jón minnir á að hugmyndir hafi verið uppi hérlendis um að einkavæða göngudeildir Landspítalans. Tíðindin frá Norðurlöndum séu angi af þeirri umræðu.

"Það eru engin sérstök einkavæðingaráform uppi hjá okkur. Fram fer mikil einkavæðing inni í kerfinu með samningum við einkareknar stofur sérfræðinga. Það hefur ekki náð til inniliggjandi sjúklinga," segir Jón og bendir á að í raun sé starfandi stór og einkarekin göngudeild í Mjódd án þess að þar séu sjúklingar lagðir inn.

"Menn verða að gá vel að sér í þessu, kanna hvað sé hagkvæmt og hvað veiti sjúklingunum besta þjónustu. Við höfum ekki viljað útiloka neinar leiðir. Rekstrarformið er ákveðið tæki en aðalatriðið er að sambærilegir möguleikar séu fyrir alla þegna þjóðfélagsins," segir heilbrigðisráðherra.