TAÍVANSKIR prófessorar sem hugðust taka þátt í Tólftu norrænu baltísku ráðstefnunni í heilbrigðisverkfræði og heilbrigðiseðlisfræði, sem verður haldin í Reykjavík í næstu viku, hafa ekki fengið vegabréfsáritun til Íslands.

TAÍVANSKIR prófessorar sem hugðust taka þátt í Tólftu norrænu baltísku ráðstefnunni í heilbrigðisverkfræði og heilbrigðiseðlisfræði, sem verður haldin í Reykjavík í næstu viku, hafa ekki fengið vegabréfsáritun til Íslands. Að sögn Þórðar Helgasonar, heilbrigðisverkfræðings á Landspítalanum og forseta ráðstefnunnar, hafa einhverjir þeirra haft samband við forsvarsmenn hennar í gegnum tölvubréf og kvartað undan því að fá ekki vegabréfsáritun til Íslands. Í tölvubréfi frá einum prófessoranna segir að hann hafi fengið þær slæmu fréttir að íslensk stjórnvöld veiti hvorki Taívönum né Hong Kong-búum vegabréfsáritanir til Íslands næstu daga vegna heimsóknar kínverska forsetans til Íslands. Hann segir að hann og nokkrir samstarfsmanna hans hafi skilað inn greinum fyrir ráðstefnuna og að auki greitt ráðstefnugjald, ferðir og gistingu vegna Íslandsferðarinnar. Hann segir þau öll áhugasöm um að komast á ráðstefnuna ef aðstandendur hennar geti aðstoðað þau við að fá vegabréfsáritun. Tíminn sé naumur svo nauðsynlegt sé að grípa strax til ráðstafana.

"Við erum ekki mjög ánægðir með að þetta muni hugsanlega trufla ráðstefnuna, það er að segja ef fólkið fær ekki vegabréfsáritun. Það eru 140 fyrirlesarar væntanlegir á ráðstefnuna og það er töluvert að missa 9 manns úr ekki stærri hópi. Við höfum haft samband við bæði dómsmála- og utanríkisráðuneytið og að þeirra sögn var sendur út listi með nöfnum þessa fólks og beðið um að það fái áritun. Fólkið ætlar eflaust að leggja af stað hingað ekki seinna en á föstudag eða laugardag svo það er ekki seinna vænna að þetta komist á hreint," segir Þórður.