TÆKIST hryðjuverkamönnum að sprengja geislasprengju í miðborg Washington yrði manntjónið að öllum líkindum frekar lítið en geislamengunin gæti valdið ofsahræðslu meðal almennings, sem myndi leiða til öngþveitis á sjúkrahúsum og akbrautum og jafnvel...

TÆKIST hryðjuverkamönnum að sprengja geislasprengju í miðborg Washington yrði manntjónið að öllum líkindum frekar lítið en geislamengunin gæti valdið ofsahræðslu meðal almennings, sem myndi leiða til öngþveitis á sjúkrahúsum og akbrautum og jafnvel langvarandi efnahagsvandamála.

Líklegt er að fólk á mengaða svæðinu freistaðist til að forða sér í burtu, annaðhvort á sjúkrahús eða til fjölskyldna sinna, í stað þess að vera um kyrrt og bíða eftir hjálp, og yki þannig hættuna á að geislamengunin breiddist út, að sögn bandarískra sérfræðinga.

"Við höfum aldrei þurft að taka á slíku vandamáli," sagði Phil Anderson, fræðimaður við bandarísku rannsóknarstofnunina Center for Strategic and International Studies, sem stóð fyrir æfingu í Washington í mars þar sem æfð voru viðbrögð við geislasprengingu í bandarísku höfuðborginni.

Skýrt var frá því í fyrradag að bandarísk yfirvöld hefðu handtekið meintan liðsmann hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda sem lagt hefði á ráðin um að smíða og sprengja geislavirka sprengju.

Anderson og fleiri sérfræðingar sögðu að þessi tíðindi sýndu ekki aðeins að bandarísk yfirvöld þyrftu að vera viðbúin slíkri árás, heldur þyrfti einnig að fræða almenning um afleiðingarnar.

Geislasprengjur eru tiltölulega einföld vopn. Tilræðismaðurinn vefur öflugu sprengiefni utan um einhvers konar geislavirkt efni og sprengir það. Við það breiðist geislavirka efnið út í næsta nágrenni við sprengingarstaðinn.

Geislasprengjur eru ólíkar kjarnavopnum sem leysa gífurlega orku úr læðingi í kjarnahvörfum.

Viðbrögð almennings myndu skipta sköpum

Michael Levi, eðlisfræðingur hjá Bandalagi bandarískra vísindamanna, FAS, kvaðst efast um að bandarísk yfirvöld væru nógu vel undir það búin að leysa þau vandamál sem gætu komið upp eftir geislasprengjuárás, til að mynda við að flytja fólk á brott, eyða geislavirkum efnum á stóru svæði og sjá óttaslegnu fólki fyrir læknisaðstoð. "Við höfum ekki haft neina lokaæfingu í þessu og hún á aldrei eftir að fara fram," sagði hann. "Ef læknarnir okkar verða ekki þjálfaðir í því að greina veikindi vegna geislamengunar frá geðvefrænum einkennum er hætta á að opinbera heilbrigðiskerfið sligist undan álaginu."

Mohammed Akhter, framkvæmdastjóri Bandaríska lýðheilsufélagsins, APHA, sagði að viðbrögð almennings myndu skipta sköpum. "Læknisfræðilega erum við undir þetta búin. Óttinn er hins vegar sá þáttur sem við þurfum að búa okkur undir."

Hreinsunin yrði mjög dýr

Að sögn Andersons yrði það líklega óhemju dýrt að hreinsa mengaða svæðið. Henry Kelly, eðlisfræðingur sem fer fyrir Bandalagi bandarískra vísindamanna, sagði þegar hann kom fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings nýlega að ef geislasprengja spryngi í National Gallery of Art í Washington, safni sem er undir yfirstjórn Smithsonian-stofnunarinnar, kynni að þurfa að loka þinghúsinu, dómhúsi hæstaréttar Bandaríkjanna og bókasafni þingsins í mörg ár, jafnvel áratugi.

Geislasprenging gæti einnig valdið langvarandi efnahagsvandamálum flýðu margir íbúanna borgina og neituðu að mæta til vinnu.

Sprengingin mannskæðari en geislavirknin

Sérfræðingarnir vildu ekki gera of lítið úr hættunni sem stafar af geislasprengjum en nokkrir þeirra sögðu að hún væri tiltölulega lítil miðað við ógnina af efna- og sýklavopnum og ekki sambærileg við eyðilegginguna sem kjarnavopn geta valdið.

"Menn geta skotið mörgu fólki skelk í bringu, án þess að skaða það, með því að dreifa geislavirkum efnum yfir stórt svæði," sagði Andrew Karam, sérfræðingur í geislafræði við Rochester-háskóla. "Ég veit hins vegar ekki hvernig hægt er að skaða marga á stóru svæði með slíkri sprengju."

Karam kvaðst telja að ef geislasprengjuárás yrði gerð myndu fleiri láta lífið af völdum sprengingarinnar en vegna geislavirku efnanna. "Vanþekkingin myndi þó valda mestu manntjóni, vegna þess að fólk myndi flykkjast á sjúkrahúsin að óþörfu, lenda í bílslysum eða fá hjartaáfall."

Karam og fleiri sérfræðingar sögðu að hættan sem stafaði af ofanfalli geislavirkra efna eftir slíka sprengingu væri tiltölulega lítil, fólk myndi að öllum líkindum ekki veikjast nema það dveldi í mörg ár á menguðu svæði. 2.000 manns létu lífið af völdum kjarnorkuslyssins í Tsjérnóbyl-verinu í Úkraínu árið 1985 en geislamengunin þar var miklu meiri en nokkur geislasprengja er talin geta valdið.

"Þegar geislasprengja springur hafa langflestir nægan tíma til að bregðast við," sagði Norman Coleman, sérfræðingur í rannsóknum á geislamengun við Bandarísku krabbameinsstofnunina, NCI. "Þetta snýst næstum eingöngu um heilbrigða skynsemi. Menn fara inn, þvo sér og losa sig við efnin."

Talið er að lítið hlutfall þeirra, sem komast í snertingu við geislavirku efnin, geti fengið krabbamein síðar, en ekki nema þeir séu berskjaldaðir fyrir efnunum í mörg ár.

Ólíklegt að al-Qaeda smygli efnunum

Sérfræðingarnir telja að hryðjuverkamenn myndu nota geislavirkar kóbalt-, sesíum- eða strontíumsamsætur - sem notaðar eru þegar matvæli eru meðhöndluð með geislum til að drepa sýkla eða við sótthreinsun tækja á sjúkrahúsum - eða ameríkíum, tilbúið geislavirkt frumefni sem notað er við olíuleit.

Bandarísk yfirvöld telja að al-Qaeda eigi nógu mikið af slíkum efnum til að geta gert geislasprengjuárás í Bandaríkjunum en bandaríska leyniþjónustan telur nánast öruggt að samtökin geymi þau enn í Suður- og Mið-Asíu. Bandarísku hermennirnir í Afganistan hafa ekki fundið nein merki um geislavirk efni og sérfræðingar telja ólíklegt að al-Qaeda reyni að smygla þeim til Bandaríkjanna og taki þá áhættu að þau finnist. Líklegra sé að þeir reyni að kaupa geislavirku efnin eða stela þeim í Bandaríkjunum.

Geislavirkir hlutir í reiðuleysi

Birgðir Bandaríkjamanna af plútoni og auðguðu úrani, sem notað er í kjarnorkusprengjur, eru í öruggri geymslu, en öðru máli gegnir um efnin sem þarf í geislasprengjur. Þúsundir fyrirtækja, háskóla og sjúkrahúsa nota sesíum, strontíum, kóbalt og ameríkíum í Bandaríkjunum. Fá þessara fyrirtækja og sjúkrahúsa eru með nógu öfluga öryggisgæslu til að geta komið í veg fyrir að vopnaðir menn steli efnunum.

Bandarísk yfirvöld birtu nýlega skýrslu þar sem fram kemur að frá árinu 1996 gátu bandarísk fyrirtæki ekki hent reiður á hvar 1.500 geislavirkir hlutir í eigu þeirra voru niðurkomnir og rúmur helmingur þeirra fannst aldrei. Talið er að allt að 30.000 geislavirkir hlutir hafi verið skildir eftir í reiðuleysi eða að þeim hafi verið fleygt, að sögn Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, EPA.

The Washington Post, Los Angeles Times, Newsday.